10.11.1964
Efri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

51. mál, hreppstjórar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., hvort nógu vel sé gert við hreppstjórana í launamálunum. Það má náttúrlega lengi um það deila. Ég vildi aðeins í því sambandi vekja athygli á, að hækkunin, sem ég taldi að í heild mundi koma á launagreiðslurnar, er til viðbótar 15% hækkun, sem þegar er komin á laun hreppstjóranna, eftir að kjaradómur ákvað laun opinberra starfsmanna á miðju árinu 1963, þannig að frá því, sem áður var, áður en hann gekk í gildi, þá, eins og ég sagði, er hækkunin tæp 50%. Það hefur verið talið, að að meðaltali hafi laun opinberra starfsmanna kannske hækkað um milli 40 og 45%, ef ég man rétt. Þá var tilhneiging hjá mér að hafa hækkunina heldur meiri en minni en meðaltalið, eins og fram kom í fyrri ræðu minni.

Mér fannst hv. þm. vilja gera heldur lítið úr þessu frv. í lok ræðu sinnar, að eiginlega ætti þetta að heita frv. um laun hreppstjóra, og skil ég ekki þá tilhneigingu, því að ég var áður mjög ánægður yfir þeim athugasemdum, sem fram komu um, að það mætti gera frv. fyllra og löggjöfina meiri.

Það var engin tilhneiging hjá mér til þess að miklast yfir þessu frv. Ég er allshugar feginn því, að fram koma ábendingar um, að það mætti gera það ýtarlegra. Og það, að það er ekki ýtarlegra í sambandi við störf hreppstjóra, er hreinlega vegna þess, að mig skortir sjálfan persónulega þekkingu og reynslu í þessu efni, því að lagaþekkingin ein, þó að ég sé ekki að tala um, að henni sé fyrir að fara hjá mér, hún er ekki nægjanleg í þessu sambandi, heldur einmitt sú reynsla, sem menn hafa fengið af hreppstjórnarstörfunum. gerði að vísu ráðstafanir til þess, að sérstakt samband var haft við tvo sýslumenn, þá Björn Fr. Björnsson sýslumann Rangæinga og Ásgeir Pétursson sýslumann í Borgarnesi, og mínir fulltrúar, sem að þessu unnu, höfðu leiðbeiningar og stuðning frá þeim, þó minni en til var ætlazt af sérstökum og óviðráðanlegum ástæðum. En það vill svo vel til, að hér í d. munu vera tveir hreppstjórar, og sú n., sem málið fengi til meðferðar, gæti auðvitað haft stuðning af viðræðum við þá og einnig hv. 3. þm. Norðurl. v., sem er lagaprófessor, ef hann á þá ekki sæti í allshn., sem mér er ekki kunnugt um.

Ég mundi því líta á það með mikilli ánægju, að frv. gæti orðið meira að vöxtum og nánar tiltekið um störf hreppstjóranna í meðferð þingsins. Og auðvitað er þetta ekki aðeins breyt. á launum hreppstjóranna. Það er beint ákvæði í 2. gr. um hlutfallskosningar, sem ég taldi að vísu, að mundi verða litið á að giltu. Það er verulegt ákvæði, sem d. verður að taka afstöðu til, um hámarksaldur hreppstjóranna. Ef ekki verður breytt um frá því, sem hér er, er á valdi ráðh. að ákveða það í reglugerð síðar. Hvort menn vilja taka það beinlínis upp, það kemur til athugunar undir meðferð málsins. Og í þriðja lagi er svo færð saman löggjöf, sem er á víð og dreif um hreppstjórann og er til stuðnings og getur einmitt lagt grundvöllinn að því, að auðveldara sé að fylla í eyður þessa frv. allt það, sem betur mætti fara. Ég endurtek það, að mér þætti ekki nema vænt um, að það gæti orðið ýtarlegra en hér er, og vænti þess í alla staði, að gott samkomulag geti orðið um það.