24.11.1964
Efri deild: 22. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

5. mál, verðtrygging launa

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það eru örfá orð í tilefni af ræðu hæstv. forsrh. Mér finnst hæstv. forsrh. vera vorkunn, þó að hann hefði nokkuð gaman af þeirri sjálfumgleði, sem honum finnst lýsa sér í því, að ég fer hér að lesa upp kafla úr 5 ára gamalli ræðu, sem ég hélt í umr. um efnahagsmál í hv. Nd. Og vissulega skal ég verða fyrstur manna til þess að viðurkenna, að það fari miklu betur á því að vitna í aðra, enda er sannleikurinn sá, að það væri ekki minnsti vandi að finna í ræðum annarra stjórnarandstæðinga frá þessum tíma svipuð sjónarmið og komu fram í þessum stúf mínum. En ástæðan til þess, að ég gerðist svo djarfur að vitna í hann, er aðeins sú, að það var fljótlegast fyrir mig að finna hann, vegna þess að ég hafði kannazt við hann betur en ýmislegt annað.

Það gleður mig hins vegar að hafa fengið tækifæri til þess að slá því föstu, meðan hæstv. forsrh, var að tala, að við erum kannske ekki eins ósammála um ýmsa hluti í þessu sambandi og í fljótu bragði kynni að virðast. T.d. sagði hæstv. forsrh., að það væri raunar engin ástæða til þess að gleðjast yfir því, heldur þvert á móti, að ég hefði reynzt sannspár í þessum orðum, sem til var vitnað frá því fyrir 5 árum, því að eins og hæstv. forsrh. sagði orðrétt: Þetta hefur verið ófarnaður. Og ég hlýt nú að líta svo á, að hann eigi þar ekki við allan feril hæstv. ríkisstj., heldur aðeins verðlagsmálin sem afleiðingu af þessu ákvæði, sem þarna kom fram: Um þetta er ég honum alveg sammála. Verðlags- og kaupgjaldsmálin hafa þróazt þannig á undanförnu árabili, að það hefur verið ófarnaður, sem fullkomin ástæða var til þess að reyna að binda endi á, og samkomulagið frá í júní, sem þetta frv., sem hér er til umr., er einn þátturinn í og ein afleiðingin af, var vissulega tilraun í þá átt, sem allir hljóta að fagna og hljóta að vona að leiði til þess, að ófarnaðinum í þessum efnum sé nú lokið eða a.m.k. lægt. En það er vissulega rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er óséð, hver verður framvinda þessara mála, þó að við allir getum sameinazt í ósk um, að það megi nú loks vel til takast. En sannleikurinn var sá, að hæstv. ríkisstj. átti í vor enga kosti góða. Hún átti auðvitað enga kosti góða. Og ég veit ekki, hvernig hæstv, forsrh. getur ætlazt til þess, að ríkisstj. hefði eftir það, sem á undan var gengið, átt marga kosti góða. Annaðhvort varð ríkisstj. að gera þær ráðstafanir og taka þær áhættur, sem voru því samfara að gera samkomulagið, sem gert var, eða hæstv. ríkisstj. varð að horfast í augu við áframhaldandi ófarnað í þessum málum.

Hæstv. forsrh. gerði það nokkuð að umræðuefni í ræðu sinni, að það hafi fyrr verið, gerðar ýmsar ráðstafanir í sambandi við vísitölu og áhrif hennar á kaupgjald í landinu, ýmsar aðrar ráðstafanir en að láta þarna vera beina og ótakmarkaða víxlverkun á milli. Og það er vissulega rétt. Eigi að síður voru ákvæði 23. gr. efnahagsmálal. frá 1960 algert einsdæmi, og þau fyrri atriði, sem hæstv. forsrh. minnti á og mér virtist að hann væri að minna á til þess að gera að hliðstæðum, eru það ekki. Enn fremur eyddi hæstv. forsrh. nokkru máli í að lýsa því, af hverju ákvæði 23. gr. hefðu verið nauðsynleg sem afleiðing af gengislækkuninni. Eftir að gengislækkunin hafði verið ákveðin og um leið og hún kom til framkvæmda var nauðsynlegt, sagði hæstv. forsrh., að koma í veg fyrir, að það væri til sjálfvirkt tæki, sem gerði verðlagsmálin óviðráðanleg. Þetta get ég vel skilið, og geri ég ráð fyrir, að flestir geti verið sammála hæstv. forsrh. um þetta. En hann kom bara ekki í veg fyrir þetta með ákvæðum 23. gr. l. um efnahagsmál. Bannið gegn því að tengja kaupgjald vísitölu kom ekki í veg fyrir það, að eftir sem áður væri í landinu, með þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. fylgdi í verðlagsmálum, tæki, sem gerði það að verkum, að kaupgjaldið leitaðist við að fylgja verðlaginu. Það var ekki komið í veg fyrir það með þessum ákvæðum og verður ekki gert með slíkum ákvæðum. Og það er það, sem ég hef verið að reyna að vekja athygli á nú og fyrr, að með svona ákvæðum verður ekki komið í veg fyrir það, að kaupgjaldið leitist við að fylgja verðlaginu og þar verði verkun á milli. Það skeður bara með öðrum hætti. Það skeður með þeim hætti, að launþegasamtökin gera stutta samninga, verkföll verða tíð, ófriður mikill á vinnumarkaðinum, en nettó-niðurstaða verður ekki mikið önnur.

Það eru að vísu ýmis atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem væri ástæða til þess að ræða nokkuð og væru vissulega tilefni jafnvel til mikilla umr. En ég skal ekki láta það eftir mér að sinni, en áður en ég lýk máli mínu drepa á eitt atriði úr ræðu hv. 10. þm. Reykv., sem vakti athygli mína, vegna þess að þar var sá hv. þm. byrjaður að leggja drög að því að skrifa sögu viðreisnarinnar. Hann sagði eitthvað á þá leið, að tilgangur viðreisnarinnar hafi verið tvenns konar: Í fyrsta lagi að afstýra öngþveiti, sem mér skilst fyrst og fremst hafa átt að vera í gjaldeyrismálum, og í öðru lagi að afnema gjaldeyrisskömmtun. Það skyldi nú aldrei vera, að einhverjir hv. þm. muni minnast þess, að markmiðin hafi verið sett upp dálítið stærri hér í eina tíð? Nú á það ekki lengur að hafa verið tilgangur viðreisnarinnar að afnema uppbótakerfið, enda hefur hún ekki gert það. Nú á það ekki lengur að hafa verið tilgangur viðreisnarinnar að stöðva verðbólguna, enda hefur hún ekki gert það. Og svo mætti lengi halda áfram að telja. En hv. 10. þm. Reykv. telur sig geta fundið tvö atriði, sem ríkisstj. hafi ætlað sér að gera og hafi tekizt, og þá skal því slegið föstu, að þar hafi tilgangur viðreisnarinnar verið og verið allur.