05.04.1965
Efri deild: 62. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

157. mál, Myndlista- og handíðaskóli Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hefur flutt brtt. við frv., brtt. í þá átt, að ríkissjóður greiði einn allan kostnað, er af rekstri skólans leiðir. Hv. þm. hefur nú gert grein fyrir þeim rökum, sem hann telur hníga til þess, að svo skuli verða, en ég vil leyfa mér að gera nokkrar aths. við þau rök, sem hann hefur hér fært fram.

Hann sagði, að skólinn væri með þessu frv. gerður að ríkisskóla. Ég get ekki fallizt á, að það sé verið með frv. að gera skólann að ríkisskóla. Ég vil þegar benda á það, að a.m.k. á tveimur stöðum í frv.; sem ég sé, er kveðið svo á, að leita skuli till. fræðsluráðs hér í Reykjavík um eitthvað, sem gera skuli og ef um er að ræða hreinan ríkisskóla, mundi að sjálfsögðu sá háttur ekki verða hafður á. Ég minnist þess ekki, að það sé leitað umsagnar fræðsluráðs, áður en kennarar eru skipaðir eða eins og hér, að fjölga skuli eða fækka kennsludeildum að fengnum till. skólastjóra og fræðsluráðs.

Hv. þm. taldi, að þessi skóli ætti heima á því, sem hann nefndi 3. stig fræðslukerfisins, væri hliðstæður menntaskólum og sérskólum ýmsum. Ef ég tók rétt eftir, var það skoðun hans, að í þennan skóla færi fólk, þegar það hefði lokið skyldunámi eða barna- og unglingafræðslustigi. En ég vil nú benda á það, að í þessum skóla eru líka starfandi barnadeildir og það kemur til af því, að þessi skóli hefur sérstöðu að því leyti, að kennsla hans fer að verulegu leyti fram á námskeiðum, en ekki með fastaskólahaldi, ef svo mætti orða, eins og tíðkast yfirleitt um skóla.

Varðandi greiðslu kostnaðar ætla ég, að allir gætu orðið sammála um, að það er sjálfsagt og eðlilegt, að ríkið beri eitt kostnað af skólanum, að svo miklu leyti sey hann miðast við það að mennta kennaraefni. Um það getur að sjálfsögðu ekki orðið ágreiningur. Um hitt, hvort eigi, þegar því sleppir, að láta ríkissjóð greiða einan alian kostnað af rekstri og kennslu, geta að sjálfsögðu verið nokkuð skiptar skoðanir.

Eins og fram kemur í niðurlagi aths. með frv. og einnig, ef ég man rétt, í ræðu hæstv. menntmrh, við 1. umr. málsins; hefur verið unnið að undirbúningi þessa frv. í samráði við fræðslustjórann hér í Reykjavík og ég sé ekki ástæðu til að víkja frá ákvæðunum um skiptingu kostnaðar, eins og þau eru í frv. Eins og hv. þm. reyndar munu fara nærri um, er það svo, að á námskeiðunum eru að yfirgnæfandi meiri hl. Reykvíkingar, þau sækir að yfirgnæfandi meiri hl. fólk úr Reykjavík, og barnadeildirnar sækja, held ég sé óhætt að fullyrða, eingöngu börn héðan úr Reykjavík. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að það fræðsluhérað, sem svo að segja eingöngu situr að því að notfæra sér þessa kennslu á námskeiðunum, beri nokkurn hluta kostnaðarins.

Ég minntist á það áðan, að í frv., þ.e. bæði í 8. og 9. gr.; ef til vill víðar, ég man það nú ekki í bili, sé áskilið, að fengnar séu till. fræðsluráðs um ákveðin efni og ég verð að segja, ef hv. þm. hefði verið sjálfum sér samkvæmur og vildi láta gera skólann að hreinum ríkisskóla, þannig að ríkissjóður einn bæri allan kostnað, þá held ég, að flestum hefði þótt eðlilegt að flytja einnig þá brtt. við þessar greinar frv.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um brtt. hv. þm., en vil endurtaka það, að ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv: á móti henni: