18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú kannske ástæðulaust að vera að elta ólar við hæstv. forsrh. og útúrsnúninga þá, sem hann hefur haft í frammi. En það hefur farið svo fyrir hæstv. forsrh. að falla fyrir þeirri freistni, sem hann hefur verið að ásaka aðra um. Hæstv. forsrh, hélt því fram hér í dag, að framsóknarmenn héldu því fram, að það skipti engu máli, hvaða skoðun menn hefðu, menn gætu samt verið í Framsfl. Ég mótmælti þessum ummælum hans og hann hefur reynt að svara þessu á þann veg að lesa hér upp kafla úr grein eftir 1. þm. Austf., en það kemur hvergi fram í þeirri grein, sem hann las hér upp, að það skipti engu máli, hvaða skoðun menn hafi og geti þrátt fyrir það verið í Framsfl., alveg sama, hver skoðunin sé. Það eina, sem er sagt þar er, að menn eigi að geta verið saman í flokki, þó að þá greini á um margt og það er vitanlega sitthvað, að menn gæti greint á um margt, heldur en hitt, að það skipti engu máli, hvaða skoðun menn hafi. Ég hygg, að það sé þannig í öllum lýðræðisflokkum undantekningarlaust, nema vera kunni í Sjálfstfl., að þó að flokksmenn séu sammála um meginstefnu, sé ágreiningur meðal þeirra um fjölmörg mál, einstök framkvæmdamál og dægurmál, sem fyrir liggja á hverjum tíma. Og það má nefna fjöldamörg dæmi þess, eins og t.d. er gert í grein Eysteins Jónssonar í sambandi við brezka Verkamannaflokkinn. En það er hreinn útúrsnúningur hjá hæstv. forsrh. að reyna að túlka þessi ummæli á þá leið, að það sé sagt, að það skipti engu máli, hvaða skoðun menn hafi, til þess að geta verið í Framsfl., eins og nú sé komið stefnu hans.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða nánar um þennan útúrsnúning hæstv. forsrh. En ég sakna þess, að hæstv. forsrh. skuli ekki svara þeim spurningum, sem ég bar fram í framhaldi af þessum ummælum hans. Hann var að reyna að sanna skoðanaleysi eða stefnuleysi á Framsfl. Ég spurði hæstv. forsrh. í framhaldi af þessu, hver væri stefna ríkisstj. í efnahagsmálum og nefndi nokkur atriði í því sambandi, sem ég óskaði eftir skýringu á. Ég spurði hæstv. forsrh. einnig eftir því, hver væri stefna Sjálfstfl. í þjóðmálum og hver væri t.d. afstaða hans til kommúnisma. Hæstv. forsrh. hefur alveg vikizt undan að svara þessum spurningum. Og ég get vel skilið það, vegna hvers forsrh. hefur vikizt undan að svara þessum spurningum. Það er vegna þess, að ef hann ætlaði að svara þeim rétt, getur hann ekki svarað þeim öðruvísi en á þann einn veg, að þannig sé nú raunverulega komið málum ríkisstj., að hún hefur enga fastmótaða stefnu í efnahagsmálum, heldur hrekst sitt á hvað og það er eitt í dag og annað á morgun hjá henni. Og það hefur verið hið nákvæmlega sama um Sjálfstfl. frá fyrstu tíð, hann hefur ekki fylgt fram, þótt hann hafi þótzt hafa ákveðna stefnu, neinni ákveðinni stefnu, heldur hrakizt sitt á hvað og unnið sitt á hvað, eftir því sem hann hefur talið sér bezt henta hverju sinni. Hann hefur verið tilbúinn til þess að vinna með hverjum sem var og eiginlega upp á hvað sem var, ef hann aðeins gæti komið því þannig fyrir, að hann gæti hlynnt að þeim gróðaöflum, sem hann er sérstaklega myndaður til þess að vinna fyrir. Sjálfstfl. hefur frá fyrstu tíð verið hinn mesti og raunverulega eini sannkallaði hentistefnuflokkur hér á landi. Hann hefur verið að reyna að klæða sig í það gervi, að hann væri frjálslyndur íhaldsflokkur, sem fyrst og fremst vildi vinna að því að efla og styrkja einkaframtakið, en hann hefur unnið fullkomlega gagnstætt þeirri stefnu hvað eftir annað, ef honum hefur boðið svo við að horfa, og hann hefur álítið, að það væri til hags fyrir þá fáu gæðinga, sem hann er sérstaklega myndaður til þess að vinna fyrir.

Ég skal svo ekki hafa mörg orð um það málefni, sem hér liggur fyrir, en er raunverulega um það, að það eigi að skera niður verklegar framkvæmdir um 20%.

Hæstv. sjútvmrh. var að reyna að stilla þessu dæmi þannig upp, að það þyrfti að borga þessar fiskuppbætur á fiskverðið og það, sem rætt er um í þessu frv. og það þyrfti að borga opinberum starfsmönnum hærra kaup og hvar ætti að taka peningana til þess að gera þetta. Því er fljótsvarað og hæstv. sjútvmrh. veit það vel. Fjárl. fyrir þetta ár eru raunverulega afgreidd með það miklum greiðsluafgangi, eins og sýnt var fram á í umr. um fjárl. fyrir jólin og það skattafrv., sem þá var flutt, að þau eru afgreidd með það ríflegum greiðsluafgangi, að ríkissjóður getur vel tekið á sig þau gjöld, sem felast í þessu frv. og eins kauphækkanir til opinberra starfsmanna, án þess að þurfi að leggja á nýja skatta eða skera niður verklegar framkvæmdir. Þess vegna eru þessar smávægilegu hækkanir, sem hér er að ræða um, hækkanirnar á fiskverðinu og bæturnar til opinberra starfsmanna, aðeins notaðar sem skálkaskjól til þess að skera niður verklegar framkvæmdir, en ekki vegna þess, að það sé nauðsynlegt. Og hvers vegna eru verklegar framkvæmdir ríkisins skornar niður? Jú, það kom fram síðar í ræðu hæstv. sjútvmrh., hver ástæðan var, þegar hann var að tala um, að það væri skortur hér á vinnuafli og þess vegna þyrfti að draga úr einhverjum framkvæmdum og þá er það, sem stefna ríkisstj. hvað þetta snertir a.m.k. kemur skýrt í ljós og það er það, að ef nauðsynlegt er talið að láta einhverjar framkvæmdir víkja, þá eru það hinar opinberu framkvæmdir, sem skulu víkja. Þær skulu mæta afgangi, allt annað skal hafa forgangsrétt. Ég fullyrði það, sem ég sagði áðan í fyrri ræðu minni, að þetta er gagnstætt þeirri stefnu, sem fylgt er í nágrannalöndum okkar og ég held yfirleitt í allri VesturEvrópu. Þar eru það hinar opinberu framkvæmdir, sem eru látnar hafa forgangsrétt, og í öllum þessum löndum hefur verið lögð megináherzla á það að auka opinberar framkvæmdir ár frá ári, auka samgöngubætur, auka skólabyggingar, auka spítalabyggingar o.s.frv. og byggingar í sambandi við rannsóknarstarfsemi og annað þess háttar, vegna þess að með þessum framkvæmdum er raunverulega lögð undirstaðan að öllum framkvæmdum öðrum. Þetta eru grundvallarframkvæmdirnar. Til þess að atvinnuvegirnir geti starfað sæmilega, þurfa þeir að búa við góðar og síbatnandi samgöngur og til þess að atvinnuvegirnir geti elfzt og aukizt, þurfa þeir að búa við sem bezta og batnandi menntun fólksins í viðkomandi landi og til þess að ná því marki er nauðsynlegt að auka skólastarfsemina og byggja skóla.

Það er fullkomlega rétt, sem hæstv. menntmrh. hefur stundum verið að hafa hér eftir erlendum mönnum, að það er engin fjárfesting í dag mikilvægari, en sú að auka menntun fólksins og það verður ekki gert með öðru móti, en að auka skólana og byggja fleiri skóla og koma upp fleiri skólum en nú á sér stað. Þess vegna er það, sem hér er að gerast, öfugt við það, sem á sér stað í öllum löndum öðrum, að það er verið að ráðast á þær framkvæmdirnar, sem eru undirstaðan undir öllum framkvæmdum og framförum öðrum, eins og líka glöggt kom fram í þeirri áætlun Dana, sem ég vitnaði til, um opinberar framkvæmdir þar á 3 næstu árum, sem sýnir, að á 3 næstu árum ætla Danir að auka um 50% framlög til vegamála þar í landi og þar að auki ætla þeir að veita mikla fjárveitingu til járnbrauta og sporvagna og það er vegna þess, að Danir telja það svo mikilvægt fyrir sina atvinnuvegi, þó að þeir búi við góðar samgöngur og góða vegi í dag, að gera þetta enn þá betra, að þessar framkvæmdir verða að sitja í fyrirrúmi fyrir öllum öðrum. Á sama hátt ætlar danska ríkið að auka stórlega framlög til skólabygginga á þessu þriggja ára tímabili framlög til spítala, framlög til bygginga í þágu rannsóknarstarfsemi og þar fram eftir götunum eða m.ö.o.: það er gert ráð fyrir því, að árið 1967–1968 verji ríkið 50% meira fé til opinberrar fjárfestingar heldur en það gerir á þessu ári. Framlög bæjarfélaganna aukast hins vegar heldur minna. Þetta sýnir það, að á þessu sviði eins og mörgum öðrum, er framfylgt allt annarri stefnu hjá núv. ríkisstj. heldur en sú stefna er, sem fylgt er í nágrannalöndum okkar. Þar er stefnt að því að auka hina opinberu fjárfestingu. Í Danmörku á að auka hana um 50% hvað ríkið snertir á næstu 3 árum. Hér er hún skorin niður um 20%. Og það er engin þörf að gera þetta vegna þess, að það þurfi að leggja á neina nýja skatta, vegna þess að fjárl. voru afgreidd með það ríflegum tekjuafgangi að ríkið þolir vel þau útgjöld, sem felast í þessu frv., án þess að skattar séu hækkaðir eða framkvæmdir séu skornar niður.

Hæstv, forsrh. var að minnast á það og vildi telja það, að því er mér skildist, nokkurn fjandskap við Reykjavík, að það hefði verið minna byggt þar af skrifstofuhúsnæði í tíð vinstri stjórnarinnar heldur en á síðustu árum. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að það hefur verið byggt meira af skrifstofuhúsnæði í Reykjavík nú, en gert var í tíð vinstri stjórnarinnar. En það var annað húsnæði, sem var byggt í miklu stærri stíl í tíð vinstri stjórnarinnar í Reykjavík heldur en þetta, sem hæstv. forsrh. minntist á. Það var byggt miklu meira af íbúðum í Reykjavík á þeim tíma heldur en á sér stað nú á síðustu árum. Það hefur dregið svo stórkostlega úr íbúðabyggingum hér í Reykjavík seinustu árin, að það hefur skapazt stóraukinn vandi í húsnæðismálunum. Og það er alveg víst mál, að ef menn vilja raunverulega gera eitthvað til þess að ráða við þá miklu verðbólgu, sem hefur verið að vaxa í landinu á undanförnum árum og halda henni í einhverjum skefjum, er ekkert mikilvægara og ekkert nauðsynlegra heldur en að koma sæmilegu lagi á húsnæðismálin. Og það er eitt af þeim mörgu sviðum, sem ríkisstj. hefur starfað rangt, það er í byggingarmálunum með því að auka byggingar á hvers konar skrifstofuhúsnæði og verzlunarhúsnæði alveg stórkostlega, en draga úr byggingu íbúðarhúsnæðis í staðinn og láta þetta koma fram á þann hátt.

Ég get sagt það hiklaust og er óhræddur við að segja það, að ég mundi hafa alveg hiklaust greitt atkv., ef ég hefði þurft að greiða atkv., með því, að ýmsar og mjög margar og jafnvel allar þær skrifstofubyggingar, sem hafa verið reistar í Reykjavík á undanförnum árum, hefðu frekar verið látnar biða heldur en það íbúðarhúsnæði, sem þörf er á nú og fólkið vantar nú til þess að vera í og okkur er nauðsynlegt til þess að leysa húsnæðisvandamál bæjarbúa og sum raunveruleg vandamál landsins alls, því að húsnæðiskostnaður í Reykjavík hefur áhrif á allt efnahagskerfið í landinu.

Ég ætla svo að lokum að minnast á eitt atriði, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., og það var sá samanburður, sem hann var að gera á framlögum til verklegra framkvæmda í ár og 1958. Það virðist koma fram hjá hæstv. forsrh. sá misskilningur, að við framsóknarmenn teljum, að allt eigi að vera í sömu skorðum og var 1958. Þetta er mikill misskilningur. Við teljum einmitt, að ástandið á öllum sviðum, ef rétt hefði verið stjórnað ætti að vera stórum betra nú, en 1958 vegna þess mikla góðæris, sem hefur verið í landinu á þessu tímabili. Það væri ekki nema eðlilegt, að t.d. kaupmáttur tímakaupsins væri nú 20–30% meiri, en hann var 1958, ef rétt hefði verið stjórnað og ekki nema í samræmi við það, sem annars hefði átt sér stað. En þetta hefur því miður ekki orðið. Og það er ekki heldur nema í samræmi við það, sem hefur átt sér stað annars staðar, að opinber fjárfesting hafi stóraukizt á þessum tíma, vegna þess að þarfirnar fyrir hina opinberu fjárfestingu hafa farið stórvaxandi hér á landi á þessum tíma alveg eins og í öðrum löndum. En nýi tíminn og hin nýja tækni krefst þess, að samgöngurnar séu stöðugt bættar og það miklu meira bættar, en áður átti sér stað. Hinn nýi tími og tækni krefst þess einnig, að það eigi sér stað stórfelld framsókn í skólamálunum og miklu meiri, en átti sér stað á undanförnum árum, vegna þess að breytingin er að verða svo ör, sem er að gerast þar og þarf að gerast þar. Þess vegna er sennilega ekkert hættulegra, sem hægt er að gera nú gagnvart framtíðinni eða sem bitnar á framtíðinni, heldur en að draga úr þessum framkvæmdum, skólabyggingunum, samgöngubótunum, spítalabyggingunum og byggingu rannsóknarstofnana, því að það eru einmitt þessar framkvæmdir, sem eru grundvöllur þess, að við getum haldið til jafns við aðra í þeirri framfarasókn, sem er nú hvarvetna í heiminum.