15.03.1965
Efri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

17. mál, verkamannabústaðir

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá brtt., sem hv. heilbr.- og félmn. hefur hér flutt, sé ég ekki ástæðu til að gera neinn sérstakan ágreining á þessu stigi málsins, þar sem vitað er, að það gæti tafið fyrir framgangi málsins, og annars vegar hitt, að hér mun vera um samkomulagsatriði í hv. n. að ræða, þ.e.a.s. nefndin getur fallizt á þessa till. þannig, eins og hún birtist á þskj. 323. Ég vil þó nota þetta tækifæri til að láta í ljós nokkurn beyg um framkvæmd þessa atriðis, þar sem það er miklu flóknara viðfangs en hið fyrra atriði var og eins og frv. gerir ráð fyrir. En eins og ég sagði, ég skal ekki gera um þetta sérstakan ágreining á þessu stigi málsins, sér í lagi með hliðsjón af því, að það gæti tafið framgang málsins, sem ég efast þó ekki um að allir hv. þdm. eru sammála um, að nauðsyn sé á að afgreiða bæði fljótt og vel, eins og hv. frsm. gat um hér áðan, að jafnvel verði reynt svo sem kostur er að tryggja fjárhagslegan grundvöll að framkvæmd málsins. Það er kannske ekki tilefni til þess sérstakt við umr. um þær breytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að fara sérstaklega út í sögu málsins, þ.e.a.s. gang mála á vegum byggingarsjóðs verkamanna, þau rúmlega 30 ár, sem hann hefur nú starfað, en lagasetning um hann fór fram rétt um árið 1930, þegar fyrstu byggingarfélög verkamanna voru stofnuð á Akureyri, Reykjavík, Siglufirði, Patreksfirði og Flateyri.

Ég held, að það skaði ekki, þó að upplýst sé nú, að á vegum þessa kerfis hafi síðan, þótt í bylgjum hafi gengið eins og ýmsir aðrir hlutir í okkar þjóðfélagi, verið byggðar hér 1326 íbúðir. Eðlilega eru fjölmennustu bæirnir þarna stærstir aðilar að, eins og t.d. Reykjavík með 595 íbúðir, Ísafjörður með 46, Keflavík með 50, Hafnarfjörður með 122, Akureyri með 112 og Akranes með 36 íbúðir. Það má einnig fullyrða, að allt það fólk, sem í þessum á 14. hundrað íbúðum býr í dag og sér í lagi þegar það komst yfir þessar íbúðir á vegum kerfisins, hefði ekki með nokkrum öðrum hætti getað eignazt íbúð, svo mjög sem stakkur hefur verið þröngt skorinn um tekju- og eignarmörk þess fólks, sem þarna gat orðið aðilar að. Sérstaklega ber því að fagna þessu atriði og þeirri vissu, að þetta fólk væri ekki annars í eigin húsnæði í dag, svo langt sem það getur talizt eigin húsnæði að eiga íbúð í þessu kerfi. Það er einnig töluverðum annmörkum háð að selja þær, eins og hv. frsm. kom hér að áðan og gerði rækilega grein fyrir í sambandi við þá brtt., sem n. leggur fram. Hann gat einnig um það, hvernig tekjur eru til orðnar fyrir þetta kerfi og hvernig það hefur verið rekið undanfarin ár. Ég hlýt að minnast þess frá fyrstu lántökunni, eftir að ég kom til starfa í stjórn byggingarsjóðsins, að nokkur skrekkur fór um okkur árið 1958, þegar farið var inn á þá braut að taka lán með 8% vöxtum, en lána þau út á 6%. Hér kemur það sama fram og hæstv. félmrh. gat um í framsöguræðu sinni fyrir frv., sem einnig liggur fyrir þessari hv. þd., um húsnæðismálastofnun ríkisins, að gjalda ber fullan varhuga við að fara um of inn á þessar brautir, þó að aðstæður kunni að neyða menn til þess stöku sinnum. Það leiðir ekki nema til einnar niðurstöðu, að sjálft stofnfé sjóðanna hlýtur að ganga til þurrðar og grundvöllur þeirra að veikjast að mun.

Af þessu yfirliti, sem ég drap hér á áðan um þann íbúðafjölda, sem byggður hefur verið á vegum kerfisins, og lánsloforð til einstakra byggðarlaga í þeim efnum, sem nær þó ekki nema til ársloka 1962, verður ljóst, að íbúðir byggðar fyrir áhrif laganna eru komnar, eins og ég sagði, á 14. hundrað. Þar af hefur Reykjavík nálega helming þessara íbúða eða því sem næst 600 íbúðir. Hin ströngu tekjumörk, sem enn þá er ekki breytt nema til samræmis við hækkandi laun, ættu einnig í framtíðinni að tryggja það, að áfram verði það fólk fyrst og fremst aðnjótandi þeirra fríðinda, sem lög þessi gera ráð fyrir, og tryggt verði, að þar verði þeir fjárhagslega getuminnstu í þessum íbúðum áfram. Ég hika ekki heldur við að fullyrða, að þetta íbúðalánakerfi er merkilegt fyrir þá sök m.a., að það á áreiðanlega drýgstan þátt í því og fjárhagsleg aukning sjóðsins á undanförnum árum á áreiðanlega mikinn þátt í því, að meðalíbúðin, sérstaklega hér í Reykjavík og stærri kaupstöðunum, hefur farið minnkandi. En það hefur verið einn mikill ljóður á byggingarháttum landsmanna undanfarin ár, að byggðar hafa verið allt of stórar íbúðir, sem gengur óhjákvæmilega út yfir það, að færri íbúðir hafa verið byggðar. Í nýútkomnum Fjármálatíðindum eða riti Framkvæmdabankans, sem heitir „Úr þjóðarbúskapnum“, er þess getið varðandi byggingar, að í Reykjavík hafi 42% fullgerðra íbúða verið 3 herbergi og minni árið 1962 og 58.2% 1963. En í kaupstöðum og kauptúnum er mikill meiri hluti íbúða fjögurra herbergja og stærri þessi ár, og meðalstærð fullgerðra íbúða í Reykjavík árið 1963 er 322 rúmmetrar, en 372 rúmmetrar í kauptúnum. En svo stækkar þetta aftur í kaupstöðum landsins, en þar er meðalíbúðin 406 rúmmetrar. Það hefur oft verið á það bent í umr. um þessi mál, að langdýrustu íbúðirnar eru þær minnstu. Þar er kjarninn sá sami, þ.e.a.s. dýrasti hluti íbúðarinnar, eldhús og bað, er nánast sá sami og í stóru íbúðunum, en fermetrarými annarra herbergja þeim mun minna.

Það er allra manna mál, að við þurfum að byggja meira af litlu íbúðunum á kostnað þeirra stóru, fækka þeim, miðað við sama mannafla og fjármuni til íbúðabygginga og verið hefur, því að litlu íbúðirnar eru fyrst og fremst til afnota fyrir þá, sem minnsta hafa fjárhagsgetu í byrjun síns búskapar, þ. e. ungu hjónin, sem eru að hefja sinn búskap. En því miður hefur reynslan orðið sú undanfarna áratugi, að einmitt þessar íbúðir hafa orðið dýrastar í byggingu og allt of lítið af þeim verið byggt vegna þess, hve vinnuafl og fjármunir hafa verið tepptir í of stórum íbúðum. Um þessa hlið að öðru leyti má að sjálfsögðu ræða frekar í sambandi við lögin um húsnæðismálastofnunina, þegar þau koma hér til síðari umr., en ég vek athygli á þessu tvennu, þ.e.a.s. í fyrsta lagi þeirri staðreynd, að þeir, sem í verkamannabústöðum búa í dag, hefðu ekki með öðrum hætti átt þess kost að komast yfir húsnæði og að það íbúðalánakerfi, sem þau starfa eftir, er langlíklegast til þess að lækna marga af þeim stóru ágöllum, sem eru á byggingarháttum landsmanna í dag.