22.03.1965
Efri deild: 57. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, að hér er um að ræða merkilegt frv. til eflingar þessari stofnun, sem hér er um að ræða og hefur gegnt merku hlutverki hjá okkur undanfarna áratugi. Frv. gerir ráð fyrir því, að í þessum skóla verði jafnhliða veitt tilsögn og þjálfun í hinum svokölluðu frjálsu listum og einnig í hinum hagnýtu listum. Það fyrra ætla ég ekki að gera að umræðuefni. Það er sjálfsagt mjög þýðingarmikið og ástæða til að fagna því, að lagarammi er nú settur um þessa starfsemi. En mig langar til þess með örfáum orðum að koma að þeirri hlið þessa máls, sem snýr að þjálfun í hagnýtum listum.

Eins og tilgangur skólans er skilgreindur í 2. gr. þessa frv., á hann fyrst og fremst að veita kennslu og þjálfun í myndlistum og listiðnum og búa nemendur undir kennarastörf í hagnýtum listum, sem kenndar eru í skólum, svo sem vefnaði, teikningu o.s.frv. Þegar ég las þetta frv., varð mér það nokkurt umhugsunarefni, á hvern hátt ýmsir atvinnuvegir okkar og þá ekki sízt verksmiðjuiðnaðurinn, gætu haft gagn af þeirri listrænu þjálfun, sem á sér stað í þessum skóla og mér virtist satt að segja, að í frv., eins og það liggur fyrir, væri ekki höfð sérstök hliðsjón af því á neinn hátt, hvernig skólinn gæti sérstaklega þjálfað fólk fyrir störf á sviði okkar atvinnuvega. Mér virðist, að kennsla, sem hér er gert ráð fyrir í hagnýtum listum, beinist fyrst og fremst að því að undirbúa fólk undir kennslustörf annars vegar og hins vegar undir ýmiss konar heimilisiðnað og tómstundastörf, sem það vinnur sem áhugafólk í hjáverkum.

En það er mála sannast, að það er mikill skortur á listrænum áhrifum á framleiðslu landsmanna á ýmsum sviðum. Þetta á við á mjög mörgum sviðum. Ég get nefnt kannske örfá dæmi. Það er t.d. um að ræða mynztrun í vefnaði, sem að vísu er hér gert ráð fyrir að verði sérstaklega kennd, en þó að því er virðist fyrst og fremst með hliðsjón af því að búa nemendur undir kennarastörf í vefnaði sem handverki. Í verksmiðjuiðnaði er þó um allt önnur skilyrði að ræða, bæði aðra tækni og annars konar efnismeðferð og er því ekki að öllu leyti skylt. Svipuðu máli gegnir um formun ýmiss konar muna, en upp úr því verður okkar iðnaður að leggja, á það verður að leggja mjög vaxandi kapp, að unnið sé að því með listrænum vinnubrögðum.

Við vitum það sjálfsagt öll, að í öðrum löndum er mikið lagt upp úr því að ná listrænum tökum á ýmsum daglegum viðfangsefnum og móta jafnvel hversdagslegustu hluti í listrænum formum og það að slít takist vel, getur oft ráðið úrslitum um það, hvernig framleiðsluvaran stendur sig á mörkuðum heimsins. Við vitum alveg sérstaklega, að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa lagt alveg sérstaka rækt við þessa liði framleiðslumála sinna og hafa með því náð árangri á heimsmörkuðum, sem er mjög eftirtektarverður og er fyrst og fremst því að þakka, að framleiðendurnir hafa tekið listamenn í sina þjónustu og beitt viðfangsefni sín listrænum vinnubrögðum Á þessu sviði er tvímælalaust líka mikil þörf hjá okkur og enginn vafi á því, að sú stofnun, sem hér er um að ræða, hefur áhrif í hagstæða átt í þessu efni. En hins vegar vekur það athygli mína að,að því er virðist hefur þessi hlið málanna ekki verið höfð í huga á þann hátt, sem ég hefði helzt kosið.

Því er slegið föstu í grg. frv. og það gerði hæstv. menntmrh. líka í framsöguræðu sinni hér áðan, að viðhorf skólamanna á sviði myndrænna lista væri mjög að sveigjast í þá átt að telja aðgreiningu á frjálsri myndlist frá hagnýtri myndlist óeðlilega og jafnvel óheillavænlega, og hér væri því gert ráð fyrir því að sinna hvoru tveggja í sömu stofnun. En þær erlendu stofnanir, sem þarna eru nefndar sem hliðstæðar á sviði hagnýtrar listar, munu með námskeiðum og á ýmsan annan hátt leggja mög mikla áherzlu á tengsl sín við atvinnulífið og leggja sig fram um að veita þá menntun og þjálfun, sem einnig gæti orðið því að gagni.

Þó að gera eigi sem minnstan greinarmun á frjálsri list annars vegar og hagnýtri hins vegar, þá er það auðvitað viðfangsefni út af fyrir sig að samræma hina frjálsu myndlist hagnýtum verkefnum. Mér virðist, sem verkefni þeirra námskeiða, sem gert er ráð fyrir í 7. gr., séu óþarflega takmörkuð, þegar þetta er haft í huga, sem ég nú hef verið að ræða og einnig virðist mér, að það sama komi í ljós, þegar litið er á 12. gr. þessa frv. Þar segir svo:

„Til þess að stuðla að sem nánustum tengslum skólans við þróun þeirra þátta í atvinnu– og menningarlífi þjóðarinnar, sem mestu skipta starf hans og tilgang, skal skipa sérstakt skólaráð. Skólaráð skal vera stjórn skólans til ráðuneytis um ýmis mál er skólastarfsemina varða, samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Síðan er sagt, að skólaráðið skuli skipað 5 mönnum. Borgarráð Reykjavikur tilnefnir einn, Bandalag íslenzkra listamanna annan og menntmrh, þann þriðja, en aðrir tveir skulu skipaðir af Landssambandi iðnaðarmanna, sem bendir til þess, að menn hafi þarna í huga tengsl skólans við handverk landsmanna og hins vegar af Kvenfélagasambandi Íslands til þess að efla tengslin við heimilisiðnað og tómstundastörf á heimilum.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga, að neinn þessara aðila, sem þarna er um að ræða, sé tengdur skólanum. En mér virðist, að þetta bendi þó til þess, að menn hafi ekki haft nægilega í huga það hlutverk skólans; sem ég hef verið að gera að umræðuefni og ekki sé gert nægilega ráð fyrir að skapa tengsl milli þessarar stofnunar og verksmiðjuiðnaðarins í landinu og framleiðslu landsmanna yfirleitt.

Þessum sjónarmiðum vildi ég aðeins leyfa mér að koma hér á framfæri, en ég vil um leið fagna framkomu þessa frv., sem ég tel vera mjög æskilegt að sé samþ. og þar með efld þessi stofnun og sköpuð um hana lagalegur rammi.