28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég tel þessa breytingu, sem gerð hefur verið í Ed., til bóta, því að það var ekkert samræmi í því að greiða sérstakar uppbætur til hraðfrystihúsanna,, en ætla ekki sams konar bætur til skreiðarframleiðenda. En ég vildi, að hér kæmi fram skýring á þessu orðalagi, sem notað hefur verið á þessari viðbótargrein, af því að mér þykir þau ekki nægilega skýrt. Í gr. segir: „Á árinu 1965 heimilast að greiða úr ríkissjóði til skreiðarframleiðenda 10 millj. kr.“ Nú ætla ég, að þetta eigi að þýða það, að greiða megi 10 millj. kr. í sérstakar uppbætur á þá skreið, sem tilheyrir framleiðsluárinu 1965. Ég ætla, að þetta muni þýða það, en vildi gjarnan, að hæstv. ráðh. léti uppi skoðun sína á málinu, því að sjálfsögðu verður sú skreið, sem verkuð er á árinu 1965; að langmestu leyti flutt út á árinu 1966 eða að talsverðu leyti og þó að orðalagið sé svona, reikna ég með því, að þessar 10 millj. kr. eigi að ganga til uppbótargreiðslna á framleiðslu ársins 1965. Mér finnst sem sagt, að orðalagið sé heldur óglöggt í þessum efnum, en vildi gjarnan, að hæstv. ráðh. tæki hér af öll tvímæli um, hvað átt er við.