15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

101. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Lög um lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna eru frá árinu 1955. Á s.l. ári voru sett ný lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóð barnakennara með allverulegum breytingum frá því, sem áður var, sem raktar voru ýtarlega í sambandi við þau mál, þegar þingið hafði þau til meðferðar. Á s.l. vori var eftir beiðni stjórnar lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna ákveðið að láta endurskoða lög um þann sjóð, og fól fjmrn. Kr. Guðmundi Guðmundssyni tryggingafræðingi að semja slíkt frv. í samræmi við gildandi lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og skyldi þetta gert í samráði við stjórn lífeyrissjóðsins. Þetta frv. er árangur þessarar endurskoðunar, og er um ákvæði þess fullt samkomulag við fulltrúa hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna.

Frv. fylgir ýtarleg grg. eða skýringar við einstakar greinar, en þar sem allar meginbreytingarnar eru í samræmi við það, sem áður var gert varðandi lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóð barnakennara, tel ég ekki ástæðu til að rekja það hér að nýju. Ég legg til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.