20.10.1964
Neðri deild: 4. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

5. mál, verðtrygging launa

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er gert á grundvelli þeirra samninga, sem verkalýðshreyfingin, ríkisstj. og atvinnurekendur gerðu með sér í vor. Það er fram borið til þess að lögfesta höfuðatriði þessara samninga, — og þá var samið um efni þessa frv.

Í 20 ár, frá því 1940 til 1960, hafði verkalýðshreyfingin búið við það öryggi, sem verðtrygging á kaupið veitir. En með gengisfellingarlögunum 1960 var þetta afnumið og þá sagt, að það væri einn af hornsteinum viðreisnarstefnunnar. Verðlagið mátti hækka óheft, en kaupið átti að vera fast. Það átti að skammta launþegunum smærri krónur í trausti þess, að samtökin væru ekki nægjanlega sterk til að fjölga krónunum í hlutfalli við verðhækkanirnar. Það átti að leysa vanda efnahagsmálanna með kauplækkunum. Reynslan hefur nú sýnt okkur, að þau mál verða ekki leyst í stríði við verkafólkið. Ég held, að þetta frv. sé einmitt bezta staðfesting þess. En á þeim tíma, sem liðinn er síðan 1960, hefur verið meira öryggisleysi á vinnumarkaðinum heldur en áður var. Það hafa verið tíðari og harðari vinnudeilur og verkföll. Miklar verðhækkanir og óheftar á þessu tímabili hafa síðan óhjákvæmilega leitt af sér kauphækkanir. Jafnvægisleysi og síaukin dýrtíð hefur einmitt einkennt þetta tímabil. Það var til þess að stemma stigu við þessari þróun, sem Alþýðusambandið sendi ríkisstj. í s.l. aprílmánuði orðsendingu sína. Þá bauð verkalýðshreyfingin fram samstarf, til þess að hefta verðbólguna og tryggja um leið óhjákvæmilegar kjarabætur til fólksins. Höfuðefnið í kröfum okkar í sumar og þeim samningum, sem þá voru gerðir, felast í þessu frv.

Ég tel, að endurheimt verðtryggingarinnar á launin sé forsenda þess, að hægt sé að taka upp nýja stefnu í þróun efnahagsmálanna, stefnu, er tryggi launafólki og þá um leið atvinnurekstrinum meira afkomuöryggi en verið hefur. En þetta eitt nægir ekki. Þrátt fyrir kaupgjaldsbaráttu undanfarinna ára hefur ekki tekizt að halda í við verðhækkanirnar. Síðan 1960 hefur vísitala matvörunnar hækkað um 100%, vísitala vöru og þjónustu hefur samtals hækkað um 85%, en á sama tíma hefur almennt kaup hækkað um 55—60%. Við sjáum af þessu, að það hefur að nokkru tekizt, sem gera átti, að lækka kaupmáttinn verulega. Það, sem nú bíður, er að jafna þetta bil og meira á sem allra skemmstum tíma. Tímann fram til næsta vors verður bæði ríkisvaldið og atvinnurekendur að nota vel til að geta þá orðið við óhjákvæmilegum kröfum verkalýðshreyfingarinnar um hækkað kaup, um styttan vinnudag og ýmis réttindamál. Á þetta vildi ég nú leggja sérstaka áherzlu. Og það ætti að vera óþarfi að minna á, að verkalýðshreyfingin metur til kaupgildis hverja þá ráðstöfun, sem verða má til þess, að launin nýtist betur. Þessu hefur verkalýðshreyfingin marglýst yfir, og það er hennar stefna.

Þróun efnahagsmálanna undanfarin ár hefði áreiðanlega orðið önnur og betri, ef í gildi hefði verið verðtrygging á launin. Það mikla öryggisleysi og órói, sem verið hefur á vinnumarkaðinum, hefði þá ekki verið hinn sami. Og þá hefði hæstv. ríkistj., svo að dæmi sé nefnt, tæplega lagt í að framkvæma þá vanhugsuðu hefndarráðstöfun, sem gengisfellingin 1961 var.

Ég ætla ekki að tala hér langt mál. Ég vil að lokum aðeins lýsa fylgi mínu við það frv., sem hér liggur fyrir. Það er efnislega í samræmi við þá samninga, sem gerðir voru í vor, og er til staðfestingar þeim. Ég vil vona, að þetta mál fái greiðan gang gegnum umr. hér á hv. Alþingi.