05.04.1965
Efri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. á þskj. 412 flyt ég eina brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Brtt. mín snertir 13. gr. frv., en í þeirri grein er fjallað um kostnað við skólahaldið og hver greiða skuli þann kostnað. Það er gert ráð fyrir því í frvgr., að ríkissjóður greiði allan kostnað, er leiðir af kennaradeildunum, svo og allan kennslukostnað í sambandi við fastakennarana. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því í gr., að annar kostnaður skiptist að jöfnu á milli ríkissjóðs og borgarsjóðs Reykjavíkur. Þessu síðasta atriði er ég ósamþykkur, eins og ég raunar tók fram hér við 1. umr. málsins.

Ég tel eðlilegt, að ríkissjóður greiði einn allan kostnað í sambandi við þennan skóla, og um það fjallar till. mín á þskj. 412. Þar legg ég til, að 13. gr. frv. orðist á þessa leið: „Ríkissjóður greiðir einn allan kostnað, sem af rekstri skólans leiðir.“

Ég rakti það lítillega við 1. umr., hvernig þetta ákvæði muni vera til komið. Upprunalega er þessi skóli einkaskóli og síðan félagsrekinn. Á þeim stigum í sögu skólans var ekki óeðlilegt, að ríki og sveitarfélag hjálpuðust að því að styrkja hann fjárhagslega. Nú felur frv. í sér þá breytingu á högum skólans, að hann er gerður að ríkisskóla og þá tel ég, að hann heyri þar til í skólakerfinu, sem fellur að öllu leyti undir ríkissjóð að greiða fyrir.

Ef athugað er, hvar þessi skóli elgi heima í fræðslukerfinu, fer það ekki á milli mála, að skólinn á heima á þriðja stigi fræðslukerfisins, stigi menntaskóla og sérskóla. Inntökuskilyrði í forskóla myndlistardeildarinnar eru landspróf miðskóla eða gagnfræðapróf. Þar af leiðir, að þessi skóli getur ekki talizt til annars stigsins, gagnfræðastigsins. Hann hlýtur því að tilheyra, eins og ég sagði, þriðja stiginu, stigi menntaskóla og sérskóla. En nú er það þannig um greiðslu kostnaðar í skólakerfinu, að þegar um er að ræða skóla á fyrsta og öðru stigi, barnaskóla og gagnfræðaskóla, skiptist kostnaður á milli ríkis og sveitarfélaga. En þegar kemur upp að þriðja stigi, til menntaskóla og sérskóla, er það ríkið eitt, sem stendur undir skólakostnaðinum. Af þessu leiðir, að eðlilegt er að mínum dómi, að Myndlista- og handíðaskóli Íslands sé að öllu leyti kostaður af ríkinu eins og aðrir skólar á þessu þriðja stigi skólakerfisins. Þeir skólar, sem undir það stig falla og eru eingöngu kostaðir af ríkinu, eru menntaskólarnir, sjómannaskólinn, vélstjóraskólinn, matsveina– og veitingaþjónaskólinn, hjúkrunarskólinn og bændaskólarnir. Allt eru þetta skólar á þriðja stigi skólakerfisins og í samræmi við það kostaðir að öllu leyti af ríkinu, en ekki af sveitarfélögum. Hins vegar má nefna skóla eins og húsmæðraskólana. Þeir tilheyra gagnfræðastiginu og í samræmi við það skiptist kostnaðurinn af skólahaldi þeirra sameiginlega á milli ríkis og sveitarfélaga. Mér þykir rétt að benda á, að þetta er óeðlilegt og enda þótt forsagan sé sú, að myndlistaskólinn hafi verið kostaður sameiginlega af borgarsjóði og ríkissjóði, á meðan hann var einkarekinn, tel ég fráleitt, að svo haldi áfram. Með þessu frv. orðnu að lögum er hér um hreinan ríkisskóla að ræða. Hann á heima á þriðja stigi skólakerfisins og allir aðrir skólar á því stigi kerfisins eru ríkisreknir og ríkiskostaðir. Ég tel þess vegna ranglátt beinlínis að ætlast til þess, að Reykvíkingar standi að nokkru leyti straum af kostnaðinum við skólann. Hér er ekkí um litinn hlut að ræða, þar sem talið er, að 1/3 hluti af öllum kostnaði skólans, þar með kennaradeildunum, eigi að falla í hlut Reykjavíkurborgar að standa undir.

Ég vil biðja hv. þdm. að athuga þetta mál frá þessari hlið og gera það upp við sig, hvort ekki muni rétt og sanngjarnt að breyta 13, gr. frv. á þann veg, sem ég legg til.