09.04.1965
Neðri deild: 66. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

101. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta frv. bar ég fram brtt. á þskj. 351, sem ég þá gerði grein fyrir. Eftir að þær till. mínar birtust, kom í ljós, að fleiri vildu þá Lilju kveðið hafa.

Hv. meðnm. mínir í fjhn. komu að máli við mig, sögðust vilja taka aftur þær brtt., sem þeir höfðu áður borið fram á þskj. 328, en óskuðu að gerast meðflm. að mínum till. Mér þótti auðvitað gott að fá slíkan stuðning við mínar till., og því varð það að samkomulagi, að ég tæki mínar till. aftur við 2. umr., en þær yrðu síðan bornar fram af öllum fjárhagsnefndarmönnum við 3. umr. Og síðan í samræmi við þetta samkomulag liggja nú mínar gömlu till. fyrir, afturgengnar og endurprentaðar, á þskj. 441, fluttar af fjhn. óskiptri.

Eins og ég skýrði frá við 2. umr. málsins, er efni þessara brtt. það, að lífeyrissjóðurinn skuli halda sínu gamla nafni og heita lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna og inn í frv. verði sett ákvæði um, að karlar, er fást við hjúkrunarstörf, skuli eiga aðild að sjóðnum.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vona, að brtt. á þskj. 441 verði vel tekið hér í deildinni, og einnig vænti ég þess, að hv. efrideildarmenn geti fallizt á að samþ. frv. svo breytt, þegar þangað kemur.