08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þetta frv. er samkv. því, sem fram gengur af aths. við það, flutt til fullnægingar á loforðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið í sambandi við fiskverðsákvörðunina um áramótin í vetur. Það er eftirtektarvert, að helztu mál, sem þessi hv. d. og hv. Alþ. hefur fjallað um að undanförnu, öll stærri mál, sem hæstv. ríkisstj. flytur, eru flutt til staðfestingar slíku samkomulagi við ýmsar stéttir í landinu. Við höfum hér haft til meðferðar frv. um launaskatt, frv. um verðlagsuppbætur á laun, frv. um húsnæðismálastjórn, allt til staðfestingar á hinu svonefnda júní-samkomulagi. Við höfum haft til meðferðar hér nýlega jarðræktarlög til staðfestingar á því, sem kalla mætti september-samkomulagið við Stéttarsamband bænda. Og nú fáum við frv. til staðfestingar á janúar-samkomulaginu við útgerðarmenn. Um þessar mundir er tjáð, að til meðferðar séu í viðræðum á milli ríkisstj. og launþegasamtakanna frv. að nýjum skattal. og fréttir herma, að í dag muni ný frv. um tekjustofna sveitarfélaga hafa verið tekin til meðferðar á fundi Sambands sveitarfélaganna, svo að það má gera ráð fyrir, að hv. Alþ. fái um ýmislegt að fjalla á næstunni. En því rifja ég þetta upp, að mér virðist þetta vera táknrænt fyrir þau vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur tamið sér í seinni tíð og ég skal ekki eyða meiri tíma í að ræða um að þessu sinni.

Þetta frv. felur í sér þrennt, eins og gerð hefur verið grein fyrir. Í fyrsta lagi felur það í sér ákvæði um séruppbætur á línu- og handfærafisk. Og hæstv. ráðh. sagði frá því hér áðan í framsöguræðu sinni, að í rauninni væru þetta ekki aðeins séruppbætur á fisk, sem veiddur væri með ákveðnum veiðarfærum, heldur einnig eins konar staðaruppbætur, vegna þess að á erfiðari stöðum landsins væru þessi veiðarfæri meira notuð en annars staðar, og því væri hér líka um að ræða eins konar styrki til þeirra, sem erfiðar aðstæður ættu úti um landið. Þetta er auðvitað allt saman gott og blessað. En það fer ekki hjá því, að í sambandi við svona till. og svona málflutning, eins og fram kom hjá hæstv. sjútvmrh., rifjist upp fyrir manni þær orðræður, sem hæstv. ríkisstj. og hennar talsmenn höfðu um þessa hluti á árinu 1960 og jafnvel siðar. Þá var bótakerfið ekki aðeins ómögulegt, heldur var það beinlínis hneykslanlegt og þá var það algerlega fordæmt að mismuna milli fisktegunda eða veiðiaðferða eða verkunaraðferða og þá var sagt, að allt slíkt yrði til þess að ýta undir það óhagkvæma og draga úr því hagkvæma.

Í fyrra voru samt teknar upp bætur á nýjan leik, sérbætur til frystihúsanna, sem voru studd sérstaklega. Þá var ekki fé látið renna til annarra verkunaraðferða, en frystihúsa og það er ekki heldur lagt til núna. En nú er bætt við séruppbótum á línu- og handfærafisk. Ég hlýt að láta í ljós ánægju mína yfir því, að ríkisstj. skuli hafa látið af einstrengingslegum hugsunarhætti í þessum efnum, sem hún hélt mjög fram fyrir nokkrum árum, þó að ég geri mér að sjálfsögðu ljóst, að það komi ekki til af góðu. En ég vildi þó í sambandi við það, sem hæstv. sjútvmrh. sagði um ákvæði 1. gr., að þau gætu skoðazt sem stuðningur við þá, sem erfiðari aðstöðu hafa, láta í ljós þá skoðun mína, að sá stuðningur, sem í þessu er fólginn, sé ekki nægjanlegur. Ég vil minna á brtt., sem lögð var fram í hv. Nd. á þskj. 395, þar sem gert er ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram til viðbótar 10 millj. kr., sem verja skal til þess að greiða vinnslustöðvum, sem hafa erfiða rekstraraðstöðu, vinnsluuppbætur á smáfisk, á tilteknar fisktegundir og fisk veiddan á vissum tímum árs eftir reglum, sem rn. setur að fengnum till. Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna. Okkur ber til þess skylda, Íslendingum, að nýta vel öll okkar mið, og það er nauðsynlegt að uppörva þá, sem erfiðasta aðstöðu eiga í þessum efnum, eins og mér virtist raunar, að hæstv. ráðh. væri nú orðið ekki með öllu fráhverfur, eftir því sem fram kom í ræðu hans hér áðan.

Í öðru lagi gerir þetta frv. ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram 33 millj. kr. á árinu 1965, sem verja skal til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða. Frv. gerir ráð fyrir því, að Stofnlánadeild sjávarútvegsins úthluti þessu fé til tiltekinna framkvæmda í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands eftir reglum, sem sjútvmrh. setur. Í þessu sambandi virðist mér æskilegt, að það kæmi hér skýrt fram, hvernig þær reglur hafa verið, sem þessu fé hefur verið úthlutað eftir, því að lagaákvæði um þetta voru með sama hætti í fyrra og nú er gert ráð fyrir í þessu frv. Það er fullyrt, að þessi úthlutun muni hafa farið fram í beinu hlutfalli við framleiðslumagn og ef það er rétt, væri æskilegt, að hæstv. ráðh. vildi staðfesta það, því að þá eru þessar bætur með nokkuð öðrum hætti en orðalag frv. og l. frá í fyrra gæfu tilefni til að ætla. Ef þetta fé er veitt án tillits til þess, hvort sérstakar ráðstafanir eru gerðar til þess að auka framleiðni og bæta rekstrarskilyrði, er hér um að ræða hreinan framleiðslustyrk, hreinar uppbætur, sem eru þá bein afleiðing af þeirri dýrtíð og þeim aukna tilkostnaði, sem orðinn er við framleiðsluna og þá er rétt og æskilegt, að menn geri sér grein fyrir því, því að þá þarf auðvitað annað fé til þess að auka framleiðni og gera sérstakar ráðstafanir til bættrar framleiðslu, því að sama féð getur ekki bæði verið uppbót vegna aukins rekstrarkostnaðar og líka styrkur til ákveðinnar framleiðslu.

Enn fremur er þess að geta í sambandi við þetta, að ákvæði þessarar gr. ná aðeins til frystihúsanna og frystiiðnaðarins. Mér er ekki grunlaust um, að það væri hreint ekki síður ástæða til þess að veita saltfiskverkendum og sérstaklega skreiðarverkendum stuðning af þessu tagi, eins og málum er nú háttað. Að vísu hefur orðið talsverð verðhækkun á saltfiski, eins og hæstv. ráðh. gerði hér að umræðuefni áðan, en það hefur líka orðið á freðfiskinum, sem þó er talinn — og sjálfsagt með réttu — þurfa þá aðstoð, sem hér er gert ráð fyrir. En í þessu sambandi væri mér forvitni á að heyra frá hæstv. ráðh. hérna á eftir, hvernig reglur um úthlutun þessa fjár hafa verið.

Ég skal ekki ræða mikið um ákvæði 3. gr., sem fjallar um bætur vegna aflabrests til togaranna. Þetta miðast við úthaldstíma. Þetta eru sams konar ákvæði og voru í fyrra, ef ég man rétt og vissulega hef ég ekkert við það að athuga. Að sjálfsögðu minnir það mann á, að það er orðið fyllilega tímabært að taka vandamál togaranna til alvarlegrar meðferðar. Ég vil þó, fyrst ég nefni þetta, vara við því að hugsa sér, að veiðar í landhelgi gætu verið einhver lausn á vandamálum togaranna. Við höfum atvinnutækin til þess að nota þau við þau skilyrði, sem þau henta til og bátarnir eru einfærir um að nýta þau mið, sem þar er um að ræða og til þess þurfum við ekki togarana. Þeir eru ekki gerðir til þess að fiska upp í landsteinum. Þeir eru úthafsskip, sem eru fyrir fjarlæg mið og væri auðvitað mikil þörf á því og mjög æskilegt, að gerðar yrðu meiri ráðstafanir til þess að finna hentug mið fyrir togarana.

Þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., kosta 55 millj, kr., eftir því sem segir í aths. 22 millj, er gert ráð fyrir, að ráðstafanir samkv. 1. gr. kosti, og 33 millj. samkv. 2. gr., og þegar til þessara peninga á að taka heyrist ekkert nema tómahljóð í kassa hæstv. fjmrh. Þetta er mun einkennilegra, þegar þess er gætt, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan, að þær ráðstafanir af þessu tagi, sem í fyrra voru gerðar, kostuðu 95–100 millj. og sá tekjustofn, sem til þeirra var ætlaður, 21/2 % hækkun á söluskatti, er enn í gildi, eins og raunar segir í aths. við frv., að „nú fellur niður greiðsla ríkissjóðs á þeirri 6% hækkun fiskverðs, sem var í ársbyrjun 1964, og það 43 millj. kr. framlag til framleiðniaukningar og annarra endurbóta, sem greitt var á árinu 1964.“ — En í millitíðinni hefur þá þeim tekjustofni verið ráðstafað í aðra farvegi og raunar ekki aðeins þeim, í millitíðinni minnumst við skattheimtunnar frá því í sumar og við minnumst 2% hækkunar á söluskattinum enn á ný, nú fyrir skemmstu, í desembermánuði. En ekkert dugir. Allt er sagt vera galtómt. Og þá stóð hæstv. ríkisstj. frammi fyrir því, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að velja á milli þess að skera niður útgjöld eða leggja á nýja skatta.

Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi ekki fundizt það árennilegt að ætla að fara að leggja enn á nýja skatta og hækka þá, og get vel skilið það. Tímarit Seðlabankans, Fjármálatíðindi, hafði í vetur birt ritstjórnargrein um skattheimtuna og var ekki annað sjáanlegt, en höfundi þeirrar ritstjórnargreinar fyndist nóg um þá skattheimtu, sem orðin var í landinu. Þá var hitt, að minnka útgjöldin. Og þá er hnífnum brugðið einu bragði á allar opinberar framkvæmdir og þær minnkaðar um fimmtung, 20%. Það er allt lagt að líku, allt skorið niður og ekkert val af neinu tagi fer fram milli þess, sem er bráðnauðsynlegt og hins, sem kannske frekar gæti beðið. Slik ráðstöfun er að mínum dómi algerlega fráleit. Það getur vel vérið, að ástæða sé til að minnka framkvæmdir á einhverjum tíma og jafnvel að minnka opinberar framkvæmdir. En það er alveg víst, að ef það á að gerast með einhverjum skynsamlegum hætti þjóðinni að skaðlausu, verður að fara fram val milli þess, sem nauðsynlegra er og hins, sem frekar mætti biða, heldur en bregða hnífnum jafnt á það allt í einu.

En þar að auki get ég ekki fallizt á, að niðurskurður opinberra framkvæmda sé eðlilegur, fyrr en eyðslan hefur verið athuguð. Fjárl. hafa á undanförnum árum hækkað meira en allt annað, og er þá mikið sagt, því að allt verð og peningatölur hafa verið á fleygiferð upp á við. Fólki ofbýður algerlega peningaausturinn, ekki í framkvæmdirnar fyrst og fremst, heldur í eyðsluna. Trúin á ráðdeild í opinberum fjármálum er að fara eða jafnvel þegar farin forgörðum og slíkt hefur sínar afleiðingar fyrir efnahags- og atvinnulífið og þjóðlífið allt. Það, sem höfðingjarnir hafast að, það ætla hinir, að sér leyfist einnig, eins og kunnugt er. Ég geri ráð fyrir því, að við séum öll sammála um það, að stórfelld verkefni bíða fram undan í opinberum framkvæmdum. Við höfum orðið alvarlega vör við þau verkefni, sem fram undan eru í vegamálum og samgöngumálum, nú á undanförnum vikum, þegar vegáætlunin hefur verið til meðferðar og við höfum komizt að raun um, hversu skammt það fé hrekkur, sem þar er til ráðstöfunar. Við gerum okkur sjálfsagt öll ljóst, að skólamálin gera til okkar meiri kröfur, en jafnvel nokkru sinni fyrr, vegna örrar fjölgunar ungu kynslóðarinnar og breyttra aðstæðna á ýmsan hátt. Verkefni okkar í hafnarmálum eru alkunn og að undanförnu hafa sjúkrahúsmálin og þau verkefni, sem á þeim vettvangi eru fram undan, verið mjög til umr. og ég minnist þess fyrir skömmu, að hæstv. heilbrmrh. flutti skýrslur um þau mál, sem sýndu í glöggum tölum þau verkefni, sem þar bíða fram undan.

Það er skoðun mín, að þjóðin vilji ekki, að þessar framkvæmdir séu skornar niður við trog, til þess að hægt sé að halda eyðslunni áfram. Þjóðin vill raunverulega leggja mikið á sig, ef hún trúir því, að það, sem hún leggur af mörkum, sé notað af ráðdeild til þeirra verkefna, sem nauðsynleg eru, eins og þeirra, sem ég var aðeins að nefna. En þjóðin verður að hafa trú á því, að peningunum sé ráðstafað af ráðdeild, og þá trú hefur hæstv. núv. ríkisstj. ekki tekizt að skapa og hún verður ekki sköpuð með því að bregða hnífnum, eins og hér á að gera, á allar opinberar framkvæmdir í landinu í efnu lagi. Þeim aðförum vil ég harðlega mótmæla.