23.03.1965
Neðri deild: 58. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

140. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég vil óska upplýsinga um það frá hæstv. dómsmrh., hvaða venja ríkir um það, þegar menn hafa verið með dómi sviptir ökuleyfi ævilangt, hvort þeir fái uppreisn og það jafnvel eftir skamman tíma og ökuleyfi aftur. Ég hef heyrt þess getið, án þess að ég hafi neinar sannanir fyrir því, að sú venja hafi verið og sé enn að veita slíkum mönnum ökuleyfi aftur eftir ekki mjög langan tíma. Mér þætti fróðlegt að vita, hvernig þetta væri í framkvæmd.

Þá er í 1. gr. þessa frv. gerð sú breyting á, að ekki skuli krefjast góðrar heyrnar, heldur nægjanlegrar heyrnar og þetta er skynsamlegt. Það ætti ekki að þurfa að krefjast meira, en svo segir í grg. um þessa grein:

„Tilgangur þessa er sá að veita heimild til þess, að heyrnarlaust fólk geti fengið ökuskírteini.“

Eru þetta ekki einhver mistök í grg., að segja, að tilgangurinn með þessari lagabreytingu sé sá, að heyrnarlaust fólk fái ökuskírteini, þegar segir í sjálfri gr., að það skuli hafa nægjanlega heyrn? Ég vek athygli á þessu, svo að það fari ekki út úr þinginu þannig, að menn séu í einhverjum vafa. Ég get ómögulega séð, að það sé tilgangurinn með þessari breytingu, að heyrnarleysingjar fái ökuskírteini. E.t.v. er þetta prentvilla, því að ég fæ ekki séð, að það geti verið nokkur heil brú í þessu og ég mundi a.m.k. ekki vilja greiða atkv. með því að stefna að því að veita heyrnarlausu fólki ökuskírteini.