12.11.1964
Efri deild: 14. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

70. mál, búfjárrækt

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það var alls ekki meining mín að gera lítið úr hæstv. landbrh. eða lítið úr hæstv. ríkisstj., enda þótt ég minnti á það í ræðu minni, að það væri þýðingarmikið fyrir bændastétt landsins að hafa öflugan félagsskap, hafa öflugt leiðbeiningakerfi, eins og starfar á vegum Búnaðarfélags Íslands, og hafa öflugt Stéttarsamband bænda, sem jafnan er vakandi yfir málefnum landbúnaðarins. Ég held, að sá maðurinn, sem mest mætti fagna því, að til eru slíkar stofnanir í landinu eins og Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, sé fyrst og fremst landbrh., því að ef hann leitar vel innan þeirra samtaka, getur hann jafnan fundið styrk og stoð, ef hann vill berjast fyrir málefnum landbúnaðarins, sem ég efast ekki um.