18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki tefja þessar umr. með löngu máli, því að sannast að segja hef ég ekki sérstaklega ríka ástæðu til þess að svara mjög því, sem fram er komið, þar sem það hefur litið snert kjarna þessa máls og engu verið haggað af því, sem ég benti á í minni fyrri ræðu. En þá vildi ég víkja hér aðeins örfáum orðum að ræðu hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. var í dag að senda Haraldi Böðvarssyni tóninn, en þóttist vera að tala við framsóknarmenn. Hann gerði okkur upp orðin á ýmsan hátt, hvað við hefðum sagt, og svaraði því svo þannig, að það var auðheyrt, hvert þeim sendingum var ætlað að fara. Í því sambandi varð honum nokkuð fjölyrt um, að hann hefði ekki heyrt það enn þá, að Haraldur Böðvarsson hefði sagt sig til sveitar. Ég hef ekki heldur heyrt það. En mér finnst hæstv. forsrh. setja markið nokkuð lágt, ef hann telur allt í sæmilegu lagi, meðan hann hefur ekki frétt, að Haraldur Böðvarsson hafi sagt sig til sveitar. Hygg ég, að þá muni hans stefna hafa þjarmað að æðimörgum illyrmislega, þegar Haraldur Böðvarsson verður að grípa til þess.

En svo að maður sleppi nú slíkum málflutningi eða að ræða hann, þá vil ég minna á, hvað það var, sem var aðalatriðið í því, sem við vitnuðum til frá Haraldi Böðvarssyni, en það var þetta: Hann sagði, að helzta úrræðið í sjávarútveginum til að sleppa undan hinum slæmu búsifjum stjórnarstefnunnar eða þróun málanna undanfarið væri að auka vinnuhagræðingu og tækni með nýtízku vélum. Síðan sagði Haraldur Böðvarsson, að þessar vélar kostuðu mikið fé og af þeim yrði að greiða mjög háa tolla. Og loks sagði hann orðrétt: „Hvar fæst lán til kaupa á þessum nauðsynlegu vélum? Mér vitanlega hvergi, þótt sannanlegt sé, að slíkar vélar spara mikið vinnuafl og borga sig á tiltölulega stuttum tíma, þar sem næg verkefni eru fyrir hendi.“

Þetta stangast alveg á við það, sem hæstv. forsrh. hélt fram, því að hann hélt því fram, að í þessum efnum væri allt í lagi. En það er mergurinn málsins, að í þessum efnum er allt í ólagi, því að það er ekki hægt að fá lán til að kaupa vinnusparandi vélar, eins og Haraldur Böðvarsson segir, og þarna er um einn meginkjarnann í stefnu stjórnarinnar að ræða, því að hún hefur hugsað sér að draga úr því, sem hún kallar ofþenslu, með því að klípa lánveitingar við nögl. Þá verkar þetta eins og Haraldur Böðvarsson segir frá, og fram hjá þessu er ekki hægt að komast með léttúðugu tali um, að þessir miklu stólpar hafi ekki enn þá sagt sig til sveitar. Hér er um miklu alvarlegra mál að ræða en svo, að hægt sé að afgreiða það þannig. Hæstv. ráðh. ætti að taka þessi mál alvarlegar og reyna að setja sig inn í það, hvar skórinn kreppir, og bæta úr því í stað þess að ræða þessi alvarlegu efni í svo léttúðugum tón.

Þá kom það mjög greinilega fram hjá hæstv. ráðh., í fasi hans og tali raunar, að það er mjög farið að snerta hinar fínu taugar hans, hve hæstv. ríkisstj. neyðist til þess að taka sífellt fleira og fleira til greina af því, sem framsóknarmenn hafa lagt til á undanförnum árum. Hann segir, að þeir, sem völdin hafa, taki ákvarðanirnar. Það er auðvitað sjálfsagt að bera sig mannalega og láta svo í lengstu lög sem menn þurfi ekki að taka tillit til neins. En sannleikurinn í þessu máli er sá, að hæstv. ríkisstj. hefur orðið að láta undan, eins og mannýgt naut, má segja í ýmsum dæmum, t.d. í vaxtamálinu, hefur orðið að hopa á hæli og taka tillit til þess, sem Framsfl. hefur haldið fram, vegna þess að Framsfl. hefur haft almenningsálítið með sér og haft rétt að mæla. Þannig hefur það verið í vaxtamálinu, þar sem vextir hafa verið lækkaðir þrívegis og það tvívegis, rétt eftir að búið var að lýsa því yfir, að tillögur framsóknarmanna væru ábyrgðarlausar. Þá komu ótætis staðreyndirnar til liðs við framsóknarmenn, og stjórnin neyddist til að láta undan síga.

Hæstv. forsrh. var mjög að afsaka, að það skyldi ekki alltaf hafa verið hægt að komast hjá því að gera það, sem framsóknarmenn hefðu lagt til. Það bar víst að skilja þetta svo, að hæstv. forsrh. og hans menn hefðu í lengstu lög reynt að komast hjá því að taka það til greina.

Ekki finnst mér þessi málflutningur hæstv. forsrh. bera vott um mikið víðsýni eða vinnubrögð, sem líkleg séu til þess að bera góðan árangur, því að ég held, að það sé mjög óviturlegt af stjórnarvöldunum að meta tillögur og uppástungur, frv. og ályktanir eftir því, hvaðan þetta kemur. Ég held, að það væri miklu betra, að hæstv. ríkisstj. temdi sér að meta till. eftir innihaldi þeirra og hversu þær muni geta dugað, en ekki eftir því, hvaðan þær koma. Ég held, að forsrh. þurfi þess vegna ekkert að vera að eyða tíma sínum í að afsaka það fyrir þjóðinni, þótt hann hafi tekið upp till., sem framsóknarmenn hafa áður flutt, það sé honum ekki til neinnar vansæmdar. Hitt held ég, að væri rétt fyrir hæstv. forsrh., að breyta til um vinnubrögð í þessu efni nokkuð, því að ofstæki af þessu tagi, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., sómir sér ekki vel í forsætisráðherrasætinu.

Ég vil líka í fullri vinsemd benda hæstv. forsrh. á, að hann gæti mikið lært af okkur í stjórnarandstöðunni í þessum efnum. Við höfum þann sið yfirleitt að taka tillit til málanna eftir innihaldi þeirra. Við samþykkjum t.d. mörg mál, er koma frá hæstv. ríkisstj. Við metum málin eftir innihaldinu, en ekki því, hvaðan þau koma. En þeir hafa aftur á móti tamið sér hin óábyrgu vinnubrögð að fella öll mál, sem koma frá stjórnarandstæðingum, gjörsamlega án tillits til þess, hvað í þeim er, taka að vísu upp síðar heilmikið úr þessum málum og láta sem það sé frá sér og færa svo fram afsakanir eftir á. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. gæti mikið lært af okkur í stjórnarandstöðunni um ábyrg vinnubrögð í þessu tilliti og ætti að breyta til og sníða sín störf meira eftir því, sem við gerum. Við tökum sem sé algjörlega afstöðu til málanna, sem koma frá stjórninni, eftir innihaldinu og látum það ekki standa í vegi fyrir stuðningi okkar við mál, þó að þau komi frá ríkisstj. Mér finnst þessi vinnuaðferð okkar miklu ábyrgari en vinnuaðferð hæstv. ríkisstj. Þetta vil ég benda hæstv. forsrh. í allri vinsemd.

Ég sagði, að það hefði verið tekið eins og hver annar góður brandari, að vextirnir hafi verið lækkaðir um áramótin vegna aukins jafnvægis í peningamálum. Ekki vildi hæstv. forsrh. telja þetta réttmætt. Hann sagði, að það hefði verið hægt að sjá, að jafnvægi hefði aukizt og ástæða hefði verið til vaxtalækkunar, á því, að útlán hefðu vaxið eitthvað minna en innlánin. Ég sé ekki, hvaða samband er þarna á milli, nema útlánin hafi minnkað vegna þess, að eftirspurnin eftir lánum væri minni en áður. Það er það, sem átt er við, þegar talað er um jafnvægi í lánamálum. En svo var alls ekki. Eftirspurnin eftir lánum hafði stóraukizt, en það var bara lánaskömmtunin, sem hafói verið hert. Það var af þeirri ástæðu einni saman, sem útlán höfðu vaxið minna en innlán, og þess vegna hlógu allir, þegar sú ástæða var borin fram fyrir vaxtalækkuninni, að jafnvægi í peningamálum hefði aukizt. Það vissu sem sé allir, að ástæðan var ekki sú, heldur einfaldlega hin, að hæstv. ríkisstj. hafði rétt einu sinni rekið sig á vegginn og ekki var hægt að koma saman framleiðsludæminu, t.d. hjá sjávarútveginum, nema með því að lækka vextina, á sinn hátt eins og ekki var hægt að koma saman íbúðadæminu í júní nema lækka vextina. Þannig halda menn áfram að reka sig á staðreyndirnar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að menn skyldu engar áhyggjur hafa af því, — hann sagði það ekki orðrétt svona, en efnislega var það þetta, sem hann sagði, — þó að verklegar framkvæmdir væru skornar niður frá því, sem fyrirhugað var á fjárl., eða vera neitt að fjargviðrast út af því, því að þær mundu verða meiri raunverulega eftir niðurskurðinn en þær voru 1958. Var hann með nokkrar tölur í þessu sambandi. Þessar tölur hef ég enga aðstöðu til að meta, en ég vil ekki álíta, að efnahagsstofnun hæstv. ráðh. gefi út rangar tölur í þessu tilliti. Hitt er svo annað mál, að ég efast um, að slíkar tölur, með þeim vísitölum, sem notaðar eru til þess að finna þær út, gefi nokkra raunverulega hugmynd um magn verklegra framkvæmda 1958 annars vegar og hins vegar það, sem fyrirhugað er að gera í sumar eftir niðurskurðinn. En þetta læt ég alveg lönd og leið. Ég vil þess í stað benda á, að í raun og veru skiptir það engu höfuðmáli í þessu sambandi, hvernig samanburðurinn við 1958 kemur út. Allur búskapur Íslendinga verður að vera á fleygiferð fram á við. Mundi hæstv. forsrh. t.d. telja það viðunandi, að Íslendingar hefðu jafnstór fiskiskip og þeir höfðu 1958 og búin að tækjum eins og þau voru 1958, og þannig mætti endalaust telja? Miðar hann allt við, að þjóðin standi í stað og engar framfarir verði á neinu sviði og engin aukning í neinum efnum?

Eins og hv. 3. þm. Vesturl. (HS) benti hér á áðan, verður alltaf að miða við, að framfarir verða að vera í opinberum framkvæmdum eins og í tækninni, ef við eigum ekki að dragast aftur úr og verða ósambærilegir við alla aðra. Þess vegna er það ekki samanburðurinn við 1958, sem skiptir hér máli. Það er ekki heppilegt að snúa andlitinu aftur í þessu sambandi. Það er miklu heppilegra að snúa því fram og reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig hinar verklegu framkvæmdir, sem á að skera niður, eru samanborið við þörfina nú, miðað við þær kringumstæður, sem við nú búum við, miðað t.d. við þarfir framleiðslunnar fyrir framkvæmdir hins opinbera og þjónustuna henni til stuðnings, miðað við þær eðlilegu kröfur, sem nú í dag verður að gera til fræðslukerfisins t.d. o.s.frv. Svona samanburður við 1958 hefur ekki hina minnstu þýðingu og ekkert gildi. Hann er það, sem kallað er, algerlega út í hött, en á hinn bóginn ber hann vott um, að þeir, sem þannig tala, eru ekki líklegir til þess að geta fylgt þróuninni eftir, hvað þá náð sér fram úr, eins og vera þyrfti um forustumenn.

Hæstv. ráðh. kom hér víða við í dag og sumt voru algerlega óskyld efni, m.a. þegar hann var að útlista fjárl. og annað þess konar, skýra það, hvers vegna verklegar framkvæmdir hlytu að fá alltaf minna og minna af skatt og tolltekjunum. En það er raunar alveg furðuleg kenning, að það skuli þykja gott, að sífellt fari minna af álögunum í verklegar framkvæmdir. Slíkt er þó auðvitað fullkomið alvörumál, en það hefur verið rætt ýtarlega af öðrum, og fer ég ekki út í það.

Í þessu sambandi kom einu sinni enn kapítuli um alþýðutryggingarnar, og var hæstv. ráðh. að senda framsóknarmönnum smásendingar. Ein var í því fólgin að minnast löggjafarinnar frá 1946, og sagði hann, að Framsóknarflokksmenn hefðu streitzt þar á móti með því að sitja hjá. Það er undarleg aðferð við að streitast á móti að sitja hjá, það verð ég að segja. Framsfl. streittist ekki neitt á móti. Hann sat hjá vegna þess, að einn veigamesti kaflinn í frv. 1946 var um skipulagsbreytingu, sem flokkurinn var mótfallinn, en ýmis önnur atriði voru í frv., sem flokkurinn var meðmæltur svo að það ráð var tekið að sitja hjá og gerð grein fyrir því. En þessi kafli, sem flokkurinn var mótfallinn, var þannig vaxinn, að hann var aldrei framkvæmdur. Hann reyndist ekki betur en það í löggjöfinni. Síðan er þessi alveg eðlilega og málefnalega afstaða sífellt notuð til þess að kasta slettum í Framsfl. Og síðasta formúlan, sem hæstv. ráðh. hefur fundið upp varðandi þetta, er sú, að framsóknarmenn hafi streitzt á móti með því að sitja hjá. Ég vil í þessu sambandi minna hæstv. ráðh. á, að það hefur komið fyrir, að menn hafi streitzt á móti alþýðutryggingum, þó að það hafi ekki komið fyrir Framsfl. Það hefur komið fyrir Sjálfstfl., því að hér var háð hin harðasta barátta við Sjálfstfl., þegar tryggingarnar voru innleiddar fyrst að nokkru ráði á árunum 1934–37. Þá var það, sem Alþfl. og Framsfl. háðu harða baráttu við Sjálfstfl. til þess að koma alþýðutryggingunum á. Mér vitanlega hafa engir hér á landi streitzt á móti tryggingum nema flokkur hæstv. ráðh.

Fleira sérkennilegt sagði hæstv. ráðh., sem er kannske ekki ástæða til að vera að eltast við, en það tekur enga stund að minnast á það. Hann sagði, að það væri ljótt af framsóknarmönnum að deila á ríkisstj. fyrir að innleiða söluskattinn nú síðast, því að hann hefði verið innleiddur til þess að koma í veg fyrir, að bændur yrðu óvinsælir. Þetta var efnið í því, sem hæstv. forsrh. sagði um þennan þátt: Jæja! Það er þá trúlegt, að þeir hafi staðið í þessu til þess að koma í veg fyrir, að bændur yrðu óvinsælir í kaupstöðunum. Hefði ekki verið miklu hreinlegra fyrir hæstv. ráðh. að viðurkenna það, sem allir vita, að auðvitað voru þeir að þessu öllu saman til þess að reyna að halda niðri framleiðslukostnaðinum? Það er til þess, sem þetta er gert, ekki til þess að kaupa bændum vinsældir í kaupstöðum. Ég er alveg hissa, að hæstv. ráðh. skuli þykja svona málflutningur vænlegur, nema þetta eigi að skoðast sem spaug. Það getur vel verið, að þetta eigi að skoðast sem spaug og þá hefur þetta sitt gildi, en ekkert að öðru leyti. Þetta dettur engum í hug að taka alvarlega. En auðvitað hefur hæstv. forsrh. leyfi til að gera að gamni sínu eins og aðrir menn.

Nei, við skulum vera alveg hreinskilnir í þessu og horfast í augu við, að bændur voru neyddir til þess að hækka verðið á landbúnaðarvörunum vegna þess dýrtíðarflóðs, sem stjórnarstefnan hafði haft í för með sér. Þá kom að því, því að þetta er ein hringavitleysa allt saman, sem stjórnin hefur komið af stað, að framleiðslukostnaðurinn mundi verða allt of hár, því að kaupið þurfti að hækka mikið. Þá var reynt að draga úr því með því að innleiða söluskatt og halda niðri framleiðslukostnaðinum með því að láta ekki alla hækkunina koma inn í kaupgjaldið. Þetta á ekkert skylt við málefni bænda, en það er dálítið skemmtilegt, að hæstv. ráðh. skuli vera farinn að gera að gamni sínu á þennan hátt.

Hæstv. ráðh. sagði, að menn ættu ekki að tala svona út í hött eins og framsóknarmenn gera, heldur ættu menn að tala skynsamlega um verðbólguna og annað, sem stendur í sambandi við hana. Þetta var efnið í einum kaflanum í ræðu hæstv. ráðh. Við höfum nú verið að reyna að benda á ýmsa meginþætti í því, hvernig farið hefur. En út af þessu vil ég spyrja: Hvarflar það aldrei að hæstv. forsrh., að eitthvað sé bogið við aðgerðir þeirra í þessum efnum? Átti þetta að verða svona, eins og það er orðið? Ég held ekki. Ég held, að það hafi ekki verið ætlunin, að þetta yrði svona. En nú hefur allt .farið ferlega í hnút. Ég mundi því kalla, að það væru skynsamlegar umræður um verðbólguna, ef hæstv. forsrh. notaði tíma sinn til að ræða um, hvaða aðrar aðferðir væru hugsanlegar en þær, sem hann hefur viðhaft og hafa leitt út í þetta. Það mundi ég kalla skynsamlegar umræður um verðbólguna. En það er þetta, sem við framsóknarmenn erum sífellt að reyna að benda á. En forsrh. ber höfðinu við steininn og fer út í aðra sálma, þegar kemur að kjarna málanna, slær út í skens og gamanmál, sem út af fyrir sig getur átt rétt á sér, en hefur auðvitað ekkert gildi, þegar um þessi alvarlegu efni er að ræða og komast þarf að niðurstöðu um nauðsynlegar breytingar á stefnunni.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta, sem hér hefur komið fram. En ég vil að lokum vekja athygli á því, að það stendur allt óhaggað, sem hér var dregið fram í upphafi um meginefni málsins, þ.e.a.s. þá yfirlýsingu, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið um það, að hún ætli að skera niður verklegar framkvæmdir um 20%. Meginefni málsins er, að nú eiga opinberar framkvæmdir að víkja, það á að lækka þær um 20%, en engum öðrum framkvæmdum í landinu á að fresta. Eins og ég sagði og stendur óhrakið, eru opinberar framkvæmdir settar með þessu í úrkastsflokkinn. Það hefði verið miklu eðlilegra, að þessar umr. hefðu snúizt um þennan kjarna málsins en um ýmislegt af því, sem hæstv. forsrh. fjallaði um í dag og til þess eins var sagt að leiða athygli frá þessum aðalkjarna málsins.

Þessa stefnu, að setja opinberar framkvæmdir í úrkastsflokkinn, teljum við ranga og hættulega. Jafnvel þótt hæstv. forsrh. kynni að geta sýnt fram á, að þær yrðu eitthvað meiri nú í krónutölu en þær voru 1958, þá verða þær allt of litlar, miðað við brýnustu þarfir. Við sjáum þetta t.d. á hafnarmannvirkjunum, þar sem ekki verður veitt hærri fjárhæð en 560 þús. kr. í nokkra hafnargerð, hversu stórfelld sem hún er, og annað þar fram eftir götunum. Það verður hættulegur afturkippur miðað við verkefnin, sem þarf að leysa vegna þeirra hraðfara breytinga, sem verða að eiga sér stað í þjóðfélaginu. Ekkert vinnst með því að snúa andlitinu aftur. Menn verða að snúa því fram.