15.03.1965
Efri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

17. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur tekið til athugunar frv. á þskj. 17 og hefur skilað nál. á þskj. 322, þar sem n. samþykkir að leggja til, að frv. verði samþ., en flytur á sérstöku þskj., 323, brtt. Efni þessa frv. er það, að 1. gr. gerir ráð fyrir því, að lánsfjárhæð út á hverja verkamannabústaðaíbúð verði allt að 450 þús. kr. í stað 300 þús. kr. hámarks, sem nú er í lögum, Í. 2. gr. segir, að 4. töluliður í 6. gr. 1. um verkamannabústaði orðist svo, að félagsmenn séu fjárráða, heimilisfastir innan kaupstaðarins eða kauptúnsins, hafi ekki átt viðunandi íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína s.l. 2 ár og hafi eigi haft yfir 100 þús. kr. árstekjur, miðað við meðaltal þriggja síðustu ára, að viðbættum 7500 kr. fyrir hvert barn á framfæri né yfir 200 þús. kr. skuldlausa eign, allt miðað við þann tíma, þegar félagsmaður kaupir íbúðina. Tölur þessar breytast í samræmi við kaupgjaldsvísitölu. Hér er um að ræða skilyrði fyrir því að geta fengið lán úr byggingarsjóði verkamanna.

Síðan lögin um verkamannabústaði voru sett árið 1962, hafa almenn launakjör hækkað mjög, svo sem kunnugt er, og þess vegna hefur nú þótt nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði um hámarkstekjur og eignir. Áður var miðað við, að tekjur mættu ekki nema meiru en 65 þús. kr., miðað við meðaltal þriggja síðustu árstekna viðkomandi lánaumsækjenda, en nú er þetta hámark fært upp í 100 þús. kr. Og enn fremur er hækkað hámarkið fyrir viðbót þeirri, sem miðuð er við hvert barn á framfæri, það var áður 2500 kr. fyrir hvert barn, en er núna hækkað upp í 7500 kr. Og í samræmi við þetta er hækkuð eignaviðmiðunin, sem var áður í hámarki 150 þús. kr., upp í 200 þús. kr.

Í 3. gr. frv. segir, að 6. gr., E. tölul., síðasti málsl. orðist svo í aðallögunum:

„Ef maður hefur átt íbúðina í 20 ár, má hann njóta verðhækkunar á verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiðir upp lánið.“

Brtt, n. á þskj. 323 er breyting við þetta ákvæði, en brtt. hljóðar svo:

„Ef maður hefur átt íbúðina í 10 ár, má hann að auki njóta verðhækkunar, sem svarar helmingi af eftirstöðvum byggingarlánsins, enda greiði hann upp helming af eftirstöðvum lánsins, þegar sala fer fram. En hafi maður átt íbúðina í 20 ár, má hann njóta verðhækkunar á verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiðir eftirstöðvar lánsins að fullu.“

Þessi ákvæði varða eignayfirfærslu á verkamannabústöðum. Í 6. gr. núgildandi l. um verkamannabústaði er kveðið svo á um þetta efni, að þegar íbúð er seld, megi söluverð slíkrar íbúðar ekki vera hærra en síðasta kaupverð hennar að viðbættri verðhækkun, sem samkv. vísitölu byggingarkostnaðar hefur orðið á þeim hluta kostnaðarverðs íbúðarinnar, sem fallið hefur í gjalddaga og verið greiddur af seljanda, þegar sala fer fram. Þetta er aðalreglan. En síðar segir, að ef maður hefur átt íbúðina í 10 ár, má hann njóta verðhækkunar af verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiðir upp lánið. Þetta ákvæði um 10 ára takmarkið var sett inn í lögin 1962. Áður var þetta ákvæði ekki í lögunum, og það þýddi, að þegar maður seldi íbúð í verkamannabústöðum, naut hann ekki verðhækkunar nema að því leyti, sem hann hafði greitt íbúðina upp. Þegar l. voru endurskoðuð árið 1962, var á það bent, að þetta ákvæði kæmi hastarlega niður á mönnum, sem hefðu fest kaup á verkamannabústöðum, en þyrftu svo síðar af eðlilegum ástæðum, vegna þess að fjölskyldan stækkaði eða aðrar breytingar yrðu, að kaupa nýtt húsnæði. Þá væru slíkir menn mjög illa settir til þess að komast yfir nýja íbúð.

Þetta var aðalsjónarmiðið, sem lá til grundvallar því, að þetta ákvæði um það, að ef maðurinn hefði átt íbúðina í 10 ár, mætti hann njóta verðhækkunar á verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiddi lánið upp, — þetta var meginástæðan fyrir því, að þetta ákvæði var sett inn í lögin 1962. Síðan lögin voru sett 1962, hefur það komið hins vegar í ljós, eins og vitað var að vissu leyti, að þetta 10 ára ákvæði þénar vel þeim mönnum, sem ætla að selja íbúðina, en það þénar miklu miður þeim manni, sem ætlar að kaupa íbúðina og nýtur þá ekki þeirra hagfelldu lána, sem eiga að hvíla á henni. Með tilliti til þessa mun hafa verið sett ákvæði eins og er í frv. á þskj. 17, þ.e.a.s. að breyta 10 ára takmarkinu upp í 20 ár, þannig að menn yrðu að eiga íbúðina í 20 ár til þess að geta notið þeirrar aðstöðu að greiða upp lánið og hljóta verðhækkun á öllu kostnaðarverði íbúðarinnar. Með þessu ákvæði er því horfið í áttina til þess ástands, sem var fyrir 1962.

Heilbr.- og félmn. ræddi ýtarlega um þessi efni og komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að ganga ekki eins langt og lagt var til í frv. sjálfu, að miða frestinn við 20 ár, heldur að fara bil beggja og hafa tvo fresti, eins og segir í brtt. n., annan 10 ára og hinn 20 ára, þ.e.a.s. eftir 10 ár njóti sá, sem selur verkamannabústaðaíbúð, verðhækkunar, sem svari helmingi af eftirstöðvum byggingarlánsins, enda greiði hann upp helming byggingarlánsins, þegar sala fer fram, en hafi maðurinn átt íbúðina í 20 ár, megi hann njóta verðhækkunar á verði allrar íbúðarinnar, ef hann greiðir eftirstöðvar lánsins að fullu.

Ég hef þá lokið við að skýra efni frv. og efni þeirrar brtt., sem heilbr.- og félmn. gerir við frv. Þýðing þessa frv., sem hér liggur fyrir, er sú, að það er gert ráð fyrir, að lánin út á verkamannaíbúðir hækki um 50%. Lánin voru hækkuð 1962 í 300 þús. kr. úr 140—150 þús. kr., sem tíðkaðist áður, voru hækkuð m.ö.o. um 100% árið 1962, og nú er lagt til, að þau hækki aftur um 50%. Af þessu má marka, að það eru gerðar hér veigamiklar ráðstafanir til þess að stuðla að því, að löggjöfin um verkamannabústaði nái tilgangi sínum, þ.e.a.s. að veitt verði sem mest hjálp til þeirra, sem mest þurfa á henni að halda.

Á undanförnum árum hefur verið veitt mikið fjármagn til íbúðarlána í verkamannabústöðum. Það mun láta nærri, að á árunum 1960—1964 hafi nálægt 80 millj. kr. verið afgreiddar í lánum til verkamannabústaða. Þetta er mikið fjármagn, þegar tekið er tillit til þess, að það er samkvæmt eðli og tilgangi laganna aðeins mjög takmarkaður hópur, sem ætlazt er til að njóti aðstöðu til þess að fá lán á þessum vettvangi.

Það er séð fyrir tekjum til verkamannabústaðanna, eins og kunnugt er, með framlögum úr sveitarsjóðum og jafnháu framlagi frá ríkinu. Þetta fyrirkomulag er meginuppistaðan í tekjuöflun til byggingarsjóðs verkamanna. Ég skal geta þess, að það er áætlað, að hinar föstu tekjur byggingarsjóðsins muni nema á þessu ári um 15 millj. kr., þ.e.a.s. að 12.8 millj. kr. verði framlög sveitarsjóðs og ríkissjóðs, en 2.9 millj. annað ráðstöfunarfé, aðallega árgjöld, þ.e.a.s. afborganir og vextir af lánum sjóðsins. En fjárþörf byggingarsjóðsins er mikil. Það má marka af því, að nú eru tæplega 190 lánsumsóknir fyrir hendi hjá stjórn byggingarsjóðs verkamanna, sem þarf að fullnægja. Ef við gerum ráð fyrir því, að það séu veittar 450 þús. út á hverja íbúð, nemur fjárþörfin til þess að svara þessum umsóknum um 85 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. muni sjá sjóðnum fyrir ráðstöfunarfé til viðbótar því, sem hann hefur af sínum föstu tekjum, og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, til þess að þessi löggjöf nái tilgangi sínum. Með þessum aðgerðum, sem nú eru gerðar á þessu sviði, er fylgt sömu stefnu og á öðrum sviðum húsnæðismálanna, og hér hefur verið ýtarlega rætt um undanfarna daga að efla lánastarfsemina til þess að gera byggjendum íbúðarhúsa sem auðveldast að koma sér þaki yfir höfuðið. Og þess er að vænta, að þessu frv. verði vel tekið og afgreitt skjótlega.