13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

173. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft frv. þetta til meðferðar. Eins og fram kemur í nál. frá meiri hl. fjhn., klofnaði n. um afgreiðslu málsins. Við meðferð málsins í Ed. hélt n. sameiginlegan fund með hv. fjhn. Ed., þar sem sérfræðingar þeir, sem unnið hafa að samningu frv., voru mættir. Síðan var frv. athugað, eftir að það kom til Nd., og meiri hl. fjhn. mælir með því, að það verði samþ. óbreytt eins og það kemur frá Ed., sem gerði á því örfáar breytingar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., það var gert af hæstv. fjmrh. við 1. umr., og kemur skýrt fram í grg., hvers vegna frv. er flutt og að haldið sé áfram að vinna að þeirri endurskoðun, sem hér yrði að einhverju leyti lögfest.

Þegar fjhn. Nd. hafði málið til meðferðar, lá fyrir erindi frá Búnaðarfélagi Íslands varðandi breytingar á tollskránni. Enn fremur kom, eftir að n. hafði afgreitt málið, erindi frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í sambandi við leiðréttingar og samræmingu, svo og munnlegar ábendingar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna í sambandi við samræmingu á tollum á varahlutum í vélar. Þessar ábendingar munu að sjálfsögðu komast til þeirrar n., sem endurskoðar tollskrána, og tel ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta hér, en eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 474, mælir meiri hl. með því, að frv. verði samþ. óbreytt.