13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

173. mál, tollskrá o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. gat. ekki mætt í n., þegar þetta mál var afgreitt, og gat ekki heldur mætt á þingfundi í dag og hefur brottfararleyfi. Ég vil því segja örfá orð um þetta frv. til l. um breyt á tollskrá. Það verða aðeins örfá orð. Ég vitna til þeirrar afstöðu, sem Björn Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., markaði með nál. sínu á þskj. 453 til þessa máls, en þar tók hann þá afstöðu að fylgja þessu frv., en bar fram margar brtt. við það til þess að freista þess, hvort hv. þd. fengist ekki til að ganga nokkru lengra í áttina til tollalækkana á ýmsum vörum, einkanlega efnivörum til iðnaðarins, einnig í nokkrum tilfellum til landbúnaðarins, til jafns við tollakjör, sem sjávarútvegurinn nýtur. Þessar till. hans voru allar felldar, og sé ég ekki ástæðu til að endurflytja þær. Mér sýnist það nokkuð ráðið, hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst afgreiða þetta mál, og samþykkt þess leiðir af sér nokkra lækkun í víssum tilfellum á innfluttum vélum.

Það eru þó tvær af till., sem þm. Alþb. fluttu í hv. Ed., sem ég vil leyfa mér að taka hér upp og endurflytja og fá þannig úr því skorið, hvort hv. þd. er ófáanleg til þess að gera þær leiðréttingar, sem í þeim felast. Þessar till. eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Það er við 2. gr., á þann veg, að við gr. bætist tveir nýir liðir, svo hljóðandi: a. Að endurgreiða þeim, sem byggja í fyrsta skipti íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína, aðflutningsgjöld af innfluttu byggingarefni, sem til byggingarinnar þarf. Hámarksupphæð endurgreiðslunnar skal miðuð við efnisþörf til íbúðar að stærð 360 rúmmetrar. Um endurgreiðslurnar skal að öðru leyti farið eftir reglum, sem fjmrn. setur. Og b-liður, tölul. 43: Að endurgreiða gjöld af dísilvélum, sem ætlaðar eru til raforkuframleiðslu.

Fyrri liðurinn er, eins og menn heyra, þess efnis, að felld verði niður innflutningsgjöld af efni undir þeim kringumstæðum, þegar einstaklingur er að byggja í fyrsta sinn íbúð til eigin þarfa. Þessi aðflutningsgjöld, tollar og söluskattur samtals, eru talin nema nú um 70 þús. kr. af íbúð, sem er 360 rúmmetrar að stærð. Það væri nokkur viðurkenning, nokkur léttir, nokkur hvatning ungu fólki, sem er að byggja yfir sig, ef það fengi þessa aðstoð frá hendi ríkisins að endurgreiðsla kæmi á aðflutningsgjöldum efnisins í húsið, þegar einstaklingur byggir hið fyrsta sinn yfir sig og sína. Ég held, að þetta sé innan þess ramma, að þjóðfélagið geti veitt þessa aðstoð, og held, að það væri hollt, að hún væri veitt, eins og erfiðleikarnir eru fjallháir hjá þeim, sem eru að byggja yfir sig.

Hin till. skýrir sig sjálf. Hún er um það, að heimiluð verði endurgreiðsla tolla af þeim dísilvélum, sem keyptar eru til rafmagnsframleiðslu.

Þessar till. eru skriflegar og of seint fram komnar, og verð ég að biðja hæstv. forseta að leita fyrir þeim afbrigða.

Ég lýsi svo yfir stuðningi Alþb. við frv., en æskilegt þætti mér, að þessar tvær litlu breytingar fengjust fram.