20.04.1965
Efri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun nú í sjálfu sér ekki vekja furðu neins, þó að frv. sem þetta komi fram nú, þ.e.a.s. frv, um nokkra aðstoð til sjávarútvegsins, eins og þeim málum öllum er nú háttað. Það má frekar segja, að það vekti nokkra furðu, að í fyrra skyldi vera þörf á slíkum aðgerðum, eftir að við höfðum búið við hið mesta góðæri til sjávarins um langan tíma, mikinn og sívaxandi afla og hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum. Nú mun það að vísu vera svo, að verðlag á sjávarafurðum er enn mjög hagstætt og hefur jafnvel heldur hækkað frá því, sem var í fyrra, en hins vegar er vitað, að vertíðin nú í vetur hefur verið heldur léleg fram undir þetta, þó að vonir standi til, að enn eigi eftir að rætast töluvert úr.

Hitt er svo annað mál, að það má segja, að það sé umhugsunarefni; að það skuli þurfa að grípa til þess ár eftir ár eftir hin einstöku góðæri til sjávarins, sem verið hafa, að styrkja þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, eins og lagt er til nú með þessu frv. Vissulega er það athugunarefni að því er varðar alla stefnu núv. hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka í efnahagsmálum, að þessa skuli þörf, hversu mikið góðæri sem er: En út í þá sálma ætla ég ekki að fara langt við þetta tækifæri.

Það, sem kom mér sérstaklega til þess að kveðja mér hljóðs og segja nokkur orð í sambandi við þetta mál, eru erfiðleikar togaraútgerðarinnar og þær ráðstafanir, sem ætlunin er að gera samkv. þessu frv. í því sambandi, og þó ekki síður það, sem ég tel, að nauðsynlegt sé að gera vegna togaraútgerðar okkar Íslendinga í framtíðinni. Þess hefur gætt nú að undanförnu, að ýmsir hafa velt fyrir sér þeirri spurningu og það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, hvort togaraútgerð hér við Ísland sé ekki orðin úrelt, hvort það sé ekki liðinn sá tími, sem sú útgerð átti fullan rétt á sér hér við land, hvort nú sé ekki svo komið, m.a. eftir útfærslu landhelginnar og eftir mjög verulega aukningu og stækkun bátaflotans, að óhætt sé smám saman að leggja togaraútgerðina niður eða jafnvel gera það með all skjótum hætti. Ég hygg, að þessi skoðun sé alltaf öðru hverju að skjóta upp kollinum, og ástæðan er vitanlega þeir miklu erfiðleikar,sem hafa verið á rekstri þeirra togara, sem við höfum nú. Frá mínu sjónarmiði er það ekkert efamál, að við megum ekki við því Íslendingar, að hætta að gera út togskip. Við megum ekki við því margra hluta vegna og skal ég aðeins nefna fá atriði.

Það er í fyrsta lagi, að togarar eru þau skip, sem geta náð afla á miðum, sem bátaflotinn nær yfirleitt og oft og tíðum ekki til, í fyrsta lagi á djúpmiðum við Ísland og jafnvel á miðum við Grænland og Nýfundnaland og víðar, eins og dæmin hafa margsinnis sannað. Og í öðru lagi og á það vil ég ekki síður leggja áherzlu, eru togararnir öðrum fiskiskipum betur til þess fallnir og hæfir að afla fisks á þeim tímum, þegar bátaflotinn kemur því ekki við að fiska, á milli vertíða bátaflotans og fyrir fiskiðnaðinn í landinu er þetta vitanlega mjög mikilvægt atriði. Með tilliti til þessa tvenns tel ég, að það þurfi að gera allt, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að leita að því, sem áfátt kann að vera í sambandi við gerð, rekstur eða annað úthald þeirra togara, sem nú eru og leita ráða til umbóta þar á, en þó ekki síður að fara nú þegar að hyggja að því í fullri alvöru, hvernig hentast sé að endurnýja íslenzkan togaraflota með það fyrir augum, að hann geti enn, eins og í meira en hálfa öld; fært hér björg í bú og aflað þess fisks, sem naumast yrði aflað með öðrum veiðarfærum eða með öðrum hætti.

Mér er um það kunnugt, að nokkrar athuganir hafa farið fram í sambandi við hina örðugu afkomu togaraútgerðarinnar á síðari tímum. M.a. mun hafa starfað að þeim athugunum nefnd á árinu 1962, sem þá skilaði álíti og þar var bent á ýmis atriði, sem þessi nefnd taldi, að gætu átt verulegan þátt í þyf að bæta afkomu og rekstur togaranna. Að vísu var þar um að ræða atriði, a.m.k. ein tvö, sem nokkur ágreiningur er um og eru e.t.v. ekki alveg eins einföld og í fljótu bragði kann að virðast frá sjónarmiði togaraútgerðarmanna. Það er sú till., að togararnir fái frekari heimildir en þeir nú hafa til þess að veiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar og það er í öðru lagi till. togaramanna og þessarar n. frá 1962 um allverulega fækkun skipshafna á togurum. Fyrir mitt leyti tel ég, að það hljóti að koma til athugunar, hvort þjóðhagslega skynsamlegt sé nú eða síðar að heimila togurunum einhverjar tímabundnar eða takmarkaðar veiðar innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar. En að þessu verður vitanlega að fara með fyllstu gát og hafa það eitt í huga, hvað hagkvæmt er fyrir sjávarútveginn og þjóðfélagið í heild sinni. Það má ekki ganga þar á rétt og hagsmuni bátaflotans um skör fram, en ber hins vegar að gæta að því, hvort hægt væri nú eða í náinni framtið að veita þarna einhverja rýmkun, takmarkaða, frá því sem nú er.

Að því er varðar fækkun manna á togurunum vil ég segja það, að vissulega getur það mál verið til frekari athugunar og komið til greina, en fyrir því þurfa þó að vera ákveðnar forsendur og er þá í fyrsta lagi sú forsenda, sem slík hækkun hlyti að byggjast á, að um gæti verið að ræða aukna vinnuhagræðingu um borð, hagkvæmari eða viðráðanlegri veiðarfæri en íslenzku togararnir nota nú og annað, sem gerði það kleift að fækka allverulega mönnum á togurunum. En þegar eitthvað slíkt hefði fengizt fram, tel ég ekkert því til fyrirstöðu, að það mál yrði tekið til rækilegrar athugunar af þeim aðilum, sem þar um hljóta að fjalla. Hitt er svo annað mál, að ef það teldist kleift að fækka mönnum um borð í togurum, án þess að það íþyngi þeim, sem eftir eru, um of við vinnu, væri að sjálfsögðu eðlilegt, að sú skipshöfn, sem eftir yrði á hverjum togara, nyti þess jafnhliða útgerðinni sem kynni að sparast við það breytta fyrirkomulag.

Eitt af því, sem bent hefur verið á til þess að greiða nokkuð fyrir útgerð togara hér við land, er aukin fiskileit í þeirra þágu og á síðasta ári var ákveðið að efla fiskileit í þágu togaranna mjög verulega og menn gerðu sér allmiklar vonir um, að sú aukna fiskilelt gæti borið verulegan árangur. Því miður verð ég að segja það, að þær vonir hafa að töluverðu leyti brugðizt og ég hygg, að það sé ekki vegna þess, að það sé ekki í sjálfu sér mikilvægt fyrir togarana, að þessi leit sé stöðugt framkvæmd, heldur hitt, að það hefur ekki tekizt ýmissa hluta vegna svo vel sem skyldi um framkvæmd þessarar fiskileitar. Að því er ég bezt veit, er það einkum einn af hinum minnstu togurum okkar, togarinn Þorsteinn þorskabítur, sem hefur verið notaður við þessa fiskileit, og hann hefur vegna smæðar sinnar ekki sömu skilyrði og hin stærri skip til þess að njóta sín við þessa mikilsverðu starfsemi í þágu togaranna. En jafnframt hefur það verið upplýst núna nýlega, að af öðrum ástæðum hefur miklu minna orðið úr þessari fiskileit en ætlunin var, og þeim rannsóknum á veiðarfærum, sem jafnhliða áttu að fara fram á þessu skipi. Það var frá því skýrt fyrir svo sem mánuði, að þá hefði skipið ekki komizt úr höfn til þessarar nauðsynlegu starfsemi, fiskileitar og rannsókna á veiðarfærum, vegna fólksleysis, vegna þess að það fékkst ekki mannskapur á skipið. Í þessu sambandi þætti mér æskilegt, ef hægt væri að fá það upplýst, hvernig þessu víkur við. Ég sé, að hæstv. sjútvmrh. er því miður ekki viðstaddur hér, en hefði mjög gjarnan viljað fræðast af honum um það, hvernig því víkur við, að þetta skip, þetta fiskileitar- og rannsóknarskip, sem átti að starfa í þágu togaraflotans, hefur ekki getað notið sín og hefur jafnvel legið langtímum saman, án þess að það kæmist til starfa. Ég hefði gjarnan viljað fræðast um það, á hverju hefur strandað, hvort það hefur strandað á þeim kjörum, sem boðin hafa verið eða hvað það hefur verið annað, sem olli því, að skipið hefur ekki getað staðið að þessari nauðsynlegu starfsemi, eins og til var ætlazt. Jafnframt hefði ég gjarnan viljað fræðast um það, hvort ekki séu vonir til þess, að úr þessu verði bætt hið allra fyrsta. Vitanlega er það frumskilyrði til þess, að fiskileit beri árangur, að um sé að ræða gott skip og veiðarfæri og úrvalsskipshöfn og til þess að þetta allt geti farið saman, þarf að sjálfsögðu eitthvað töluvert í sölurnar að leggja og leggja fram allmikið fé e.t.v. og bjóða skipshöfn sómasamleg kjör og mér þætti ótrúlegt, ef á þessu hefði strandað, þegar um svo mikilvægt mál var að ræða eins og þetta, að gera út skip til þess að stunda helzt sem stöðugast fiskileit í þágu togaraflotans.

Sem betur fer hefur afli togaranna heldur glæðzt núna síðustu vikurnar og má það vitanlega vera bending í þá átt, að ekki þurfi endilega að vera lokið tímabili togaraútgerðar við Ísland, heldur kunni að koma betri og hagkvæmari dagar, þegar afkoman yrði önnur en verið hefur nú um sinn. En það er enginn efi á því, að þó að eitthvað hafi batnað lítils háttar hagur skipanna við þetta, vantar enn mjög mikið á, að rekstur þeirra togara, sem við höfum nú, sé sæmilega tryggður. Og þess hefur gætt mjög í allan vetur og raunar lengur, að togarar fást helzt ekki til þess að leggja afla sinn á land í frystihús hér, heldur sigla þeir með hann og selja erlendis, þar sem það reynist hagkvæmara fyrir útgerðir skipanna. Hins vegar er lítill vafi á því, að undir mörgum kringumstæðum, a.m.k. á þeim tímum, þegar fiskibátarnir afla ekki nægilegs hráefnis fyrir frystihúsin, er það þjóðhagslega séð miklu meira virði, að togararnir leggi upp afla sinn hér til vinnslu, heldur en þeir sigli með hann, þótt það sé, eins og nú stendur, hagkvæmara fyrir útgerðir togaranna sjálfra. Með tilliti til þessa atriðis væri í sjálfu sér rétt að gera nokkurn mun þarna á, þegar Alþ. ákveður að styrkja sérstaklega togaraútgerð landsmanna með ákveðnum rekstrarstyrkjum. Í því sambandi væri ekki óeðlilegt að hafa þann rekstrarstyrk, sem togari fær fyrir að veiða fyrir innanlandsmarkað, allmiklu hærri en rekstrarstyrk, sem veittur er til þess að sigla með aflann úr landi og selja hann þar.

Eins og fram kemur í nál. sjútvn. þessarar hv. d., hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara.

Fyrirvari minn er ekki fólginn í því, að ég sé andvígur þeim stuðningi, sem hér er ætlað að veita sjávarútveginum. Ég tel, að sjávarútvegurinn hafi, eins og komið er, fulla þörf á þeim stuðningi. Hins vegar tel ég, að betur hefði mátt um þessa hluti búa, og mun fyrir 3. umr. flytja tvær eða þrjár brtt. í þá átt, sem ég tel að horfi til bóta og þá sérstaklega að því er varðar togarana. Í fyrsta lagi það, að gerður verði munur á því, að því er styrki til rekstrar togaranna snertir, hvort þeir afla fyrir innanlandsmarkað eða fyrir erlendan markað og í öðru lagi, að það komi fram í þessu frv., að nauðsyn sé á því og ætlun Alþ. sé sú, að nú fari fram gagnger rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar með það fyrir augum, á hvern hátt yrði hægt að gera hann hagkvæmari en nú er og tryggja hann til frambúðar.