08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Þegar það frv. er athugað, sem hér er til umr., þá vekur það strax athygli, að grg., sem frv. fylgir, hefur að geyma í raun og veru sýnu mikilvægari boðskap en sjálf efnisatriði frv., þ.e.a.s. þann, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að skera niður um 120 millj. kr. fjárveitingu til verklegra framkvæmda, sem hafi verið lögbundnar með samþykkt fjárl. og notfæra sér þannig þá einstæðu neyðarheimild, sem hún lét stuðningslið sitt veita sér, til þess að hafa að engu mikilvægar ákvarðanir Alþingis og í raun og veru svipta það fjárveitingavaldinu að verulegu leyti. Hér er því í rauninni um að ræða tvö málefni, þ.e.a.s. annars vegar efnisatriði þessa frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins og hins vegar tilkynningu hæstv. ríkisstj. um niðurskurð verklegra framkvæmda, sem stendur ekki nema að takmörkuðu leyti í sambandi við fyrra málefnið. En bæði þessi málefni eiga þó eitt algerlega sameiginlegt, þ.e.a.s. að þau staðfesta hvort á sínu sviði uppgjöf hæstv. ríkisstj. og ráðþrot á því að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar á þann veg, sem hún hafði með mörgum og hátíðlegum svardögum lýst yfir að hún mundi gera, þegar hún tók við völdum í landinu. Afnám allra uppbóta og styrkja, hverju nafni sem nefnist, var kjörorðið í þá daga. Atvinnuvegunum skyldi skapaður traustur og heilbrigður grundvöllur, slíkur að þeir yrðu reknir án nokkurs styrkjakerfis, sem talið var að væri ein höfuðmeinsemd þjóðfélagsins. Öll mismunun milli einstakra greina atvinnurekstrar í formi styrkja var sérstaklega fordæmd sem óalandi og óferjandi, og frelsið skyldi eitt ríkja, þ.e.a.s. frelsi til að lifa og deyja, eftir því sem lífsmáttur hverrar atvinnugreinar reyndist duga til í þessu nýja, frjálsa efnahagskerfi, sem átti að skapa.

Það þarf ekki mörg orð um það að hafa, hvernig farið hefur um framkvæmdir þessara svardaga, þessarar grundvallarstefnuyfirlýsingar ríkisstj. Nauðug eða viljug hefur hún í stöðugt ríkara mæli viðurkennt, að stefna hennar var óframkvæmanleg og á valdatíma þessarar ríkisstj. hafa síðan uppbætur og styrkir í ýmsu formi verið teknir upp svo að segja í hverri einustu grein útflutningsatvinnuveganna, sjávarútvegs og landbúnaðar og nú í dag hefur gamla uppbóta– og styrkjafarganið, sem svo var oft nefnt, náð slíku umfangi, að það hefur sjaldan eða aldrei verið stærra í sniðum. Og þetta hefur gerzt á því tímabili, sem hefur árlega fært útflutningsatvinnuvegunum í flestum greinum stórhækkandi markaðsverð og aflabrögð hafa farið stórbatnandi ár frá ári, a.m.k. þegar á heildina er litið. En það er hvort tveggja, að aflabrögð í einstökum greinum sjávarútvegsins og eins frá ári til árs í heild láta ekki stjórnast af hagfræðiformúlum og þó ekki síður hitt, að verðbólgustefna viðreisnarstjórnarinnar hefur verið drjúg við það að hrifsa jafnharðan ávinninginn, sem sjávarútvegurinn hefur haft af síbatnandi markaðsverði afurðanna. Því er það, að því verður ekki á móti mælt, að þrátt fyrir undangengin góðæri er þörf á ríkisafskiptum í formi styrkveitinga og uppbóta í einstökum greinum útvegsins til viðbótar þeim hundruðum milljóna, sem varið er nú til niðurgreiðslu á vöruverði og þá raunverulega um leið eru styrkir til útflutningsatvinnuveganna, þar sem niðurgreiðslurnar lækka það kaupgjald, sem ella þyrfti að greiða. Hitt er svo annað mál, hvort þær uppbætur, sem ákveðnar eru með þessu frv., svara þeim tilgangi að tryggja rekstur og örva framleiðslu þeirra greina útflutningsatvinnuveganna, sem hér ræðir um, eða hvort þær eru nauðsynlegar í öllum tilfellum.

Með þessu frv. er lagt til, að teknar verði upp sérstakar bætur, 25 aurar á kg, á línu- og handfærafisk á yfirstandandi ári. Slíkar uppbætur verður að mínu viti að skoða sem eðlilegar og nauðsynlegar ráðstafanir til þess að halda uppi atvinnu og nýta framleiðslutækin. Það má segja, að síðari hluta árs og nokkuð fram yfir áramót árlega séu veiðar með línu nálega eina veiðiaðferðin, sem fært getur verulegan afla að landi, þegar síldveiðum og veiðum togara sleppir. Hitt er lika reynslan, að veiðar með línu eru tiltölulega kostnaðarsamar og skila tæpast þeim arði og erfiðislaunum til útgerðarmanna og sjómanna sem aðrar veiðiaðferðir. Þegar á þetta er litið, verða þær uppbætur á fiskverðið, sem hér eru áformaðar, síður en svo taldar til ofrausnar. Miklu fremur mætti telja, að uppbæturnar á þessu sviði hefðu þurft að vera hærri, til þess að það næði því markmiði að tryggja vinnslustöðvunum aukið hráefni og nýta vinnuafl á þeim árstíma, þegar þörfin er einna brýnust. Sérstaklega á þetta þó við þá landshluta, sem nú um skeið hafa fyrst og fremst farið varhluta af undanförnum góðærum til sjávarins vegna breytinga á fiskgengd, þ.e.a.s. Norðurland og Vestfirði að verulegu leyti. Aðstoð í einhverju formi til þess útvegs og þá ekki siður til fiskvinnslustöðvanna á þessum slóðum er orðin vafalaus nauðsyn, ef ekki á verr að fara en orðið er og atvinna og nýting framleiðslutækja á ekki að dragast saman og sjávarþorpin eyðast af fólki í verulegum mæli. Uppbæturnar á línu- og færafiskinn koma þess vegna í fullar þarfir gagnvart þessum útgerðarsvæðum, en eru hins vegar svo smávaxnar, að það verður að teljast harla vafasamt, að þær hafi afgerandi áhrif til örvunar atvinnulífsins.

Þá er í frv. gert ráð fyrir 33 millj. kr. styrk til frystihúsanna og er kallað, að sá styrkur sé til framleiðniaukningar. Þetta mun þó engan veginn vera svo, því að þessum styrk hefur verið úthlutað til frystihúsanna algerlega án tillits til þess, hvort um nokkrar framleiðnibreytingar hefur verið að ræða á rekstri frystihúsanna, og að engu leyti verið eftir því gengið, að þessu fé væri varið til þess að bæta framleiðsluna eða reksturinn að nokkru leyti. En hér er farið að eins og var gert á s.1. ári, en þá nutu einnig fiskvinnslustöðvar, sem vinna skreið og saltfisk, þessa styrks, en eru nú sviptar honum. Þetta verður að teljast næsta einkennilegt, sérstaklega hvað skreiðinni viðvikur eins og kom reyndar fram hér hjá hæstv. sjútvmrh., þar sem verðlag á skreið hefur ekki hækkað, svo að neinu nemi, a.m.k. á árabilinu frá 1963–1964 eða á því tímabili, sem hér er raunverulega um að ræða, þ.e.a.s. að markaðsverðshækkunin á skreið hefur á þessu tímabili verið innan við 1%, en á sama tíma um 9% á afurðum frystihúsanna og verður það því að teljast furðulegt, að á sama tíma og haldið er áfram greiðslunum til frystihúsanna, skuli styrkurinn til þessarar greinar fiskvinnslunnar, sem ekki hefur fengið neinar hækkanir á markaðsverði, tekinn af, á sama tíma og honum er haldið áfram fyrir frystihúsin. En það er líka alveg rétt, sem kom hér fram hjá hæstv. ráðh., að verðlag aftur á saltfiski hefur hækkað einna mest af þeim framleiðslugreinum, sem hér er um að ræða, eða sennilega um 11—12% frá árinu 1963–1964. En varðandi þetta frumvarpsákvæði um frystihúsin er það að segja, að það hafa ekki verið lagðar fram neinar sannanir fyrir því, að frystihúsin almennt séu svo á vegi stödd, að þau þarfnist slíkra styrkja. Þvert á móti hefur verið um svo miklar verðhækkanir að ræða á afurðum frystihúsanna, að það verður að teljast ólíklegt, að þau séu styrkja þurfi, þegar á heildina er litið. Og eins og ég sagði áðan, hefur verið um að ræða a.m.k. 8–9% hækkun á afurðunum og ef borin eru saman árin 1963 og 1964, kemur í ljós, að frystihúsin hafa aukið framleiðslu sina á sama tíma um kringum 20%, þannig að nýting fjárfestingar hefur batnað verulega á þessu tímabili og kemur það þeim að sjálfsögðu til góða. Heildar verðmætisaukning í framleiðslu frystihúsanna hefur frá árinu 1963–1964 aukizt um röskar 200 millj. kr. Á því ári, sem nú er að liða, hefur verð á afurðum frystihúsanna enn þá farið stórkostlega hækkandi og virðist allt benda til þess, að verðhækkunin á þessu ári verði sízt minni en hún var á tímabilinu frá 1963– 1964. Þannig er það nú t.d. kunnugt, að nú ekki alls fyrir löngu hafa verið undirritaðir verzlunarsamningar við Sovétríkin um sölu á frystum fiskflökum, þar sem ákveðin er 10% hækkun. Og þó að þar sé ekki að vísu nema um hluta af afurðunum að ræða, bendir það þó ótvírætt til, hver þróunin muni verða nú á þessu ári. En þegar þess er svo gætt, að það mun láta nærri að 1% verðhækkun afurða geti borið uppi 5% kauphækkun, ef ekki kemur til annar aukinn tilkostnaður, þ.e.a.s. 5% kauphækkun til starfsfólksins í frystihúsunum sést, að hér er ekki um neinar smávægisbreytingar að ræða, enda er það vitað bæði af reikningum frystihúsa, sem rekin eru af opinberum eða hálfopinberum aðilum og öðrum heimildum, að frystihús, sem eru rekin við sæmileg skilyrði, fyrst og fremst hvað hráefnisöflun snertir, hafa ágæta afkomu og jafnvel verulegan hagnað af rekstrinum. Stórfelldar yfirborganir á fiskverði á þeirri vertíð, sem nú stendur yfir, benda óneitanlega líka í sömu átt.

Ég held þess vegna, að hér þurfi að koma til miklu haldbetri skýringar á nauðsyn almennra styrkja til frystihúsanna en þær, sem hefur orðið vart í umr. um þessi mál hér á hv. Alþ., og það nægi ekki, að hæstv. sjútvmrh. fullyrði um þessa hluti án þess að draga fram nokkrar röksemdir máli sínu til stuðnings.

En það, sem ég nú hef sagt um þetta, sannar þó auðvitað engan veginn, að öll frystihús í landinu séu fullkomlega sjálfbjarga, svo mismunandi skilyrði sem þau eiga við að búa. Smá og vanbúin frystihús á aflaleysissvæðunum eru auðvitað hér alveg sér á blaði og þarfnast vafalaust aðstoðar og sízt minni en verið hefur. Mér sýnist því nauðsynlegt, að svo verði hér um hnútana búið, að þær fjárupphæðir, sem veittar eru til styrktar rekstri frystihúsanna, renni þangað, sem þörfin er fyrir, en verði ekki aðeins og jafnvel fyrst og fremst aukinn gróði þeirra, sem eru þegar fullfær um að skila góðum rekstri. Ég teldi því, að það væri eðlilegt verkefni þeirrar n., sem þetta mál fær til meðferðar, að athuga um breyt. á frv. í þessa átt.

Það hefur verið bent á það í umr. um þetta frv., að ekki væri síður þörf á styrkjum til framleiðniaukningar í öðrum greinum fiskiðnaðar, en frystiiðnaðarins og þar tiltekin t.d. saltfiskverkun og skreiðarverkun. Ég vildi bæta við þær ábendingar, að ég teldi aðstoð í þessum efnum til saltsíldarframleiðslu mjög koma til greina. Verulegar umbætur í þeirri mikilvægu framleiðslu hafa átt sér stað og munu verða, þar sem þessi atvinnugrein er svo á vegi stödd, að hún sé nokkurs megnug. Hitt er þó líka ljóst, að á þeim svæðum, þar sem veiði hefur alveg brugðizt, eins og fyrir Norðurlandi á s.1. sumri, eru litlir og víðast engir möguleikar til þess að ráðast í nokkrar umbætur, hversu nauðsynlegar sem þær eru. Ofan á mikil töp, sérstaklega á s.1. ári, munu því þeir erfiðleikar bætast ofan á aðra hjá t.d. þeim 40 söltunarstöðvum, sem starfandi eru á Norðurlandi og báru því nær ekkert úr býtum nema tapið á s.1. vertíð, að þær verða verr búnar en aðrar á komandi vertíð hvað alla tækni snertir, nema til komi sérstök fyrirgreiðsla, sem þó virðist ekki liggja á lausu. Virðist mér, að hér sé um nærtækara verkefni að ræða en að styrkja arðvænlegan rekstur frystihúsanna.

Varðandi sjálf frumvarpsákvæðin vil ég svo aðeins bæta því við, að á s.1. 5 árum, þ.e.a.s. frá 1959, hefur heildarútflutningurinn vaxið að verðmæti, miðað við krónutölu, úr 1.059 millj. kr. í 4.776 millj. kr. Verðmætisaukningin á þessu tímabili er því 3.717 millj. kr. eða um 350%. En miðað við fast gengi er aukningin á árunum frá 1959 um 71% á útflutningnum. Það er vissulega fullkomið íhugunarefni, að það er við þessi skilyrði, sem hæstv. ríkisstj. hleypur endanlega frá öllum svardögum og yfirlýsingum um það, sem hún kallaði heilbrigðan og traustan grundvöll atvinnuveganna fyrir 5 árum. Og það er við þessi skilyrði, sem hún grípur til dæmalausra neyðarráðstafana þeim til hjálpar. Ég held, að þyngri dóm sé ekki unnt að kveða upp um hvort heldur er stefnuna, sem mörkuð var með viðreisninni, né framkvæmd hennar. Eins og hér hefur komið fram, notar ríkisstj. nú tækifærið til þess að játa á sig fullkomið getuleysi til þess að halda uppi eðlilegum og áður lögboðnum framkvæmdum í landinu og ónýtir nú með einfaldri tilkynningu í grg. þessa frv. þær ákvarðanir, sem hv. Alþ. hefur tekið í þeim efnum. Þrátt fyrir hækkanir tolla og skatta á einu ári um 1 milljarð kr. eða meira fórna hæstv. ráðh. upp höndum hér á hv. Alþ. og segja: Við áttum engin úrræði til þess að halda atvinnuvegunum gangandi og greiða starfsmönnum lítilfjörlega kauphækkun, önnur en þau að skera niður öll framlög til framkvæmda um 1/5 hluta eða að öðrum kosti hækka enn skatta um hundruð milljóna ofan á allar fyrri hækkanir.

Bæði við afgreiðslu fjárl. og við umr. um söluskattshækkunina vöruðum við þm. Alþb. við afleiðingum af þeirri verðbólgustefnu og skattahækkanastefnu og eyðslustefnu, sem þá var fylgt og nú er að sýna sig í verki. Við lögðum áherzlu á, að höfuðnauðsyn væri á því, að ríkisstj. efndi ekki aðeins bókstaf, heldur og einnig anda júní-samkomulagsins við verkalýðshreyfinguna um stöðvun verðbólgunnar. Þess vegna bæri að forðast að leggja á nýja verðhækkunarskatta, sem hlytu að leiða til þess, að verðbólguhjólið tæki að snúast á ný. Þess vegna bæri ríkisstj. og hv. Alþ. að afgreiða sparnaðarfjárlög fyrir yfirstandandi ár og ráðast í niðurskurð á eyðsluliðum fjárl., eftir því sem unnt reyndist. Ef það dygði ekki til, bentum við á, að óráðstafað væri á þriðja hundrað millj. kr. af greiðsluafgangi fyrri ára, þ.e.a.s. af því fé, sem ofheimt hefði verið af almenningi á síðustu árum og ekki hefði enn verið ráðstafað. Við bentum á, að sjálf skattheimtuaðferðin leiddi til aukinnar fjárþarfar ríkisins og rýrði möguleika atvinnuveganna til þess að standa undir eðlilegum og óhjákvæmilegum launahækkunum til almennings. En þessar aðvaranir komu fyrir ekki. Ríkisstj. lét allar okkar aðvaranir sem vind um eyrun þjóta, en laumaði hins vegar inn í fjárl. neyðarheimild sér til handa til þess að taka fjárveitingavaldið af hv. Alþ., að því leyti sem við kemur framlögum til verklegra framkvæmda, því að þær voru það eina, sem hún gat hugsað sér að skerða. Mér þykir það því koma úr hörðustu átt nú, þegar hæstv. sjútvmrh. fullyrðir, að við stjórnarandstæðingar hefðum ekki bent á nein úrræði önnur en þau, sem ríkisstj. telur nú fært að beita.

Um sjálfa framkvæmd niðurskurðarins er svo það að segja, að hún er öðrum aðferðum hæstv. ríkisstj. samboðin. Með 20% lækkun allra framkvæmdaliða án nokkurs mats á hverri einstakri framkvæmd, nauðsyn hennar eða yfirleitt möguleikum til þess að skera hluta hennar niður, er auðvitað algerlega um óraunhæfa aðferð að ræða til sparnaðar og kom það reyndar fram í ræðu hæstv. sjútvmrh., að hann teldi, — og ég held, að hann geri það með réttu — að í raun og veru væri hér um hreina skuldasöfnun að ræða, því að hann sagði, að réttara væri raunverulega að tala um, að framkvæmdum væri frestað, heldur en að talað væri um að skera framkvæmdir niður og þetta er auðvitað alveg rétt. Í mjög mörgum tilfellum er hér í raun og veru bara um hreina skuldasöfnun í einhverju formi að ræða. En í öðrum tilvikum verður svo sjálfsagt um það að ræða, að alveg óhjákvæmilegar framkvæmdir tefjast og verða dýrari en ella. Ef raunverulegur sparnaður í verklegum framkvæmdum hefði átt að eiga sér stað, varð auðvitað að koma til alveg nýtt mat fjvn. og siðan hv. Alþingis sjálfs á öllum framkvæmdaliðum. En hér er ekki um neitt slíkt hirt. Stefnan virðist mörkuð af því einu, hvernig hæstv. ríkisstj. telur sig geta flotið yfir næstu ófæru, þó að hún sjálf hljóti að sjá og finna, að aðrar og meiri eru fram undan, ef svo er haldið fram sem horfir. Það væri t.d. fróðlegt að fá að heyra um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst mæta fyrirsjáanlegum kauphækkunum, m.a. til opinberra starfsmanna, umfram þær, sem nú eru orðnar og gert er ráð fyrir að verði mætt með niðurskurðinum, eða má ef til vill búast við því, að enn verði gripið til frekari niðurskurðar síðar á þessu ári, þegar kauphækkanir eru komnar til framkvæmda?

Það má svo sjálfsagt ekki minna vera en við, sem teljumst hér fulltrúar þeirra kjördæma, þar sem atvinnuleysi og kreppuástand hefur verið ríkjandi að undanförnu, að við þökkum hæstv.. ríkisstj. umhyggju hennar fyrir umbjóðendum okkar í sambandi við niðurskurð verklegra framkvæmda, því að það virðist ekki ætlunin að taka neitt tillit til þess, að mestur vandinn í ýmsum landshlutum er sá að skapa þar fullnægjandi atvinnulíf. Niðurskurðurinn bitnar því af margföldum þunga á okkar fólki. Það verður ekki aðeins að þola eins og aðrir það margvíslega óhagræði og skaða, sem minnkaðar framkvæmdir leiða af sér fyrir þá, sem þeirra eiga beint að njóta, heldur líka minnkandi atvinnu ofan á það. Niðurskurðurinn, eins og hann virðist eiga að framkvæmast, er því að mínu viti alveg sérstakt tilræði við þau byggðarlög; sem búa nú við ófullnægjandi atvinnu eða jafnvel nær algert atvinnuleysi.