04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

101. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Stjórn lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna fór fram á það á s.l. ári, að samið yrði frv. að nýju um lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna til samræmis við gildandi lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en á árinu 1963 voru sett ný lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og gerðar á eldri lögum margar mjög mikilvægar breytingar. Kr. Guðmundi Guðmundssyni tryggingafræðingi var falið að annast þessa endurskoðun í samstarfi við stjórn lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna, og er þetta frv. árangur þess starfs. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja hér þær meginbreytingar, sem gerðar voru 1963 á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hv. alþm. eru þær enn í fersku minni, en þetta frv. er til samræmingar við þau lög. En þar er því við að bæta, að núgildandi lög ná aðeins til hjúkrunarkvenna, en gert er ráð fyrir því, að þessi lög nái einnig til karlmanna, sem annast hjúkrunarstörf.

Í Ed., sem fékk þetta mál til meðferðar og hefur afgr. það, var gerð orðalagsbreyting varðandi heiti þessa sjóðs. Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir, að hann héti Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna. Þetta orðalag féll ekki alls kostar í geð öllum, og ég vil taka það fram, að áður en ég lagði þetta frv. fyrir hv. Ed., var athugað í ráðuneytinu, hvort ekki væri hægt að finna orðalag, sem félli betur við íslenzkt mál, því að á því er enginn vafi að konur eru menn að réttu máli íslenzku, fornu og nýju, og orðið menn tekur bæði til kvenna og karla. En ástæðan til þess, að höfundur frv. hafði orðað þetta svo, var fyrst og fremst sú, að í kjarasamningi opinberra starfsmanna og kjaradómi er þetta orðalag notað margsinnis og að jafnaði um hjúkrunarkonur og hjúkrunarmenn. Í fjhn. Ed. var samt sem áður sú niðurstaðan að leggja til að breyta heitinu og kalla hann lífeyrissjóð hjúkrunarfólks. Ég tel það til bóta. Í samræmi við þetta var samþ. að tillögu fjhn. Ed. að breyta fyrirsögn laganna og 1. gr. Hins vegar lagði n. ekki til að breyta orðalagi í öðrum greinum frv., þar sem fyrir kemur bæði hjúkrunarkonur og hjúkrunarmenn, heldur aðeins varðandi heiti sjóðsins. Ég vildi beina því til hv. fjhn, þessarar d. að taka það mál til athugunar, en þetta orðalag, hjúkrunarkonur og hjúkrunarmenn, kemur enn fyrir í frv., í 17. gr., 18. gr., 20. gr. og 21. gr.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Um það var efnislega alger samstaða í hv. Ed. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.