18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að misnota rétt minn til þess að fá að tala oftar en aðrir. En vegna þess að það var eitt atriði utan við sjálft meginefni þess máls, sem hér er um að ræða, sem ég vék að áðan af tilefni frá hv. 11. þm. Reykv. (KTh) og hann bar þá á móti, svo að allur þingheimur heyrði, að ég hefði rétt fyrir mér, þykir mér við eiga að lesa upp úr því, sem tekið hefur verið eftir honum hér í þinginu og stendur í ræðunni, eins og hún er skráð, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir síðustu áramót undirrituðu 300 hjúkrunarkonur áskorun til ríkisstj. um að hraða byggingu nýs hjúkrunarskóla. Árið áður höfðu 70 læknar gert hið sama. Þannig þarf að reka þetta allt saman áfram með svipu.“

Hv. þm. neitaði því hér, svo að allir heyrðu, að hann hefði sagt, að þessar undirskriftir hefðu orðið eftir áramót. Nú hafa menn einnig af þessu heyrt, hvaða mark er takandi á orðum þessa hv. þm.