24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

5. mál, verðtrygging launa

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að blanda mér mikið í viðræður þeirra hæstv. forsrh. og hv. 9. þm. Reykv., en það var þó eitt atriði eða svo, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs.

Hv. 9. þm. Reykv. hefur bent á það mjög rækilega í ræðum sínum hér áðan, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur breytt afstöðu sinni til verðtryggingar launa nú á sínu valdatímabili, seinustu 4—5 árin. Við það er í sjálfu sér ekki miklu að bæta. Fyrir 5 árum var það yfirlýst skoðun hæstv. ríkisstj., að verðtrygging launa, þ.e.a.s. þau samningsákvæði, sem gerðu það að verkum, að launin hækkuðu með verðlagsvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu, væru ein aðalorsök verðbólguþróunarinnar í landinu. Og samkv. þessari skoðun sinni setti hæstv. ríkisstj. þau ákvæði inn í löggjöfina um efnahagsmál, sem borið var fram frv. um í febrúarmánuði 1960, sem falin eru í 23. gr. þeirrar löggjafar, þar sem vísitöluáhrif á kaupgjald eru bönnuð. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að framsóknarmenn höfðu þá og oft áður álitið æskilegt, að hægt væri að ná samkomulagi við launþegastéttirnar um það, að þetta sjálfvirka samband skyldi rofið. En það var alltaf meginatriði í málflutningi framsóknarmanna um þetta efni, að það skyldi ekki gert með valdboði.

Nú lýsti hæstv. forsrh. því yfir hér áðan, að þó að þau ákvæði, sem lögfest voru um þetta efni á árinu 1960, hafi átt við þá, hafi þau ekki átt við á árinu 1964, heldur þau, sem felast í því frv., sem hér er til umr. Og ég skal út af fyrir sig ekki vefengja það, að ýmsar mismunandi ráðstafanir geti átt við á ýmsum tímum. En það, sem mér fannst athyglisvert í þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh. áðan, var það, að hann lýsti því þar yfir, sem okkur hefur raunar lengi verið ljóst fleirum, að þetta var eina ráðið til þess að tryggja varanlegan vinnufrið á íslenzkum vinnumarkaði. Nú vil ég leyfa mér að halda því fram, að þetta hafi ekki bara átt við á árinu 1964, heldur eigi það alltaf við, að það sé óhugsandi að tryggja varanlegan vinnufrið, nema því aðeins að launþegar hafi einhverja tryggingu gegn óhóflegum verðlagshækkunum. Það er af þessari ástæðu, sem nágrannaþjóðir okkar flestar, þar sem ég a.m.k. þekki eitthvað til, hafa eitthvert samband, að vísu með mismunandi hætti, en þó eitthvert samband milli v erðlags og kaupgjalds, sem skapar launþegum einhverja tryggingu gegn óhóflegum verðlagshækkunum.

En það, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs, var, að ég vildi leyfa mér að minna á, að þó að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. hafi fyrst nú á árinu 1964 komið auga á það, að einhver slík verðtrygging sé nauðsynleg til þess að tryggja varanlegan vinnufrið, þá voru það ýmsir, sem þegar á árinu 1960 vöktu athygli hæstv. ríkisstj. á því, að það ætti einnig við þá og raunar alltaf. Ég vil leyfa mér að vitna hér til nokkurra setninga, sem ég sagði við umr. um frv. um efnahagsmál, við 2. umr. þess í Nd., í febrúarmánuði 1960, þar sem ég gerði 23. gr. efnahagsmálalöggjafarinnar að umræðuefni, og þar segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Nú á að lögbanna vísitöluákvæði í kjarasamningum. Það er skoðun mín, að þetta sé mjög hættulegt ákvæði í frv. og kannske einmitt það ákvæði, sem beri í sér örlög þeirra ráðstafana, sem hér eru til umræðu. Það hefur engan tilgang að setja svona ákvæði í lög, vegna þess að vilji launþegar ekki fallast á það með frjálsum samningum, þá leiðir lagaákvæði um það ekki til neins nema vandræða. Árangurinn verður aðeins sá, að kjarasamningar verða gerðir til styttri tíma, vinnudeilur og verkföli verða tíðari og eilífur ófriður á vinnumarkaðinum, sem leiðir til tjóns fyrir launþega, fyrir atvinnurekendur og fyrir þjóðfélagið allt.“

Þetta, sem hér er vakin athygli á að mundi verða afleiðing af 23. gr. efnahagsmálalöggjafarinnar frá 1960, eru einmitt þau sjúkdómseinkenni, sem hæstv. ríkisstj. ætlar nú að lækna með því frv., sem hér liggur fyrir, og verður ekki um það sagt annað en það, að þar er um að ræða framför í viðhorfum hæstv. ríkisstj. til þessara mála, sem ber að fagna.