10.04.1965
Efri deild: 66. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

173. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Bjarnason):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar að undanförnu, en eins og nál. þau og brtt., sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur n. ekki náð algerri samstöðu um málið, þannig að meiri hl. mælir með því, að það verði samþ. með þeim brtt., sem hann flytur á þskj. 450, en aðrir nm. hafa skilað sérálitum og flytja viðtækari brtt. Brtt. meiri hl. eru á þskj. 450.

Eru það efnislega tvær brtt., sem hér er um að ræða. önnur er um lækkun á tolli á mjólkurtönkum. Þetta mál bar á góma við 1. umr. málsins, og með brtt. meiri hl. er komið á móts við þær óskir, sem þar komu fram um lækkun á þessum tolli. Í öðru lagi er brtt., sem gengur út á heimild handa ríkisstj. til þess að lækka eða endurgreiða gjöld af heilum, innfluttum dráttarbrautum. Á sameiginlegum fundi fjhn. beggja d., sem um getur í nál. meiri hl., kom fram ábending um þetta atriði frá hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, en með þessari till. er komið nokkuð til móts við það sjónarmið. Ég sé, að 2. minni hl. fjhn., hv. 4. þm. Norðurl. e., hefur flutt um þetta sérstakar brtt., sem ganga nokkru lengra, en því treystist meiri hl. ekki til að mæla með að svo stöddu.

Ég vil enn fremur geta þess, að mér hefur verið á það bent af skrifstofustjóra Alþ., eftir að málið var afgreitt úr n., að ákveðin formsatriði í frv. mætti færa til betri vegar, og með tilliti til þess vil ég beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann gefi stutt fundarhlé á milli umr., þannig að n. gefist kostur á því að athuga þessi atriði, og mundu þá vera væntanlegar brtt, um þetta fyrir 3. umr. málsins, ef samkomulag verður um það. Hér er sem sagt eingöngu um formsatriði að ræða. En með tilliti til þessa taldi meiri hl. rétt að taka einnig aftur til 3. umr. þær till. um efnisbreytingar, sem gerðar eru á þskj. 450.

Að öðru leyti hef ég ekki meira að segja um afstöðu meiri hl. n. til þessa máls, en að gefnu tilefni í ræðum þeim, sem fluttar voru við 1. umr. málsins af hálfu þeirra tveggja hv. stjórnarandstæðinga, sem þá töluðu, svo og vegna þeirra nál. frá minni hl., sem úthýtt hefur verið, vildi ég fara um þau atriði, sem þar skipta máli að mínu áliti, örfáum orðum.

Þau sjónarmið, sem liggja að baki brtt. hv. 1. minni hl., eru tvenns konar: í fyrsta lagi, að of skammt sé gengið í tollalækkunum í frv., og í öðru lagi, að einstökum atvinnugreinum sé enn mismunað í tollum meira en réttmætt sé.

Um fyrra atriðið má auðvitað lengi deila. Það verður m.a. spurning um það, hve ríkissjóður má miklu tapa í umræddum tolltekjum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að vélum sé smyglað inn sem neinu nemi, þannig að ríkissjóður hlýtur að tapa tolltekjum sem lækkununum nemur. Verður þá spurningin um það, hve mikil sú lækkun megi verða, þannig að fjárhagsáætlun standist. Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða fleiri orðum um þetta atriði. En í þessu sambandi má þó minna á það, að tilgangur tolla, sérstaklega þeirra, sem lagðir eru á framleiðslunauðsynjar, getur verið sá að koma í veg fyrir allt of mikið misræmi milli erlends og innlends verðlags. Er þess skammt að minnast, að þegar hið svokallaða bjargráðafrv. vinstri stjórnarinnar var lagt fram sællar minningar, en í því var m.a. gert ráð fyrir miklum nýjum yfirfærslugjöldum á framleiðslunauðsynjar atvinnuveganna, var það m.a. varið með því, að nú væri svo komið, að það borgaði sig í rauninni ekki lengur fyrir bændurna að halda áfram að heyja, þó að þeir gerðu það enn þá af gömlum vana, því að erlendur fóðurbætir væri orðinn svo ódýr. Nú er misræmi milli innlends og erlends verðlags að vísu ekki nærri því eins mikið og þá var. En talsverð röskun varð þó á verðhlutföllum milli þess erlenda og innlenda með þeim miklu kaup- og verðhækkunum, sem urðu árið 1963, þannig að innflutta varan hefur síðan verið ódýrari en áður miðað við tekjur hér innanlands. En þetta á auðvitað í ríkara mæli við þær framleiðslunauðsynjar, sem notaðar eru til framleiðslu fyrir innlendan markað, en hvað útflutningsframleiðsluna snertir. En á það má þó benda, að einmitt þessi röskun á verðhlutfallinu milli þess innlenda og erlenda gerir það að verkum, að um nokkuð breytt viðhorf er að ræða í þessum efnum frá því fyrir 1963.

Hitt meginsjónarmiðið, sem virðist liggja að baki þeim brtt., sem fluttar eru af hv. 1. minni hl., er það, að ekki beri að mismuna í tolli milli atvinnugreina, svo sem gert sé í gildandi tollal. og jafnvel eftir að það frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið samþykkt. Ég er því út af fyrir sig sammála, að ekki sé ástæða til þess að gera mun á frumframleiðslu og iðnaðarframleiðslu í þessu efni, enda mun það ekki vera þetta sjónarmið, sem liggur tollafrv. að baki, eins og ég kem rétt á eftir að. En hins vegar finnst mér, að gild rök hnígi að því, að gerður sé hér munur á framleiðslu fyrir innlendan og erlendan markað, ekki þó vegna þess að ég álíti framleiðslu fyrir innlendan markað þjóðarbúinu minna virði en útflutningsframleiðslu, í því efni get ég út af fyrir sig alveg tekið undir það, sem segir í nál. hv. 1. minni hl., en hins vegar ber þess að gæta, að innflutningstollar eru hugsaðir sem neyzluskattar, en ekki sem skattar á framleiðsluna. Af því leiðir, að til þess er ætlazt, að það séu notendur vörunnar, sem beri tollinn, en ekki framleiðendur. En nú er það kunnugt, að útflutningsframleiðslan getur ekki velt tollum, sem á hana eru lagðir, yfir á neytendur á sama hátt og framleiðendur fyrir innlendan markað. Það má því gera ráð fyrir, að tollar á vélar iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað, séu bornir af neytendum þess varnings, en það á auðvitað ekki við um bátavélar og aðrar vélar, sem notaðar eru af útflutningsframleiðslunni. En hitt er svo annað mál, að erfitt getur oft verið að draga markalínu milli framleiðslu fyrir innlendan og erlendan markað, þar sem ýmsar atvinnugreinar framleiða bæði fyrir innlendan og erlendan markað. Þannig gæti það t.d. verið álítamál, hvort landbúnaðurinn eigi hér að sitja við sama borð og sjávarútvegurinn, þar sem landbúnaðarframleiðslan er sem kunnugt er meira fyrir innlenda markaðinn en þann erlenda.

Eins og grg. þess frv., sem hér liggur fyrir, ber með sér, er það þetta sjónarmið, sem liggur að baki þeirri. mismunun, sem um er að ræða. En það vafamál, sem ég nefndi, hvort landbúnaðurinn eigi að njóta í þessum efnum sömu aðstöðu og sjávarútvegur, hefur verið túlkað landbúnaðinum í vil, og ætti það sízt að vera ámælisvert frá sjónarhóli þeirra, sem öðrum fremur telja sig formælendur landbúnaðarins.

Þá kom það fram í ræðum beggja þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem hér töluðu við 1. umr. málsins, að tollavandamáli iðnaðarins væri ekki nægilega sinnt í frv. því, sem hér liggur fyrir. Hér er vissulega um mikið vandamál að ræða, en eins og hæstv. fjmrh. skýrði frá við 1. umr. málsins, hefur eigi unnizt tími til að ljúka endurskoðun tollalöggjafarinnar í heild með tilliti til iðnaðarins, en að því verður unnið á sumri komanda. Annars held ég, að það sé á misskilningi byggt, sem fram kom í ræðum beggja þeirra hv. stjórnarandstæðinga, sem hér töluðu við 1. umr. málsins, og það kemur raunar líka fram í nál. hv. 2. minni hl., að hin versnandi samkeppnisaðstaða ýmissa iðngreina á innlendum markaði, sem svo mjög hefur verið kvartað um síðustu mánuðina og vafalaust ekki að tilefnislausu, eigi rót sína að rekja til þess, að skref hafi nýverið verið tekin að tilhlutun hæstv. ríkisstj. í þá átt að rýmka um innflutning á þessum varningi. Mér er ókunnugt um það, að neitt slíkt hafi átt sér stað hvað snertir þann iðnað, sem mest hefur verið rætt um í þessu sambandi, en það er fatnaðariðnaðurinn, síðan núverandi skipan innflutningsmála var ákveðin hér á hv. Alþ. fyrir 4—5 árum ágreiningslaust að mig minnir. .Ég hygg meira að segja, að allt síðan 1951 hafi ekki verið um að ræða verulegar hömlur á innflutningi vefnaðarvöru og annars þess, sem til fatnaðar heyrir.

Það er alkunna, að á árunum 1947 og þar til 1951 var mjög tilfinnanlegur skortur á vefnaðarvöru hér á landi, ströng skömmtun og það sem verra var, að fólk fékk ekki einu sinni út á þá skömmtunarseðla, sem út voru gefnir. Ég held, að ég eigi enn þá hinn víðfræga stofnauka fyrir ytri fatnaði, sem þá var gefinn út, það fékkst aldrei neitt út á hann og voru alltaf langar biðraðir, ef það fréttist, að vefnaðarvara kæmi í búð. En með þeim ráðstöfunum, sem stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. gerði í efnahagsmálum árið 1950, var ráðin bót á þessu ófremdarástandi, og síðan hef ég aldrei orðið var við það, að kvartað hafi verið um skort á vefnaðarvöru, hvorki innlendri né erlendri. Það hafa að vísu verið lækkaðir tollar á einstökum tegundum fatnaðar, sérstaklega þar sem um er að ræða varning, sem vitað var að smyglað væri til landsins í allstórum stíl, en ekki mun það hafa verulega þýðingu, og auðvitað er smyglið líka samkeppni við innlendan iðnað.

En þó að þetta sé að mínu áliti á misskilningi byggt, að þessi verri samkeppnisaðstaða iðnaðarins standi í sambandi við aðgerðir til þess að rýmka innflutninginn frá því, sem áður var, neita ég því síður en svo, að það sé staðreynd, að samkeppnisaðstaðan hafi versnað síðustu mánuðina. En þar hygg ég að aðrar orsakir séu að verki. Á ég þar einkum við það, sem ég nefndi áðan, nefnilega hinar stórfelldu kaupgjaldshækkanir, sem urðu á árinu 1963 og hlutu að valda allmikilli hækkun á verði innlendrar framleiðslu, án þess að um samsvarandi hækkun væri að ræða á innfluttu vörunni; þannig að hagstæðara varð nú fyrir kaupendurna innanlands að kaupa erlendu vöruna þrátt fyrir háan toll. Ég hugsa, að það sé í þessu, sem ástæðan liggur til þess, að samkeppnisaðstaða innlenda iðnaðarins hefur versnað frá því, sem áður var.

Hér er auðvitað um mikið hagsmunamál að ræða fyrir alla þá, sem framfæri sitt hafa af því að starfa við umrædda framleiðslu, þó að því máli verði af áðurgreindum ástæðum ekki ráðið til lykta í sambandi við afgreiðslu þessa máls. En hitt má þó ekki gleymast, að við ákvörðun tolla á neyzluvarningi verður líka að taka tillit til annarra hagsmuna en þeirra einvörðungu, sem eiga áður nefnd iðnfyrirtæki og vinna við þau, en það, sem ég hér hef í huga, eru hagsmunir neytendanna. Útgjöld til fatnaðar eru stór líður í vísitölu framfærslukostnaðar. Samkv. núgildandi vísitölugrundvelli nemur þessi kostnaður um 15% allra útgjalda, ef miðað er við útgjöld vísitölunnar í heild, en um 20%, ef miðað er eingöngu við útgjöld til kaupa á vöru og þjónustu eða A-lið vísitölunnar. Þess má geta í þessu sambandi, að samkv. vísitölugrundvellinum nema útgjöldin til fatnaðar meiru en húsnæðiskostnaðurinn. En hitt er auðvitað rétt, að það er vitað, að húsnæðisliðurinn er vanmetinn í vísitölunni. Hitt getur ekki farið milli mála, að útgjöldin til fatnaðar eru verulegur kostnaðarliður, þannig að ef þau útgjöld væri hægt að lækka, svo að um munaði, væri það veruleg kjarabót. Þetta hefur líka einmitt verið ljóst hv. 4. þm. Norðurl. e., því að þegar tollskráin var hér til meðferðar fyrir tveimur árum á hv. Alþ., flutti hann till. um verulega lækkun tolla á tilbúnum fatnaði. Ég hef hér með mér þskj.-part þingtíðindanna frá 1962, en á þskj. 545 eru birtar þær brtt. við tollskrána, sem hv. þm. þá flutti. Hann vildi gera eftirtalda lækkun á tollum á fatnaði, með leyfi hæstv. forseta:

Tolla af ytri fatnaði karla vildi hann lækka úr 90% í 60%, á ytri fatnaði kvenna úr 90% í . 60% og lækka tolla á manchettskyrtum sem nam því sama. Nærfatnað karla úr baðmull vildi hann lækka úr 70% í 50% og annan nærfatnað karla úr 90% í 60%. Nærfatnað kvenna úr baðmull vildi hann lækka úr 70% í 50% og annan nærfatnað kvenna úr 90% í 60%. En allur mun þessi varningur, eftir því sem ég bezt veit, vera framleiddur hér á landi.

Nú er ég síður en svo að upplýsa þetta hv. þm. til ámælis eða álitshnekkis. Þvert á móti lit ég þannig á, að hér hafi verið um skynsamlegar og athyglisverðar till. að ræða, og ég man ekki betur en að á sínum tíma tæki ég, sem hafði þá framsögu fyrir fjhn. um tollskrármálið, þessum till. vinsamlega, þótt ég að vísu treystist ekki til þess að mæla með því, að þær yrðu samþ. án nánari athugunar. Og ég held, að ég hafi þá einmitt minnzt á það, að það væri óvíst, að tekjutap ríkissjóðs yrði mikið þrátt fyrir þessa verulegu lækkun tollanna, því að það er vitað, að mjög mikið er um það, bæði að þeir, sem ferðast til útlanda, kaupi þar fatnað á sig í stórum stíl, auk þess sem fólk lætur kunningja sína, sem eru í siglingum o.s.frv., kaupa fyrir sig. Þannig á sér stað verulegur innflutningur á fatnaðarvörum, bæði löglega og ólöglega, sem vera má að kynni verulega að draga úr, ef tollarnir væru lækkaðir verulega, þannig að ríkissjóður gæti þannig fengið bætt a.m.k. að nokkru það tolltekjutap, sem hann kynni að verða fyrir, vegna þess að tollstigarnir yrðu lækkaðir.

Nú er einmitt vaxandi skilningur á því meðal launþega, að leggja beri áherzlu á raunhæfar kjarabætur, elns og það er orðað, eða aukinn kaupmátt launa, en láta sér ekki nægja snuðtúttuna að hækka kaupið án nokkurra trygginga fyrir því, að kauphækkanirnar verði ekki allar sóttar aftur í vasa launþeganna sjálfra með hækkuðu verðlagi. Ef eitthvað á að gera í þeim efnum, sem raunhæft megi teljast, þá sýnist elnmitt fátt vera nærtækara en slíkar tollalækkanir á nauðsynjum, sem nokkur von er til samkv. áður sögðu, að framkvæma megi án þess, að tolltekjur ríkissjóðs minnki tilfinnanlega. Ef tollar á fatnaðarvöru væru t, d. lækkaðir um helming og gert ráð fyrir því, að tollurinn næmi helmingi vöruverðsins, þá væri hér samkv. vísitölugrundvellinum um 4% raunhæfar kjarabætur að ræða, verkalýðnum til handa, sem hiklaust má fullyrða, að séu meiri kjarabætur en nokkru sinni hafa náðst í einu a.m.k. tvo síðustu áratugina með verkfallsbaráttu, þ.e.a.s. þegar dæmið er reiknað til enda, þannig að tekið sé tillit til þeirra verðhækkana, sem leitt hefur af kauphækkunum. En kauphækkanirnar hafa auðvitað út af fyrir sig numið allmiklu meira en þessu, en það er allt annað mál.

Nú er ég ekki að segja, að þetta sé hægt að gera í einu vetfangi. Í því efni þyrfti auðvitað að taka tilhlýðilegt tillit til áhrifa slíkra aðgerða á hag innlendu framleiðslunnar og auðvitað þá jafnframt að gera aðrar ráðstafanir til þess að bæta hag hennar, svo sem lækka hráefni til iðnaðar o.s.frv.

En hvað sem því líður, þá gefur þetta þó hugmynd um þá þýðingu, sem þessi mál hafa frá hagsmunasjónarmiði neytendanna. Allar þær ríkisstj., sem setið hafa að völdum hér á landi síðustu tvo áratugina, hafa verið ásakaðar þunglega fyrir það af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að þær hafi, eins og það hefur verið orðað, rænt öllum þeim kjarabótum, sem verkalýðurinn hefur áunnið sér með kaupgjaldsbaráttu sinni, með því að velta kauphækkunum yfir á vöruverð og láta launþegana þannig greiða sér kauphækkanirnar sjálfir. Þá athugasemd má að vísu gera við þetta, að að jafnaði eru það auðvitað ekki ríkisstjórnirnar, sem verðleggja vöru og þjónustu. Það eru atvinnurekendurnir, sem það gera. Hitt er hins vegar rökrétt, hvort sem réttmætt er að öðru leyti, að áfellast ríkisstj. fyrir það að beita ekki þeim tækjum, sem þær hafa yfir að ráða, til þess að hindra það, að atvinnurekendur velti kauphækkununum þannig af sér. Hér má fyrst og fremst nefna verðlagseftirlitið. En fleira kemur til greina í þessu sambandi, svo sem það atriði, sem hér er einkum til umræðu, að sé innflutningur á umræddri vöru ekki heftur, þá skapar það atvinnurekstrinum slíkt aðhald, að hann hefur ekki nema takmarkaða möguleika á því að hækka verð til samræmis við hækkað kaup, þannig að annaðhvort verða atvinnurekendur að greiða kauphækkanirnar af hagnaði sínum, sé hann fyrir hendi, eða mæta þeim með hagræðingu og öðrum ráðstöfunum til þess að bæta rekstur sinn, svo að þá verða þær kjarabætur, sem tilgangurinn var að ná með því að hækka kaupið, raunhæfar. Ef samkeppni er hins vegar útilokuð með innflutningshöftum og háum verndartollum, þá gefur það auga leið, að atvinnurekendur fara þá leiðina, sem fyrirhafnarminnst er til að fá kostnaðarauka sinn vegna hærra kaupgjalds greiddan, eða þá leið að hækka vöruverðið sem nemur hinu hækkaða kaupi.

Ég ætla svo ekki að orðlengja fleira um þetta, en hitt gefur auga leið, að það er ekki í sömu andrá hægt að halda fram kröfum bæði atvinnurekstrarins og neytendanna í þessu efni. Ef það er heimtað af ríkisstj., að hún geri ráðstafanir til þess, að kauphækkanir, sem verkalýðurinn kann að semja um, verði raunhæfar kjarabætur, þá er ekki jafnframt hægt að ásaka hana fyrir, að hún veiti framleiðslunni fyrir innanlandsmarkað aðhald með því að leyfa innflutning, því að það er einmitt slíkt aðhald, sem knýr atvinnureksturinn til að axla þær byrðar, sem hann hefur tekið á sig með því að semja um hærra kaup. Ef hins vegar er heimtað, að atvinnurekendum sé í skjóli hafta og tollverndar ávallt gert kleift að velta öllum kauphækkunum af sér yfir í vöruverðið, þá verður allt tal um raunhæfar kjarabætur í rauninni ómerkt hjal. Þá er ekki lengur hægt að tala um kaupgjaldsbaráttuna sem kjarabaráttu, heldur aðeins baráttu fyrir aukinni verðbólgu.

Ég vil taka það fram, að í þessu liggur ekki, að ég sé að drótta því að hv. 4. þm. Norðurl. e., að hann hugsi á þennan veg. Það veit ég, að hann gerir ekki. En það er nauðsynlegt, að þessi vandasömu mál séu athuguð frá öllum hliðum, og verkalýðshreyfingin verður að gæta þess, að samræmi sé í þeim kröfum, sem hún gerir á hendur stjórnarvöldum, ef hægt á að vera að koma til móts við þær.

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. leggur til, að þetta frv. verði afgr. frá þessari hv. d. með þeim efnisbreytingum, sem hún leggur til að gerðar verði með brtt. á þskj. 450, en auk þess eru, eins og ég hef þegar getið, væntanlegar fáeinar brtt. fyrir 3. umr., sem eru þó eingöngu formlegs eðlis.