18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

17. mál, verkamannabústaðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um verkamannabústaði er komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþ. shlj. með einni lítilli breytingu, sem ég skal koma nokkrum orðum að síðar.

Meginákvæði þessa stutta frv. eru þau í fyrsta lagi að hækka lánin, sem veitt eru til verkamannabústaðabygginga, um 50% frá því, sem verið hefur, en þessi lán hafa verið 300 þús. kr. á íbúð, en eru skv. þessu frv. hækkuð upp í 450 þús. eða um svipaða upphæð og lán hins almenna veðlánakerfis eru hækkuð.

Þá er enn fremur í 2. gr. gert ráð fyrir því, að nokkuð verði rýmkuð skilyrðin fyrir því að fá inngöngu í byggingarfélög. Eins og nú er í gildandi lögum um þetta, þá er viðmiðunin, þ.e.a.s. tekjumarkið, sem maður má hafa til þess að fá inngöngu í slíkt félag, 65 þús. kr. og viðbót fyrir hvert barn á framfæri 2500 kr. Þetta er hvort tveggja hækkað, tekjumark mannsins úr 65 þús. kr. í 100 þús. og að auki fyrir hvert barn í 7500 kr. í staðinn fyrir 2500. Í samræmi við þetta er eignaviðmiðun hækkuð úr 150 þús. kr. í 200 þús. kr. Þetta er hvort tveggja gert til þess að rýmka möguleikana fyrir því, að menn með lægstu tekjur geti orðið aðilar að byggingarfélagi.

Auk þess var í frv. gert ráð fyrir, að því aðeins gæti eigandi íbúðar í byggingarfélagi selt hana á þann hátt, að hann nyti verðhækkunarinnar, að hann hefði átt hana í 20 ár. Þessu atriði breytti hv. Ed, þannig, að ef maður hefur átt íbúðina í 10 ár, þá er lagt til að hann njóti verðhækkunarinnar að helmingi, en til þess að hann njóti hennar að fullu, þá þarf hann að hafa átt hana í 20 ár.

Þetta eru þau einu atriði, sem frv. fer fram á. Ég hefði óskað eftir því, að afgreiðslu þess yrði flýtt og það gæti orðið sem fyrst að lögum, vegna þess að svo margir bíða eftir því, að þessum ákvæðum verði breytt, að æskilegt væri, að afgreiðsla frv. í þessari hv. d. gæti gengið sem fyrst fyrir sig.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn., og vænti, að hv. þdm. aðstoði við það að greiða götu frv.