12.04.1965
Neðri deild: 67. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

51. mál, hreppstjórar

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um hreppstjóra er komið frá hv. Ed. og er flutt af dómsmrh. af hálfu ríkisstj. Í Ed. voru engar breytingar gerðar á frv. og yfirleitt samstaða um málið og það þar samþ. Allshn. hv. d. hefur síðan haft frv. til athugunar og mælir einróma með því, að það verði samþykkt.

Hæstv. dómsmrh, gerði ýtarlega grein fyrir frv., þegar hann flutti það og eins við 1. umr. í þessari hv. d., og kom þar fram eins og vitað var, að mjög hefur skort á heildarákvæði um þau störf, sem hér um ræðir. Aðalákvæði um hreppstjóra er að finna í reglugerð frá 1880. Sú reglugerð, svo gömul sem hún er, er á ýmsum sviðum orðin úrelt og henni ekki fylgt nema að litlu leyti. Það hefur verið löngu ljóst, að þörfin hefur verið brýn að fá settar ákveðnari reglur um þetta starf, sem er mjög mikilvægt, eins og við flestir eða allir vitum. Það hvílir á fornum stofni, og hreppstjórar hafa löngum haft mikilvægu hlutverki að gegna og margir þeirra haft forustuhlutverk hver í sínum hreppi. Með frv. eru heildarákvæði sett, að vísu ekki mjög ýtarleg, um sumt, en í frv. er gert ráð fyrir því, að samin verði ýtarleg reglugerð, sérstaklega um störf þessara manna. Um skipun hreppstjóra er ekkert nýtt nema það, að þegar sýslunefndir kveðja til hreppstjóra, 3 að tölu, má, ef óskað er, beita hlutfallskosningu. Þetta ákvæði er nýtt, en að öðru leyti er formið á skipun hreppstjóra hið sama.

Í 6. gr. frv. er svo talið upp nokkuð af þeim störfum, sem hreppstjórar eiga að hafa á hendi, og þessi störf eru æði tilbrigðarík. Þeir fara með lögregluvald, þeir annast jafnvel fógetagerðir, uppskriftir dánarbúa, þeir halda uppboð, þeir annast innheimtur ýmiss konar og margt fleira. Og yfirleitt er það svo í reynd, að hreppstjórar láta sig varða ekki aðeins málefni sveitar sinnar á flestum sviðum, heldur og héraðsmálefni. Það er reynslan. En eins og ég drap á, er í frv. ekki tæmandi upptalning á öðrum störfum, sem hreppstjórar fara með, og gert ráð fyrir því, að nánar verði útfært þeirra starfssvið í reglugerð.

Þá hafa hreppstjórar fengið nokkur laun fyrir starfa sinn, sem að vísu hafa ekki verið há og jafnvel ekki fylgzt með hækkun launa annarra samsvarandi stétta. En nú verður sú breyting t.d. á gerð, eftir því sem í frv. segir, að lægstu laun hreppstjóra, þ.e.a.s. hreppstjóra, sem eru í hreppi með 100 íbúa eða færri, munu hækka um 1700—1800 kr. á ári, og stighækka laun eftir fólksfjölda í hreppi. Í grg. segir, að hækkun þessi miðist að nokkru leyti við hækkun á launum lögreglumanna, eins og þau eru í dag. Þá gerir frv. ráð fyrir því, að fjmrh. hafi heimild til þess að breyta launum hreppstjóra, er breytingar verða á launum starfsmanna ríkisins almennt. Auk fastra launa hafa svo hreppstjórar þóknun fyrir einstök störf sín, og eru ákvæði um slíka þóknun í lögum og reglugerðum eftir því, hvert starfið er, sem þeir inna hverju sinni af höndum.

Þetta er það helzta, sem frv. fjallar um, og í raun og veru sýnist okkur í allshn., að það sé nægilega greinilegt um störf og starfssvið hreppstjóra, þannig að þegar ýtarleg reglugerð komi til, verði þetta í mjög sæmilegu lagi, eins og vera ber, og lengi hefur verið þörf á að færa í viðunandi og gott horf.

Með frv., ef að lögum verður, falla úr gildi l. um laun hreppstjóra og aukatekjur, og fyrir þá sök verða breytingar á l. um dánarbúaskipti frá 1878 til samræmis við þetta frv. um hreppstjóra. Er það frv. nú á dagskrá hér næst á eftir hreppstjórafrv. Mér þykir ekki ástæða til þess að hafa sérstaka framsögu um það mál, þegar það kemur fyrir, en leyfi mér að minnast aðeins á það hér. Það er aðeins nauðsynleg breyting og varðar launakjör hreppstjóra í sambandi við uppskriftar- og virðingargerðir á dánarbúum, en leiðir að öðru leyti af sjálfu sér og af þessu frv., sem ég hef hér mælt fyrir.

Eins og ég gat um í upphafi, hefur allshn. einróma samþ. að mæla með því, að þetta frv. til l. um hreppstjóra og enn fremur frv. til l. um breyt. á skiptal. í sambandi við þóknun hreppstjóra við uppskriftar- og virðingargerðir verði samþykkt. Síðan óska ég eftir því, að að lokinni þessari umr. verði þessi mál bæði samþ. til 3. umr.