02.04.1965
Neðri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

70. mál, búfjárrækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er aðallega vegna síðustu orða hv. frsm., að ég tek til máls. Ég býst við, að hv. alþm. þekki forsögu þessa máls. Búnaðarþing óskaði eftir því, að búfjárræktarl. væru endurskoðuð, og það var skipuð n. í samráði við landbrn. til þess að endurskoða lögin. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að breytingarnar frá eldri l. eru aðallega í því fólgnar að hækka hin ýmsu framlög til búfjárræktarinnar. En það er þó nokkuð meira í þessum lögum en það. Það eru ýmis ákvæði, sem varða búfjárræktina sérstaklega, utan þess að fá framlög úr ríkissjóði til hennar.

N., sem skipuð var af Búnaðarfélaginu í samráði við landbrn., vann að þessu máli, og frv. er flutt raunverulega óbreytt frá því, sem n. skilaði því af sér, að öðru leyti en því, að það er sérstakt ákvæði um það, hvernig verðlagsuppbótin skuli fundin samkv. sérstakri vísitölu.

Það má vel vera, að það hafi mátt þjappa þessu frv. saman og hafa það í styttra máli og þó ná sama árangri eða jafnvel betri. Það hefði mátt hafa styrkina eða framlögin í öðru formi, þannig að það hefði ekki verið í svo mörgum liðum sem það er í frv. En þetta finnst mér ekki skipta neinu höfuðmáli. Búnaðarfélagið og búnaðarþing hafa lagt áherzlu á að fá þetta fram, og framlög til búfjárræktarinnar eru hækkuð verulega, og þetta má verða til þess að stuðla að því, að kynbætur og tilraunir eigi sér frekar stað en áður. Og það er eitt af því, sem ber brýna nauðsyn til, að gera ýmsar athuganir, kynbætur og tilraunir í sambandi við búfjárræktina ekki síður en aðrar greinar atvinnulífsins og atvinnuveganna yfirleitt.

Um brtt., sem hv. landbn. flytur á þskj. 386, er fátt að segja. Það er rétt, að 1. till. er alveg í samræmi við till., sem samþ. var við jarðræktarl., og það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að það er eðlilegt, að það sé samhljóða í búfjárræktarl. og jarðræktarl. varðandi launagreiðslur til héraðsráðunautanna. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að gera þessar till. hv. landbn. að umtalsefni. Það má gera ráð fyrir því, að a.m.k. 4, till. og sú 5. reyndar líka

gætu valdið nokkrum ágreiningi, ekki víst, að allir líti sömu augum á það, en ég tel ekki ástæðu til að ræða um það sérstaklega. Hv. alþm. geta skorið úr því, hvað þeir vilja í því efni. En hér er komið inn á dálítið viðkvæmt mál, sem hv. alþm. munu yfirleitt þekkja.