16.03.1965
Neðri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar fiskverð var ákveðið af verðlagsráði sjávarútvegsins upp úr áramótunum síðustu, hækkaði verðið á fiskinum, eins og kunnugt er, um 5 1/2%. Verðið í fyrra, 1964, var þó talið það hátt, að gera þurfti sérstakar ráðstafanir þá, til þess að endarnir næðu saman hjá bæði útvegsmönnum og vinnslustöðvum. Þá var ákveðið að veita 43 millj. á árinu 1964 til framleiðniaukningar og annarra endurbóta við framleiðslu freðfisks. Ákveðið var, að stofnlánadeild sjávarútvegsins úthlutaði þessu fé til til tekinna framkvæmda í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands. Það varð þess vegna niðurstaðan í janúarmánuði s.l., að það væri vart hægt að hugsa sér, að vinnslustöðvarnar gætu tekið á sig þá hækkun, sem leiddi af niðurfellingu þessa styrks á árinu 1964 og hækkandi kaupi, án þess að þar kæmi til nokkurrar aðstoðar, svipað og árið 1964. Það varð því niðurstaðan, að ríkisstj. ákvað, um leið og þetta fiskverð var ákveðið, að leggja til við Alþingi, að veita mætti 25 aura verðuppbót á hvert kg af línu- og handfærafiski og enn fremur 33 millj. kr. á árinu 1965 til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Þetta er því nokkur lækkun á framlagi ríkissjóðs frá árinu 1964, þó að verðið hafi hækkað til útvegsmanna og sjómanna um 5 1/2% frá því, sem það var í fyrra. Þessar greiðslur eru taldar nema nú samtals 55 millj. kr., en voru í fyrra taldar mundu nema yfir 90 millj. kr.

Það er ýmislegt, sem kemur til greina í þessu sambandi, sem verðlagsráð sjávarútvegsins tók tillit til, eins og t.d. hækkandi verð bæði á hraðfrystum fiski og á saltfiski, enn fremur hafa farmgjöld á frystum fiski verið lækkuð mjög verulega á árinu, og hjálpar þetta einnig til að ná endunum saman. En forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, sem nú, eins og kunnugt er, er formaður verðlagsráðsins, taldi að athuguðu máli, að það væri ekki unnt enn að fella aðstoð ríkisins alveg niður, þrátt fyrir þá hækkun, sem orðið hefði á mörkuðunum, og það, að farmgjöldin hefðu lækkað, eins og ég sagði, um ca. 1/3.

Þá er þess að geta í þessu sambandi, að aðalhækkun útflutningsafurðanna hefur orðið á saltfiskinum og frysta fiskinum, en miklu síður og raunar ekki vitað enn um, að tilsvarandi hækkun mundi koma á skreiðina. Þess vegna er það opið mál enn, hvort hún muni ekki einnig þurfa nokkurrar aðstoðar við, þó að það liggi ekki enn þá fyrir.

Í 3. gr. frv. er svo tekið upp sams konar ákvæði og var í bráðabirgðaákvæði, sem fylgdi lögunum frá í fyrra. Þar segir, að stjórn aflatryggingasjóðs sé heimilt að ákveða, að bætur til togara úr sjóðnum vegna aflabrests 1964 skuli miðast við úthaldstíma þeirra á því ári, svo og að setja um þetta nánari reglur með samþykki sjútvmrh. Þetta er óbreytt frá því, sem var í fyrra, og er flutt samkv. eindregnum tilmælum togaraeigenda. Hér er ekki um að ræða breytingu á því grundvallaratriði í aflatryggingasjóðslögunum, að bætur skuli reikna út miðað við aflamagn og úthaldstíma, heldur einungis, að greiðslur útreiknaðra bóta til hvers einstaks togara skuli miðaðar við úthaldstíma togarans. Aðferðin er þá sú, að fyrst eru reiknaðar bætur skv. reglum sjóðsins, en heildarupphæð allra bótanna til togaranna samanlagt síðan skipt niður á samanlagðan úthaldstíma allra togaranna og bætur til hvers einstaks skips síðan reiknaðar miðað við úthaldstíma þess skips. Þetta hefur því engin áhrif á heildarupphæð bótanna til togaranna, heldur aðeins á skiptingu þeirra innbyrðis á milli skipa.

Þetta er, eins og ég sagði, gert að eindreginni ósk togaraeigenda, vegna þess að það er oft og tíðum erfitt að gera sér grein fyrir því, hvernig reikna beri bætur til einstaklinganna, sem þennan atvinnuveg stunda, vegna þess að aflinn segir þarna ekki til nema um nokkurn hluta afkomunnar. Sumt af aflanum er lagt á land hér heima, annað flutt til útlanda, og þess vegna miklu erfiðara að skipta eftir þessum reglum, heldur er hér lagt til, að heildarupphæðinni, sem togararnir fá samkv. reglum aflatryggingasjóðsins, verði skipt á milli hinna einstöku skipa í hlutfalli við úthaldsdaga þeirra.

Þetta er aðalefni frv., og tel ég ekki, að það þurfi frekari skýringa við.

Í grg., sem frv. fylgir, er þess getið, hvernig þessum útgjöldum ríkissjóðs skuli mætt. Það eru raunar tvær leiðir þar hugsanlegar. Önnur er sú að mæta þessum nýju útgjöldum, sem ekki var séð fyrir í fjárlögum ársins, með nýjum sköttum eða þá að draga úr útgjöldum sem þessari útgjaldaaukningu svarar. Sú leiðin hefur verið valin að fara ekki út í nýja skattlagningu, heldur fresta framkvæmdum, eins og heimilað er í fjárlögum að gera, sem nemur þessari upphæð og þeirri, sem vitað er að muni koma til á árinu einnig vegna 6.6% launahækkunar opinberra starfsmanna.

Eins og ég sagði áður, er gert ráð fyrir því, að kostnaðurinn við þessa aðstoð til sjávarútvegsins nemi 55 millj. kr. og kostnaðurinn við launahækkun opinberra starfsmanna um 65 millj. kr., eða samanlagt 120 millj. Fjárlögin voru, eins og öllum hv. þm. er ljóst, það þröng, eins og frá þeim var gengið, að það eru engar líkur til, að hægt sé að taka þessa upphæð til greiðslu að óbreyttum tekjum eða útgjöldum, án þess að það komi fram sem halli á fjárlögum. Þetta vildi ríkisstj. forðast og hefur þess vegna tekið þá ákvörðun samkv. heimildinni í fjárl. að fresta um 20% af framkvæmdunum, sem munu nema milli 500 og 600 millj. kr. samtals, og ætti þá að nást sparnaður, sem næmi svipaðri upphæð og þessi útgjaldaliður til sjávarútvegsins og aukin gjöld til starfsmanna ríkisins nema.

Ég vildi svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.