18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Það er mér kannske dálítill vandi á höndum að stíga hér í ræðustólinn eftir hina miklu ræðu hæstv. forsrh., en samt sem áður finnst mér það nú ekki svo alvarlegt, því að ég verð að segja, að það er ekki ríkisstj. Íslands, sem hefur bægt vandanum frá þjóðinni á undanförnum árum, heldur góðæri til lands og sjávar og dugnaður almennings.

Hér er til 1. umr. frv. til 1. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, á þskj. 333. Ekki þarf að draga í efa, að aðstoð sú, sem þar er gert ráð fyrir að veita sjávarútveginum, sé nauðsynleg, en hún er þrenns konar, svo sem lýst hefur verið. Í fyrsta lagi greiðir ríkissjóður fiskseljendum 25 aura í verðuppbót á hvert kg línu- og handfærafisks. Í öðru lagi framlag frá ríkissjóði á árinu 1965 eða yfirstandandi ári um 33 millj. kr., er verja skal til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu fiskafurða. Og í þriðja lagi er stjórn aflatryggingasjóðs heimilt að ákveða, að bætur til togara úr sjóðnum vegna aflabrests á árinu 1964 skuli miðast við úthaldstíma þeirra á því ári.

Í raun og veru er dálítið erfitt að kingja því, að til alls þessa þurfi að grípa nú, þar sem verið hefur metafli og stórhækkandi verðlag undanfarið. En allt á sínar orsakir, og skal ég koma að því síðar. Í aths. við frv., sem m.a. eru röksemdir fyrir nauðsyn lagasetningar þessarar, er gert ráð fyrir, að verja þurfi úr ríkissjóði 55 millj. kr. til að fullnægja framkvæmd hennar. Þá er frá því skýrt í aths., að ekkert fé hafi verið áætlað til að mæta þessum greiðslum í fjárl. ársins 1965 og því verði að gera sérstakar fjárhagslegar ráðstafanir þeirra vegna. Þetta er mjög illa farið. Hér hlýtur nauðsyn að bera til, annað fær ekki staðizt. Síðan er því bætt við, að sama máli gegni um hækkun útgjalda vegna þeirrar 6.6% launahækkunar opinberra starfsmanna, sem samið var um í byrjun þessa árs. Sú útgjaldahækkun er áætluð 65 millj. kr. Alls sé því um 120 millj. kr. útgjaldaaukningu að ræða, sem ekki sé neitt fé til að mæta á fjárl. yfirstandandi árs. Það verður að segja, að þetta litur engan veginn vel út, að þurfa nú að bæta enn við nýjum álögum á þá stórkostlegu summu, sem búið var að ákveða að innheimta af þjóðinni samkv. fjárl.

Ég hygg, að mörgum hafi þótt allforvitnilegt að vita, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlaði að mæta þessum útgjöldum, og svarið lét ekki lengi á sér standa. Hæstv. ríkisstj. ákveður að nota heimild í 22. gr. fjárl. yfirstandandi árs til að fresta verklegum framkvæmdum ríkisins og greiðslu framlaga til annarra aðila, er nema á fjárl. ársins 1965 samtals 600 millj. kr., og lækka þessi framlög um 20%, til þess að hægt sé að mæta þeirri 120 millj. kr. útgjaldahækkun, sem að framan getur. Ég hygg, að það hafi fleirum en mér brugðið í brún við þennan boðskap, og hvers vegna, má ég spyrja? Að mínu viti er hér um bráðnauðsynlegar framkvæmdir að ræða, sem nú á að skerða, framkvæmdir, sem þjóðin hefur ekki efni á því að láta dragast úr hömlu. Í annan stað er svo skammt liðið frá setningu fjárl., að ótrúlegt er, að ekki hafi mátt sjá fyrir þá útgjaldaliði, sem hér um ræðir. Verður ekki vægara að kveðið en að um furðulegt áhugaleysi sé að ræða, eða þá fyrir fram ákveðinn niðurskurð á verklegum framkvæmdum ríkisins. Hvort heldur sem er, verður að víta harðlega.

Ég held, að fáum hafi komið það til hugar, eftir að búið var að leggja hátt á 3. hundrað millj. kr. viðbótarhækkun á þjóðina með hækkun söluskattsins í desember, að hæstv. ríkisstj. gripi nú til slíkra örþrifaráða að skera niður nauðsynlegustu og brýnustu framkvæmdir þjóðarinnar, þ.e. skólabyggingar, sjúkrahús, hafnir, vegi, flugvelli, raforkuframkvæmdir, atvinnubótafé o.s.frv. Þessar framkvæmdir eiga nú að víkja, en engar sparnaðarráðstafanir gerðar, ráðdeildarloforðin mörgu nú gleymd. Eða hvar eru nú hinir miklu viðreisnarsjóðir, sem sífellt er verið að guma af? Varla hefði þá munað mikið um að hlaupa hér undir bagga í bili. Getur það verið, að hér sé verið að umþótta vinnuaflið frá brýnustu framkvæmdum þjóðarinnar og því eigi að þoka í aðrar áttir? Því verður vart trúað, en margt kemur í hugann í sambandi við þau áform, sem hér eru á döfinni.

Ég mótmæli harðlega þessum ráðstöfunum um niðurfellingu fjármagns til nauðsynlegustu uppbyggingar í þessu landi. Það er ekki grunlaust um, að manni detti í hug, að hæstv. ríkisstj. hafi alls ekki gert sér grein fyrir, hvernig þessi niðurskurður verkar. Ég veit vel, hvernig hann verkar í mínu kjördæmi, og ég mótmæli alveg sérstaklega fyrir þess hönd.

Og ég er undrandi einnig yfir því, að hæstv. landbrh. og samgmrh. skuli hafa gefið samþykki sitt til þessa, sem á þó manna bezt að vita, hve skaðvænleg áhrif niðurskurðurinn hefur á framvindu mála í sveitum og þorpum landsins.

Margar þær fjárveitingar, sem í fjárl. standa, eru miðaðar við það að ljúka ákveðnum verkefnum. Ýmsir munu nú þegar hafa gert áætlanir samkv. ákvæðum fjárl., hafizt handa um útvegun efnisbirgða, véla, mannaráðningar með fleira, sem nú fer allt úr skorðum og hefur margs konar óþægindi í för með sér. Nú verður að gera nýjar áætlanir. Hvað um vegáætlunina, sem búið er að leggja mikla vinnu í? Raskast hún ekki öll, og verður hún ekki að endurskoðast? Hvað um raforkuframkvæmdirnar? Eitthvað dragast þær saman? Ætli þeir þakki fyrir, sem beðið hafa eftir rafmagni árum saman, en eygðu nú, að úr mundi rætast í ár, en verða enn að bíða? Hvað um hafnarbætur og hafnarrannsóknir, flugvelli, jarðræktarstyrki, að maður tali nú ekki um sjúkrahúsbyggingar og skólabyggingar af öllu tagi, útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, og svona mætti lengi telja, allt framkvæmdir, sem þola enga bið, ef fram á að þoka með eðlilegum hætti.

Fyrir nokkrum dögum var hér í hv. d. minnzt á það, að nota þyrfti svipu til að keyra áfram framkvæmdir, og í því sambandi talað um hjúkrunarskólann og hlutdeild hjúkrunarkvenna í því máli. Ég fæ nú ekki betur séð en landsbyggðin öll verði að grípa til svipunnar og slá í stjórnar-Grána, sem nú virðist reika ráðvilltur og stjórnlitill um klungur íslenzkra efnahagsmála þrátt fyrir gósenlönd hinna geysimiklu þjóðartekna. Ég verð að segja, að slík meðferð á fjárl. og fjárveitingum, sem búið er að ákveða með lögum, er ekkert annað en freklegar kreppuráðstafanir, er sanna óhugnanlega, að verðbólguófreskjan er nú þegar farin að gleypa óhugnanlega bita af arði íslenzkra, ofþjakaðra erfiðismanna og kvenna og af þjóðarframleiðslunni í heild. Menn sjá í hendi sér, hvernig ástandið er, þegar talin er þörf að grípa til jafnróttækra kreppuráðstafana nokkrum vikum eftir að fjárlög eru afgreidd. Og víst er um það, að vinnandi stéttir landsins geta áreiðanlega getið sér til, hvernig tekið mun á kröfum um kjarabætur þeim til handa nú í vor, þegar nú á öndverðu ári á að grípa til slíkra kreppuráðstafana, sem hér eru á ferðinni.

Er það nú víst, að hæstv. ríkisstj. og fylgismenn hennar hafi efni á því að auglýsa á þennan hátt fyrir þjóðinni fall sitt fyrir verðbólgudraugnum, sem hún hefur stríðalið og látið leika svo lengi lausum hala, að við hann verður ekki lengur neitt ráðið? Það hefur mikið verið fjargviðrazt út af því, að vinstri stjórnin svonefnda skyldi þurfa að segja af sér, vegna þess að hún náði ekki samkomulagi um að ráða fram úr 17% vísitöluhækkuninni 1958, sem þá átti að hafa siglt öllu í strand. Núv. hæstv. ríkisstj. lætur sig ekki muna um það að láta vísitöluna hækka öll árin frá 1959 um 17 vísitölustig á hverju einasta ári, sem liðið er síðan, sé reiknað á sama hátt og 1958. Þess vegna er svo komið, að allt virðist nú keyrt í strand og væri það fyrir löngu, ef hið mikla góðæristímabil, sem hefur staðið um sinn, hefði ekki komið til sögunnar. Í dag er ástandið þannig, að meginframleiðslugreinarnar bera sig ekki, að þeirra eigin sögn. Útgerðin ber sig ekki, nema þegar um metafla er að ræða, iðnaðurinn berst í bökkum, og ekki þykir ástandið almennt gott í landbúnaðinum. Og þar við bætist, að almenningur verður að vinna óhóflegan vinnutíma til að geta lifað samkv. kröfum tímans.

En af hverju er þetta þannig á því góðæristímabili, sem nú hefur verið? Þetta getur ekki stafað nema af einu, af óstjórn eða stjórnleysi. Viðreisnin svokallaða í þeirri mynd, sem við þekkjum hana, mótast af stjórnleysi. Þess vegna hefur fjárfestingin leikið lausum hala í algeru skipulagsleysi. Fer þá ekkert skipulag eða áætlunargerð fram? mætti spyrja. Jú, vissulega. Um 13 manns starfa í Efnahagsstofnuninni, 16–17 manns starfa í gjaldeyrisdeildinni á Laugavegi 77. Í þessum stofnunum vinnur margt góðra manna og safna skýrslum, semja áætlanir og vinna að alls konar „statistik“ í þjóðarbúskapnum, sem vitanlega er allt sent til hæstv. ríkisstj. til úrvinnslu. En nú er spurningin: Gerir hún það? Stjórnarfarið ber þess lítinn vott. Hún virðist una ákaflega vel stjórnleysinu og ástandinu, eins og það er, og að breyta um gæti eyðilagt hinn pólitíska sans í söfnuðinum, svo að maður noti skrýtið orðalag. En það er mergurinn málsins.

Það, sem verður að gera, er að taka fjárfestingarmálin föstum tökum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Á annan hátt verður ekki ráðið við verðbólguna. En sé nú svo komið, að nauðsyn reki til að skera niður allar fjárfestingarákvarðanir fjárl. um 20% á miðjum starfstíma, hljóta fjármál þjóðarinnar að vera komin í algeran vítahring. Það er augljóst mál og ekki annað hægt að álykta en allt tal hæstv. ríkisstj. um vaxandi og batnandi efnahagsafkomu sé hrein blekking, sem er þó hörmulegt að verða að segja um þá menn, sem í stjórnarstólunum sitja hér á Alþ.

Uppistaðan í öllu því, sem nú er bollalagt um framtíð þjóðarinnar, er meiri menntun, sérfræðileg þekking, aukin hagræðing, háþróaðra skipulag á öllum sviðum. Hvernig fær það samrýmzt þeirri stefnu að draga úr byggingu þeirra stofnana, sem eru undirstaðan að því að iðnvæða þjóðina á öllum sviðum? Það fær ekki staðizt, og við fordæmum þann boðskap, að til þess þurfi nú að draga. Það væri líka næsta óvarleg ráðstöfun og er næsta óvarleg ráðstöfun, ef svo væri nú þrengt að fjármálum þjóðarinnar, sem um er talað, að nú skuli eiga að gefa frí þeim mönnum frá stólum sinum, sem farið hafa með fjármálastjórnina á viðreisnardögunum, bæði efnahagsmálaráðuneytisstjóranum og jafnvel sjálfum fjmrh. Eða hræðast þeir þá mynd, sem við blasir?

Fram undan er mikið stríð innanlands milli flestra stétta og hæstv. ríkisstj., það er augljóst mál. Allir krefja um meira fé. Skattgreiðendur frábiðja sér þyngri skattbyrðar. Brátt mun að því reka, að svo til allir launamenn ríkis og bæja, verkamenn og bændur krefjist launahækkana frá ríkissjóði, bæjarfélögum, almannastofnunum og atvinnurekendum. Og gegn þeim kröfum verður ekki hægt að standa, þeim verður að mæta að meira eða minna leyti, það er gömul og ný reynsla. En við hlið þessa magnast verðbólgudraugurinn og heimtar æ stærri hluta þjóðarteknanna í sinn hlut og tekur æ stærri skammt af hvers manns diski. Það er þetta, sem við verðum að muna. Hvað verður þá til í verklegar framkvæmdir, þegar næst verða sett saman fjárlög, fjárlög, sem vafalaust verða á 5. milljarðinn að óbreyttu ástandi stjórnleysis og ringulreiðar í fjárfestingarmálum? Sennilega er það mannlegt fyrir fjármálastjórn á Íslandi að biðja um langt og gott sumarleyfi og skilja nú eftir auða stóla, eins og einn aldinn stjórnmálamaður sagði í blaðagrein í gær, en stórmannlegt er það ekki.

Hv. alþm. og hæstv. ríkisstj. Ég lít svo alvarlegum augum á ákvörðunina um 20% niðurskurð á verklegum framkvæmdum á fjárl. ársins 1965, að ég held, að það megi ekki seinna vera, að þessi virðulega stofnun snúi sér nú að því að ráðast á verðbólgudrauginn og knésetja hann. Ólafur Thors sagði við þjóðina fyrir nokkrum árum úr forsætisráðherrastól, og þorri þjóðarinnar var honum sammála: „Ef ekki tekst að stöðva verðbólguna, er allt annað unnið fyrir gýg.“ Síðan eru liðin nokkur ár, og verðbólgan heldur áfram fullum skrefum og aldrei með stærri skrefum en hin síðustu ár. Skilja menn ekki hvert stefnir? Þetta verk, að ráðast gegn v erðbólgunni, verður Alþingi að hafa forustu um að vinna með hjálp þjóðarinnar. Ef hæstv. ríkisstj. vill ekki eða getur ekki sameinað alþm. til að vinna þetta verk, þá verður hún að segja af sér. Þetta verk er aðkallandi, því að þjóðin krefst tafarlausra, jákvæðra vinnubragða í þessu vandamáli, sem ekki má undir höfuð leggjast. Þetta er stærsta vandamál, sem Alþingi og þjóðin á nú við að glíma, og ég vildi mega bera þá ósk fram úr þessum stól, að gegn þessu vandamáli snúumst við allir af heilum hug.