02.03.1965
Efri deild: 48. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

70. mál, búfjárrækt

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í þessari d. gerði hæstv. landbrh. grein fyrir frv. og tildrögum þess, að það er fram borið, og ætlazt er til, að það verði afgreitt á þessu þingi, fer ég því ekki út í það.

Í þessu frv. felast ekki veruleg nýmæli frá eldri l. um búfjárrækt, sem eru að stofni til frá 1943 aðallega og svo með breytingum frá 1957. Aðalbreytingar frá eldri l. eru í kaflanum um ásetningu og skoðun á fóðurbirgðum, og er þar leitazt við að finna leiðir til þess, að þau mál fari betur úr hendi en verið hefur með því að fela héraðsráðunautum í hverri sýslu yfirumsjón með ásetningi og athugun á fóðurbirgðum og fóðrun á búfé. Ég tel, að þetta horfi til talsverðra bóta og sé því nokkurs virði, þetta ákv æði í lögunum.

Þá eru ákvæði í frv. um vísitöluhækkun á framlögum samkv. búfjárræktarl., sem miða skal við framkvæmdakostnað, á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í frv. til jarðræktarlaga, sem nú liggur fyrir Alþ., og er þetta nýmæli frá því, sem áður hefur verið, því að fram að 1960 voru ákvæði um verðlagsuppbót, sem fóru þá

eftir framfærsluvísitölu, en síðan 1960 hafa framlög í þessu skyni staðið í stað.

Þá hefur landbn. gert nokkrar breytingar við frv. og orðið sammála um þær breytingar, sem prentaðar eru á þskj. 275, og tel ég rétt, að ég fari örfáum orðum um þær brtt. hverja eina.

Í 10. gr. eru þau ákvæði, að styrkur til nautgriparæktarfélaga vegna fitumagns á mjólk sé breytilegur eftir því, hversu mjólkin er oft mæld. Sú regla hefur gilt, að þessi aðstoð sé mismunandi há eftir því, hvort mjólkin er mæld og rannsökuð sjaldnar en sex sinnum á árl, annan hvorn mánuð eða mánaðarlega. N. hefur orðið ásátt um að leggja til, að þetta breytist þannig, að mismunurinn sé aðeins eftir því, hvort mjólkin er mæld sjaldnar en sex sinnum á ári eða annan hvorn mánuð minnst. Þetta er gert í samráði við nautgriparæktarráðunauta, sem telja, að í framkvæmd hafi það færzt í það horf á seinni árum, að mjólkin sé yfirleitt mæld samkv. 1. og 3. tölul. gr. Ég hef leitazt við að komast eftir því, hvort þetta valdi verulegum breytingum á kostnaði ríkissjóðs til styrktar þessari starfsemi, og virðist svo, að það muni ekki hafa nein teljandi áhrif, svo að ekki mun vera hægt að gera neitt verulegt úr því, að þessi breyting valdi kostnaðarauka.

Breyting við 12. gr. er aðeins nánari útfærsla á því, sem fram eigi að taka í samþykktum um nautgriparæktarfélög.

Við 17. gr. er smávægileg breyting til lagfæringar á orðalagi.

Við 18. gr. er sú ein breyting, að 2. tölul. gr. er styttur, með því að það, sem niður er fellt, er óþarft með öllu og óeðlilegt, þar sem slík ákvæði eiga að sjálfsögðu að vera í samþykktum þeim, sem greinin fjallar um.

Við 64. gr. er smávægileg breyting, einungis nánari útfærsla á störfum forðagæzlumanna. Við 65. gr. er veruleg breyting frá því, sem verið hefur í l. og framkvæmd um það efni, sem gr. fjallar um, en það er skýrsluhald fóðurbirgðafélaga. Breytingin er gerð í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands og þann mann í Búnaðarfélaginu, sem hefur eftirlit með skýrsluhaldi, svo og hagstofustjóra, sem telur þessa breytingu verulega til bóta, að því er snertir öflun á þeim upplýsingum, sem hagstofan fær í gegnum þessar skýrslur.

Við 66. gr. er lítils háttar orðalagsbreyting um tilgang fóðurbirgðafélaga og við hann bætt ákvæðum, sem stuðla eiga að bættri hirðingu búfjár og meðferð þess.

Við 72. gr. er leiðrétting á prentvillu.

Við 73. gr. er sú breyting ein, sem er afleiðing af breytingu á 65. gr., ef samþ. verður.

Þá skal þess enn getið. að á fundi landbn. í morgun kom n. sér saman um að flytja enn eina brtt. víð frv., þ. e. við 48. gr., sem fjallar nm hrossarækt. Brtt. þessi hefur ekki verið prentuð á þskj., og flyt ég hana því hér skrifl. og hún er þannig:

„Heimilt er að veita hrossaræktarfélögum fjárframlag til stofnræktar hrossa, ef ráðunautar Búnaðarfélags Íslands og stjórnir hrossaræktarsambanda og búnaðarsambanda þeirra, sem sett hafa sér búfjárræktarsamþykkt, mæla með. Árlegt framlag í þessu skyni má vera 300 kr. á hverja skýrslufærða hryssu, enda hlíti sá, er framlags nýtur, ráðum og umsjá hrossaræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands.“

Það hefur verið mjög eftir því leitað af hálfu Landssambands hrossaræktarfélaga að fá inn í l. ákvæði, sem heimiluðu hrossaræktarfélögum að hefjast handa um stofnræktun góðhesta. Ég hef rætt þetta mál við hrossaræktarráðunaut Búnaðarfélagsins, og hann er því mjög fylgjandi., að grein áþekk þessari komi inn í lögin. Svo og hafa ýmsir áhugamenn um góðhrossarækt hreyft þessu máli við n., og hún hefur talið rétt að verða við þessum óskum. Það skal fram tekið, að það liggur ekki ljóst fyrir, hvað þetta mundi kosta, en eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, eru það mjög óverulegar upphæðir, því að ekki eru líkur til, að nema 1—2 hrossaræktarfélög verði stofnuð á næstunni með það fyrir augum að njóta þessa styrks og þá með aðeins fá hross til þess að gera.

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. með ósk um það, að hún verði afgreidd hér.

Þess skal svo að lokum getið, að framlag vegna búfjárræktarl., eins og þau hafa verið frá því 1957, var áætlað fyrir árið 1964 3 millj. kr. úr ríkissjóði. Þá höfðu þessi framlög staðið í stað síðan ákvæði um framfærsluvísitölu voru numin úr gildi 1960. Búnaðarfélag Íslands hefur tekið að sér að reikna út, hversu mikil gjaldaaukning mundi verða samfara því að samþykkja þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, og telur, að hækkunin mundi verða 1 millj. og tæpar 500 þús. kr. eða um 47.3% aukning. Tvær af þeim breytingum, sem landbn. leggur hér til að verði samþ., geta komið til með að valda einhverri mjög smávægilegri hækkun á þessari áætlun, en ekki það mikill, að talið verði, að það nemi nema mjög óverulegum upphæðum. Það er breytingin á 10. gr. og breytingin á 43. gr., sem ég lýsti hér áðan.

Þá skal þess enn getið, að í sambandi við þá skrifl. brtt., sem ég flutti hér áðan, hafa komið fram nokkrar fleiri brtt. frá einstökum nm. í landbn., en ein þeirra, liður 6, fjallar um sama efni og sú brtt., sem ég flutti hér áðan fyrir hönd n. og gengur að vísu aðeins styttra en till. hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Austf., en á nefndarfundi hefur orðið samkomulag um það, að þeir sætta sig við að draga þá till. til baka. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fara út í þær aðrar brtt., sem fyrir liggja á þskj. 283, en get þess aðeins, að þær hafa verið til umr. í n. og n. ekki séð sér fært að styðja þar sem heild. Þær fjalla aðallega um hækkanir á tölum, og má að sjálfsögðu lengi deila um það, hvað hæfilegt sé að ákveða, þegar um fjárframlög er að ræða, en ég tel, að miðað við samkomulag, sem gert var í haust um þetta frv., sé því samkomulagi fullnægt með þeim fjárveitingum, sem frv. gerir ráð fyrir yfirleitt, að því er tölur snertir, og hef ekkí treyst mér til að mæla með þessum hækkunum. Ég tel að vísu, að sumar tölur væri kannske æskilegt að hækka, en mjög vafasamt um aðrar, og hef ég tekið þá afstöðu, að eðlilegast væri að láta þær allar vera óbreyttar frá því, sem er í því frv., sem hér liggur fyrir, og sem fjárframlög til bændastéttar tel ég að þær skipti ekki verulegu máli.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til, að þær breytingar, sem landbn. í heild hefur orðið sammála um að flytja, verði samþykktar.