15.03.1965
Efri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

17. mál, verkamannabústaðir

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. Ég skal fyllilega taka undir það, sem hér hefur komið fram í ræðum tveggja síðustu hv. ræðumanna, að lögin um verkamannabústaði voru og eru hin þarfasta löggjöf, sem hefur komið að verulegu gagni. Ég skal einnig lýsa yfir því, að ég tel, að sú breyting á lánaupphæð, sem á að gera samkv. þessu frv., er mjög eðlileg og algerlega nauðsynleg miðað við þá hækkun byggingarkostnaðar, sem orðið hefur, og miðað við það, sem þó er verið að gera í sambandi við hin almennu íbúðalán.

Það, sem kom mér til þess að kveðja mér hljóðs, var fyrst og fremst að óska eftir frekari upplýsingum um, hvað fyrirhugað sé að gera í sambandi við fjáröflun fyrir þetta kerfi. Hér er um að ræða 50% hækkun á þeim lánum, sem heimild er til þess að veita til verkamannabústaða. Þá langar mig til þess að spyrja í fyrsta lagi: Er það ætlun hæstv. ríkisstj. að afla þriðjungi meira fjár til þessara hluta, og er ætlunin að gera það nú á þessu ári, þannig að það komi til framkvæmda á því ári? Eða er e.t.v. ætlunin að afla meira fjár en þarf til að mæta þessari hækkun einni? Mér sýnist, að á því sé full þörf, því að þótt löggjöfin sé hin gagnlegasta, hefur það alltaf háð henni meira og minna, að það hefur ekki verið hægt, stundum a.m.k., að sinna nándar nærri öllum þeim, sem hafa viljað og haft heimild til að hagnýta sér þetta kerfi. Hv. frsm. n. upplýsti, að nú á þessu ári mundi vera um að ræða 15 millj. kr. tekjur til þessarar starfsemi. Það gefur auga leið, að þarna er um allt of lítið fjármagn að ræða, þegar svo er komið, að ætlunin er þó að veita allt að 450 þús. kr. út á íbúð, og er raunar vafalaust ætlun hæstv. ríkisstj. að afla þarna nokkurs fjár til viðbótar. En mér þætti fróðlegt að vita, hvort ætlunin er að láta við það eitt sitja að afla svo sem 50% viðbótarframlags eða hvort ætlunin er að afla meira fjár. 15 millj. kr. mundu þýða að öllu óbreyttu, að hægt yrði aðeins að afgreiða rúm 30 lán, en 50% aukning mundi þá þýða eitthvað innan við 50 lán árlega, og það er vitanlega of lítið. Þarna er þörf á að bæta töluvert um, m.a. vegna þess, að þetta skiptist á ýmsa kaupstaði, og það hefur stundum verið þannig, a.m.k. í sumum hinum smærri, að þau lán, sem þeir áttu kost á til verkamannabústaða, hafa verið svo fá, að það hefur verið ýmsum erfiðleikum bundið að hefja framkvæmdir. Það er hagkvæmara og kemur alla vega betur út að geta byggt þó nokkra bústaði í einu heldur en að leggja kannske í það að byggja svo sem 2—4 í kaupstað hverju sinni eða jafnvel færri.

Ég vil sem sagt lýsa fylgi mínu við frv., en jafnframt æskja upplýsinga um það, hvað fyrirhugað er um fjáröflun til þessa kerfis.