23.03.1965
Neðri deild: 58. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

51. mál, hreppstjórar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. til l. um hreppstjóra, hefur skort í gildandi löggjöf heildarákvæði um störf þeirra, og þótti ástæða til að taka það til endurskoðunar og flytja frv. það, sem hér liggur fyrir, til laga um hreppstjóra. Og það má segja, að verulegt efnisatriði í sambandi við frv. séu ný ákvæði um laun hreppstjóra, en launagreiðslur til þeirra höfðu dregizt nokkuð aftur úr, og þau ákvæði, sem í þessu frv. felast, eru miðuð við það að hækka laun hreppstjóranna til samræmis við þær launahækkanir, sem orðið hafa hjá sambærilegum eða svipuðum embættismannaflokkum.

Það eru svo smáatriði í sambandi við þetta mál, nýmæli, eins og um heimild til þess að setja ákvæði um aldurshámark hreppstjóra, það sama og annarra opinberra starfsmanna, sem ekki hefur verið fyrir hendi, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að áður en það verði gert, verði haft samráð við sýslunefndir, ef til þess kemur að gefa út reglugerð um þetta atriði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið frekar, en vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.