18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. minntist í lok ræðu sinnar á rekstur Skipaútgerðar ríkisins og lýsti sök á hendur forstjóra Skipaútgerðarinnar fyrir það, hve þetta fyrirtæki bæri sig illa, hann væri framsóknarmaður og það mundi vera orsökin. Ég vil bara minna á það, sem ég sagði hér í dag, að hæstv. fjmrh. var þeirrar skoðunar, þegar þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda, að það mundi vera hægt að breyta rekstri Skipaútgerðarinnar á þann hátt að fá erlenda sérfræðinga til þess að gera þar um tillögur. Þessir sérfræðingar, segir hæstv. félmrh., hafi komið hingað og farið ferð eða ferðir í kringum land. En mér skilst nú, að jafnvel þótt farin sé ferð af útlendingi í kringum land einu sinni eða tvisvar eða hvað oft sem er farið, þá séu engar líkur til, að slíkir menn, sem ekki þekkja betur hér til aðstæðna á öllum árstímum, geti gert till., sem séu raunhæfar um lausn þeirra mála. Hitt finnst mér æði hart, að hæstv. ráðh., sem er æðsti yfirmaður þessarar stofnunar, skuli ekki taka það á sig, hve rekstur þessarar stofnunar hefur gengið illa, heldur skjóta sér á bak við embættismann, sem auðvitað ber ekki að taka lokaákvörðun um rekstur þessa ríkisfyrirtækis né annarra. Og trúi því hver sem vill, að hæstv, félmrh., sem er æðsti yfirmaður þessarar stofnunar, — fái því ekki ráðið fyrir forstjóra stofnunarinnar, hvernig þetta fyrirtæki er rekið. Ég hélt, að hann væri miklu meiri valdamaður í þessu þjóðfélagi en svo.

Það kom glögglega fram í ræðu hæstv. forsrh. fyrr í dag, að honum hafði runnið í skap. Hæstv. forsrh. svaraði ræðu minni aðallega með útúrsnúningum, og fannst mér satt að segja vera fulllítið forsætisráðherralegt við ræðu hans. En eftir þessa ræðu veit maður, að það getur stundum verið erfitt fyrir jafnvel forsrh. að stilla skap sitt og ekkert við því að segja.

Ég saknaði þess, að hann skyldi ekki koma neitt að efninu, sem var verið að ræða. En þau svipuhögg, sem nefnd voru hér fyrir nokkrum dögum, virðast hafa haft þau áhrif á skapsmuni hans, að hann hafi ekki haft ástæðu til að koma að efninu. Þegar þessi mál voru rædd hér um daginn, fannst hæstv. ráðh. það óþarfi af hjúkrunarkonum , og læknum að senda áskoranir um byggingu hjúkrunarskóla og hann sagði, að svipuhöggin hefði ekki þurft að greiða og áhrifamátt þeirra mátt sjá af því, sagði hæstv. ráðh., að í 20. gr. fjárl. eru ætlaðar undir XIII. lið, 11. undirlið, 7 millj, kr. til byggingar hjúkrunarskóla, þannig að ríkisstj. og Alþingi voru þegar áður en þetta plagg var undirritað búin að gera ráðstafanir til þess að bæði afla fjár og gera annað, sem þurfti til þess, að í byggingu yrði ráðizt. Nú er, eins og hefur komið fram í grg, með því frv., sem hér er til umr., ákveðið af hæstv. ríkisstj. að skera niður um 20% verklegar framkvæmdir í landinu skv. fjárl Hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., hafa verið marg spurðir að því bæði fyrr og nú í þessum umr., hvort ætlunin væri að skera niður einnig þennan lið og við þessu hafa enn ekki fengizt svör. Mér hefði fundizt satt að segja eðlilegra, að hæstv. forsrh. hefði svarað þessu málefnalega, heldur en að vera hér með þá útúrsnúninga, sem hann var, heldur en að notfæra sér mismæli, sem áttu sér stað í ræðu minni hér í umr. um daginn, er ég sagði, að undirskrifuð hefði verið áskorun eftir áramótin, í stað þess að það hefði verið afhent áskorun. Í ræðu hæstv, forsrh. sjálfs kom það fram, að hann vissi sjálfur, að undirskriftirnar höfðu hafizt í ágústmánuði 1964. Honum fannst það, að mig minnir, ekki lýsa miklum áhuga hjá hjúkrunarkonum, að þessar undirskriftir hefðu ekkí verið afhentar ríkisstj, fyrr en eftir áramót. Þetta er ekkert undarlegt, þó að það taki nokkurn tíma að safna undirskriftum hundraða manna um allt land. Og ég gat ekki skilið ummæli hæstv. forsrh, á annan veg en þann; að honum fyndust það einkennileg vinnubrögð hjá hjúkrunarkonum að efna til þessara undirskrifta og ef það hefur verið óviðeigandi af mér, eins og forsrh. þó greinilega sagði, að nefna þessar áskoranir, þá get ég ekki skilið annað en að eitthvað hafi verið einkennilegt við áskoranirnar sjálfar, ef ekki mátti nefna þær.

Annars var það í þessum umræðum hér í dag til marks um málflutning hæstv. forsrh., að hann tók dæmi um setningu laga um almannatryggingar og hann tók dæmi af lagasetningu um almannatryggingar árið 1946 og sagði, að framsóknarmenn hefðu þá verið á móti þessari lagasetningu nema einn þm. Hæstv. forsrh. sá ekki ástæðu til þess að taka það fram, að upphaflega, þegar lög um almannatryggingar voru sett á árinu 1936, stóðu þeir að því að setja þessi lög, þessi gagnmerku lög, sem forsrh. undirstrikaði, að væru mjög merkileg lagasetning. Af einhverjum ástæðum gleymdist hjá hæstv. ráðh. að geta um það, að það var einmitt Framsfl., sem í félagi við Alþfl. kom þessum lögum upphaflega fram á Alþingi, og honum láðist einnig að geta þess, hverjir voru andvígir þessum lögum, almannatryggingalögunum, þegar þau voru upphaflega sett, en einmitt þá börðust flokksmenn hæstv. ráðh. harðri baráttu gegn setningu laganna um almannatryggingar og greiddu atkv. móti þeirri lagasetningu.

Ég vil þá fara hér nokkrum orðum um ræðu hæstv. menntmrh. Ég verð að segja það hreint eins og er, að það er nokkuð annað að eiga orða stað við jafn prúðan mann og hæstv. menntmrh., þó að hann sé ekki sammála þeim, sem hann ræðir við. Hæstv. menntmrh. furðaði sig á því, að Framsfl. sýndi nú mikinn áhuga á byggingu hjúkrunarkvennaskóla. Hæstv. ráðherra þarf ekkert að vera undrandi á þessum áhuga, því að ég get upplýst hann um það, að þegar fyrri áfangi hjúkrunarskólans var byggður, þegar bygging hans hófst árið 1952, átti Framsfl. sæti í ríkisstjórn og félmrh. þá og heilbrmrh. var Steingrímur Steinþórsson, sem fór með málefni hjúkrunarkvennaskólans. Framsfl, hefur því frá upphafi sýnt byggingarmálum hjúkrunarskólans fyllsta áhuga og það er ekki fyrst hér í þessum umr., sem sá áhugi vaknar.

Hæstv. menntmrh. las upp skýrslu landlæknis um fundargerðir skólanefndar hjúkrunarskólans og lét í ljós nokkra undrun yfir því, að ég hefði ekki getið þess, að ég hefði þessa skýrslu undir höndum. Ég gat þess að vísu ekki, að ég hefði þessa skýrslu undir höndum, en þau orð, sem ég sagði um hjúkrunarskólann, voru að verulegu leyti byggð á þessum fundargerðum. Og þessar fundargerðir sanna einmitt það, sem ég tók fram í minni ræðu, að allt fram til ársins 1963, síðast á því ári, stóð á undirbúningi þessa máls hjá embætti húsameistara ríkisins. En áhugi hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa verið meiri en svo á þessu máli, að þrátt fyrir þá töf, sem varð á teikningum og kostnaðaráætlunum hjá húsameistara ríkisins, sá ríkisstj. enga ástæðu til að grípa inn í um undirbúning málsins.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu um fund menntmrh. í hjúkrunarskólanum 6. maí, að skólastjóri hjúkrunarskólans kannast ekki við það, að samkomulag hafi þá orðið með öllum þeim aðilum, sem voru á þeim fundi, um, að fresta skyldi að hefja framkvæmdir við hjúkrunarskólann þangað til á yfirstandandi ári. Og all furðuleg finnst mér þau ummæli hæstv. menntmrh., að það hefði ekkert flýtt fyrir byggingu hjúkrunarskólans, þó að það hefði verið byrjað á byggingunni ári fyrr, en raun varð á. Það finnst mér all nýstárleg kenning, að það flýti ekki fyrir framkvæmdum á einu verki, að það sé byrjað á verkinu ári fyrr en nú er fyrirhugað.

Það var athyglisvert í ræðu hæstv. menntmrh., að nú kallaði hann ekki áskoranir lækna og hjúkrunarkvenna gamanþátt, eins og hann hafði gert í fyrri ræðu sinni. Skil ég það svo, að þar hafi nokkru valdið um, að nokkrar hjúkrunarkonur voru hér staddar á áheyrendapöllunum í dag, og hafi það ef til vill haft þessi áhrif.

Ég skal ekki fara lengra út í að ræða þetta mál. Þetta hjúkrunarskólamál hefur blandazt inn í þessar umr. og hefur verið tekið sem dæmi um, hvernig nauðsynjamál ganga í höndum stjórnarinnar, ef ekki er á eftir þeim rekið af þeim aðilum, sem hafa áhuga á málunum, meiri áhuga en hæstv. ríkisstjórn.

En ég vil að lokum, þar sem ekki hefur enn þá komið fram svar við þeirri fyrirspurn, sem ég og aðrir þm. hafa borið hér fram, frá hæstv. ríkisstj., endurtaka enn einu sinni þá fyrirspurn, hvort ætlunin sé að greiða að fullu þá 7 millj. kr. fjárveitingu til hjúkrunarskólans, sem er í fjárlögum yfirstandandi árs eða hvort skera eigi fjárveitinguna niður eins og aðrar fjárveitingar til verklegra framkvæmda.