18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér hefur komið það nokkuð á óvart, að málsvarar hv. Framsfl. og þó alveg sérstaklega nýliði flokksins á þingi, hv. 11. þm. Reykv., Kristján Thorlacius, hefur gert byggingu hjúkrunarkvennaskólans hvað eftir annað að sérstöku umræðuefni. Bæði hann og hv, síðasti ræðumaður hafa hvað eftir annað lýst alveg sérstökum áhuga sínum og flokks síns á því, að byggingu hjúkrunarkvennaskólans yrði hraðað sem allra mest. Víst er um það, að lengi hefur verið full þörf á því, að sá skóli yrði stækkaður og honum yrði lokið. En þess vegna hefur mér komið skyndilegur áhugi þeirra á þessum skóla dálítið spánskt fyrir sjónir, að það eru ekki mjög mörg ár síðan ég átti sæti í ríkisstj. með fulltrúum og undir forsæti manns úr þessum hv. flokki. Ég sat í ríkisstj. Hermanns Jónassonar frá 1956—1958 eða í 21/2 ár. Á þeim árum hafði ég að vísu ekki með málefni hjúkrunarkvennaskólans að gera, þau heyrðu þá undir hæstv. félmrh. og heilbrmrh., Hannibal Valdimarsson. Hinn ráðh., sem fyrst og fremst samkv. eðli málsins hlaut að fjalla um málefni skólans, var hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson. Á þeim árum var það því fyrst og fremst mál fulltrúa Alþb. í ríkisstj. og fulltrúa Framsfl. í ríkisstj. að sanna í verki áhuga sinn á málefnum hjúkrunarkvennaskólans og byggingarframkvæmdum í þágu hans. En það get ég fullyrt, að þau 21/2 ár, sem ég sat í þeirri ríkisstjórn með fulltrúum þessara flokka, var aldrei, ekki eitt skipti, á ráðherrafundi minnzt á nauðsyn byggingar fyrir hjúkrunarkvennaskólann í Reykjavík. Áhugi hv. Framsfl. á þessu efni er því nokkru nýrri af nálinni og á sér áreiðanlega einhverjar sérstakar skýringar. En það má segja hv. þm., fyrrv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni, til hróss, að hann man þessa sögu áreiðanlega jafnvel og ég, og þess vegna hefur hann talið hyggilegast og raunar hans flokksmenn að gera þetta ekki að neinu sérstöku umræðuefni.

Sannleikurinn er sá, að núv. ríkisstj. hefur tekið með allt öðrum hætti á málefnum hjúkrunarkvennaskólans og sýnt mun meiri skilning á þörfinni fyrir nýbyggingu honum til handa heldur en því miður átti sér stað á stjórnarárum Hermanns Jónassonar eða hans stjórnar. Annars kom mér mjög á óvart ræðuhald hv. 11. þm. Reykv. hér áðan, því að mér er kunnugt um, að fyrir nokkrum dögum fékk hann frá formanni skólanefndar hjúkrunarkvennaskólans nákvæmt yfirlit um það, sem gerzt hefur í byggingarmálum hjúkrunarkvennaskólans allar götur síðan 1957, nákvæma skrá um það, sem gerzt hefur í byggingarmálum skólans síðan 1957. Þessa skrá kaus hann að vísu ekki að lesa, af því að hefði hann gert það, hefði komið svolítið annað í ljós en hann kaus að gefa í skyn í ræðu sinni. Þessi skrá er ekki löng, og ég held, að einfaldast sé, að ég lesi hana. Hv. þm. Kristján Thorlacius bað um, að skráin yrði gerð, eflaust í því skyni að kunngera hv. þm. efni hennar, þegar hann bað um hana. En þegar hann hefur fengið hana, þegir hann um hana. Talar það eflaust sinu máli um það, hvort skýrslugerð formanns skólanefndarinnar, landlæknis, dr. Sigurðar Sigurðssonar, styður hans mál eða það mál, sem við hæstv. forsrh. höfum flutt hér í. þessu sambandi.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég nú að gera grein fyrir þeirri skýrslu, sem hv. þm. Kristján Thorlacius hefur í höndum, hefur í tösku sinni eða skúffu sinni, þó að hann hafi ekki kosið að gera þm. kunnugt um innihald hennar. Hún byrjar á því að gera grein fyrir fundi í byggingarnefndinni 11.6. 1957. Þá er húsameistara ríkisins falið að athuga og endurskoða teikningar að öðrum áfanga byggingarinnar, teikningu frá 1952. Síðan eru umr. um þessa gömlu teikningu frá 1952 á fundum 28.9. 1957; 19.8. 1958; 3.11. 1958; 3.3. 1960; 11.4. 1960; 22.4. 1960; þá var Bárður Ísleifsson viðstaddur, 13.1. 1961; 14.4. 1961; 10.8. 1961. Á þeim fundi, 10.8. 1961, greinir landlæknir frá því, að hann hafi gert rn. og fjvn. grein fyrir húsnæðis — og fjárþörf skólans og að hann hafi beðið húsameistara um kostnaðaráætlun vegna 2. áfanga byggingarinnar, en ég tek fram, að þá liggur enn engin teikning fyrir og engin kostnaðaráætlun.

15.2. 1962 eru enn framhaldsumræður um 2. áfanga skólabyggingarinnar. Þá er lagt til grundvallar í umr. bréf skólastjóra til húsameistara 19.8. 1961. 19.6. 1962 er enn fundur í skólanefndinni. Þar er rædd teikning Bárðar Ísleifssonar frá 1952, gamla teikningin um húsnæðisþörf 2. áfanga, ítrekuð beiðni til Bárðar Ísleifssonar um að hraða lokateikningu og kostnaðaráætlun, 19.6. 1962. Bárður Ísleifsson leggur fram nýjan tillöguuppdrátt að 2. áfanga, að mestu leyti svipaðan uppdrættinum frá 1952. Það er fyrst þarna, sem kemur fram hugmynd að nýjum tillöguuppdrætti fyrir 2. áfanga skólans. 27.11. 1962: framhaldsumr. um síðasta tillöguuppdrátt Bárðar Ísleifssonar og hann beðinn að gera lokateikningar að 2. áfanga. 15.3. 1963: uppdráttur Bárðar Ísleifssonar athugaður með Herði Bjarnasyni húsameistara ríkisins. Hörður Bjarnason skýrði frá því, að sökum annríkis á teiknistofu hans og þó einkum Bárðar Ísleifssonar vegna landsspítalans teldi hann óhjákvæmilegt að fá aðstoð utan teiknistofunnar til þess að gera teikningu að 2. áfanga. Samþykkt að fela húsameistara að ráða mann eða menn til þess, enda yrði verkið unnið á ábyrgð húsameistara ríkisins. 21.6. 1963: formaður greindi frá því, að sótt hafi verið um fjárveitingu til 2. áfanga skólans í fjárl. 1964, miðað við, að hann yrði byggður á þremur árum. Jafnframt var tilkynnt, að húsameistari ríkisins hafi falið arkitektunum Eiríki Einarssyni og Herði Björnssyni að ljúka teikningu af téðum byggingaráfanga og væru þeir að vinna að því. Það er m.ö.o. 21.6. 1963, sem fyrst er sótt um fjárveitingu til þess að byggja 2. áfanga skólans og þá miðað við fjárlög 1964. Þegar hér er komið eru málefni hjúkrunarkvennaskólans komin í mínar hendur.

Ég athugaði þá, þegar þessi umsókn berst, hversu langt undirbúningi málsins er komið, en það er grundvallarregla í skólakostnaðarlögum varðandi skólabyggingar, hvort sem þær eru byggðar sameiginlega af ríki og sveitarfélögum eða af ríkinu einu, að yfirleitt er ekki veitt fé til bygginganna fyrr en undirbúningi er lokið eða a.m.k. svo langt komið, að endanleg bráðabirgðateikning og kostnaðaráætlun liggur fyrir. Á árinu 1963, þegar fjárlög fyrir 1964 voru afgreidd, lá hvorki fyrir teikning af 2. áfanga hjúkrunarskólans né heldur kostnaðaráætlun um bygginguna. Ég gekk fullkomlega úr skugga um þetta í des. 1963, þegar gengið var frá fjárl. fyrir árið 1964, og þess vegna treysti ég mér ekki til að leita fast eftir því við fjvn., að ákveðin fjárveiting yrði tekin til byggingar hjúkrunarskólans í fjárl. ársins 1964, beinlínis sökum þess, að mér virtist málið vera síður undirbúið en mörg önnur mál, sem líkt stóð á um. Til þess þó að sýna, að fullur skilningur væri á nauðsyn þess, að sem fyrst yrði hafizt handa um byggingu 2. áfanga hjúkrunarkvennaskólans, varð það að samkomulagi, að bætt skyldi við lánsheimild, sem gert var ráð fyrir að yrði í fjárl. 1964 fyrir byggingu menntaskólans og kennaraskólans, bætt skyldi við hana lánsheimild til handa hjúkrunarskólanum. Ef málinu skyldi á næstu mánuðum miða svo hratt áfram, að einhver von væri til þess, að unnt væri að hefja framkvæmdir á árinu 1964, þá skyldi lánsheimildin vera til.

Nú held ég áfram að lesa skýrslu landlæknis, formanns skólanefndar skólans:

12.9. 1963: formaður las bréf, er hann ritaði menntmrn. 22, júlí 1963 um fjárveitingaþörf til skólans vegna 2. áfanga, áætlaður rúml. 5500 teningsmetrar og kostnaðaráætlun um 11 millj. kr. 15.11. 1963: arkitektarnir Eiríkur Einarsson og Hörður Björnsson lögðu fram teikningu, er þeir gerðu í samráði við Bárð Ísleifsson og skólastjóra. 12.11. 1963: rætt um teikningu Eiríks Einarssonar og Harðar Björnssonar og nokkrar aths. gerðar, arkitektunum falið að ganga frá teikningu og gera sem fyrst nákvæma kostnaðaráætlun. Þannig stendur málið, þegar fjárlög fyrir 1964 eru afgreidd. Það kemur greinilega fram í þessari fundargerð 12.11. 1963, að þá er hvorki teikningu né kostnaðaráætlun lokið. Svo kemur fundur 23.1. 1964, þ.e. í janúar í fyrra, teikningar samþykktar af skólanefnd og samþykkt að leita samþykkis menntmrn. á þeim. Það er m.ö.o. ekki fyrr en 23. jan. 1964, sem skólanefndin samþykkir teikningarnar. Húsameistara er falið að leggja teikningar fyrir byggingarnefnd reykjavíkur og semja útboðslýsingu. 30.4. 1964: formaður las bréf, er hann hafði ritað menntmrn. varðandi fjárveitingaþörf 2. áfanga byggingar skólans. Greindi hann jafnframt frá því, að teikningar hefðu verið sendar rn, í marzlok 1964 til staðfestingar. Enn fremur greindi formaður frá viðræðum sínum við rn. o.fl. um öflun fjár til byggingarinnar.

M.ö.o.: menntmrn. fær í marzlok í fyrra teikningar 2. áfanga til staðfestingar frá byggingarnefnd skólans. Og hvernig bregzt rn. við því? Hinn 6. maí 1964 er haldinn sá fundur, sem ég greindi frá um daginn í hjúkrunarskólanum með skólanefndinni og skólastjóranum og rætt um, hvernig á byggingarmálum

skólans skuli tekið, eftir að nú liggur teikning og kostnaðaráætlun fyrir. í maíbyrjun í fyrra má segja, að um tvær leiðir hafi verið að ræða. Það var engin fjárveiting komin inn á fjárlög vegna þess, hve undirbúningurinn hafði verið síðbúinn. En það var lánsheimild í fjárl. Um það var að gera að leita á hinn mjög þrönga lánamarkað og nota lánsheimildina til þess að afla nokkurra millj. kr. lánsfjár og hefja bygginguna sumarið 1964 með nokkurra millj. kr. lánsfé. Hin leiðin var sú að marka stefnuna í byggingarmálunum nú þegar og leitast við að fá í fjárlög fyrir 1965 þá upphæð, sem unnt yrði að byggja fyrir á árinu 1965 og síðan áfram þær fjárhæðir, sem nauðsynlegar væru, til þess að byggingu skólans gæti verið lokið sem allra fyrst. Það var mjög eindregin skoðun mín og skoðun embættismanna menntmrn., að mun skynsamlegra væri að hefja ekki byggingu fyrir fáeinar millj. sumarið 1964 og láta siðan grunn standa óhreyfðan í heilt ár, heldur miða þvert á móti við það að byrja framkvæmdir af fullum krafti á árinu 1965, byggja þá eins hratt og unnt væri á því ári og tryggja nauðsynlegt fé í því skyni. Ég skildi það sem niðurstöðu þess fundar, og það gerðu embættismenn menntmrn. líka, að allir aðilar, sem á fundinum voru, hefðu fallizt á rök mín og embættismanna menntmrn. fyrir því, að síðari leiðin væri vænlegri, og fulltryggt mætti telja, að skólinn yrði ekki fullbúinn síðar, þótt sú leið yrði farin. Þess vegna skoðaði ég það sem niðurstöðu fundarins, að þannig skyldi farið að, og gerði till. í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1965 um þá fjárveitingu, sem byggingarmeistarinn taldi hægt að byggja fyrir árið 1965. Hann taldi hægt að byggja fyrir 7 millj. kr. á því ári. Um þá fjárveitingu var beðið, og hún fékkst. Þess vegna eru 7 millj. kr. til byggingar hjúkrunarskólans í fjárl. fyrir árið 1965. Og ég endurtek og fullyrði, að það hefði að engu leyti hraðað byggingu skólans, þótt byggingin hefði verið hafin sumarið 1964 með nokkurra millj. kr. lánsfé, þar sem ég fullyrði, að skólinn hefði ekki orðið fyrr tilbúinn með því móti, og það er auðvitað mergurinn málsins og það eina, sem skiptir máli. Ég tel því, að með þessu séu tekin af öll tvímæli um það, að ríkisvaldið hefur sýnt byggingarmálum hjúkrunarkvennaskólans þann skilning og þann áhuga, sem eðlilegur var og raunar er ekki sérstaklega þakkarverður. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða og sjálfsagt að sinna því af áhuga og velvild, en þessar upplýsingar taka hins vegar af öll tvímæli um það, að ásakanir um skilningsleysi af hálfu ríkisvaldsins á þessum málum eru algerlega úr lausu lofti gripnar.

Og þá eru hér eftir tvær fundargerðir enn hjá skólanefndinni. Það er fundur 14.5. 1964: formaður greindi frá viðræðum sínum við menntmrh. og heilbrmrh: um húsnæðisþörf skólans og brýna þörf til úrbóta. Og svo 4.2. 1965, þ.e.a.s. 4. febr. s.1. Arkitektarnir Eiríkur Einarsson og Hörður Björnsson lögðu fram staðfestingu byggingarnefndar Reykjavíkur á uppdráttum 2. áfanga skólans svo og verklýsingu. Arkitektunum var falið að semja grg., sem svo yrði send menntmrn. Síðan virðist fundur ekki hafa verið haldinn. En eins og ég skýrði frá í ræðu hér um daginn, sendi skólanefndin hinar endanlegu teikningar af 2. áfanga hjúkrunarskólans til menntmrn. 5. febr. 1965. 10. febr. biður rn. um umsögn fræðslumálastjóra og kostnaðaráætlun húsameistara, sem vantaði. 16. febr. svaraði fræðslumálastjóri, 18. febr. svarar húsameistari og 5. marz s.1., þ.e.a.s. 5. þ. m., staðfesti menntmrn. teikningarnar og skýrði landlækni frá því með bréfi 8. marz s.1., og er þar með fengin fullgild heimild fyrir byggingarnefndina til þess að hefja framkvæmdir og ráðstafa því fé, sem til skólans hefur verið varið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þessa sögu nánar en hér hefur verið gert, þótt að vísu væri full ástæða til þess og mætti svo sem gjarnan gera það. En fyrst svo undarlega vildi til, að hv. 11. þm. Reykv. kaus að þegja um skýrslu, sem hann þó hafði beðið um og fengið um málið, þótti mér rétt, að hv. þm. fengju að kynnast henni. Varðandi þær áskoranir, sem okkur hafa borizt bæði frá læknum og hjúkrunarkonum um að flýta sem mest framkvæmdum í þessu máli, er það að segja, að það mun hafa verið í s.l. mánuði, sem tvær ágætar forustukonur hjúkrunarkvenna komu á minn fund og afhentu mér undirskriftaskjal undirskrifað af u.þ.b. 300 hjúkrunarkonum í landinu. Ég veitti því að vísu athygli, að undirskriftaskjalið var gamalt, og hafði orð á því í léttum tón við þær ágætu hjúkrunarkonur, sem við mig ræddu, að það virtist hafa tekið talsverðan tíma að safna öllum þessum undirskriftum saman. Þær svöruðu því til í jafnléttum tón, að þær væru eflaust til annarra starfa betur fallnar en þeirra að standa í slíkum undirskriftasöfnunum og þess vegna hefði þetta dregizt eitthvað lengur en eflaust hefði verið ástæða til og hefði þurft að vera. Ég man ekki betur en ein af skýringunum, sem ég hef fengið hjá þessum ágætu forustukonum samtakanna, hafi verið sú á því, að hraðinn hefði þó ekki verið meiri en þessi, að þeim hefði verið kunnugt um, hvað hefði verið að gerast í málinu, og ég varð ekki var við annað en þessar forustukonur hjúkrunarkvenna hefðu fullan skilning á því og mætu það að verðleikum, að ríkisstj, hefði sýnt hjúkrunarkvennaskólanum þann áhuga að tryggja hærri fjárveitingu til hans á fjárl. 1965 en til nokkurs annars skóla, sem í byggingu er. Þetta var þeim algerlega ljóst, a.m.k. þegar þær ræddu við mig, og ég efast ekki um, að sú skoðun þeirra er alveg óbreytt, að þetta hafi verið myndarleg ráðstöfun hjá ríkisstj.