08.12.1964
Efri deild: 28. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

89. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki við höndina upplýsingar um það, hvernig það fé skiptist, sem fellur til erfðafjársjóðs árlega. En það er, eða hefur verið undanfarin ár, ég vil segja allverulegt. Árið 1962 hefur erfðafjárskatturinn numið 3.6 millj. kr., og 1963 nam hann 4.2 millj. Þetta fé, sem safnað er í erfðafjársjóð, er í vörzlu Tryggingastofnunar ríkisins og úthlutað af félmrn. eftir till. tryggingaráðs. Ég get upplýst það hins vegar, að það hafa ýmsar umsóknir borizt um lán og styrki úr sjóðnum til stofnana og starfsemi úti á landsbyggðinni, aðallega þó til hinna svokölluðu „Sjálfsbjargar“-félaga, sem eru samtök fatlaðra. Það hefur síður en svo verið neinn þrándur settur í götu þess, að starfsemin úti á landinu nyti fyrirgreiðslu af þessu tagi, eins og þeir, sem hér eru búsettir í Reykjavík eða nágrenni. Hins vegar sé ég ekki í fljótu bili, hvað ætti að vinnast við að skipta þessu fé í smærri hluta, þar sem mér skildist á hv. þm., að hann ætlaðist til þess, að það yrðu þá stofnaðar sérstakar deildir erfðafjársjóðs, sem væru byggðar upp í hinum ýmsu héruðum. En þá er þar við að athuga, að það geta náttúrlega verið, eins og hann líka benti á, ýmsir staðir, þar sem litið eða ekkert fellur til af erfðafjárskatti og gæti það þá orðið til þess, að þessir sjóðir hættu að geta staðið undir þessari starfsemi í héruðunum, þ.e. væru þess ómegnugir. Hins vegar, þegar um heildarsjóð er að ræða, er hann óbundinn af því, hvert veita skuli og einungis hugsað um að fullnægja þörfinni, hvar sem hún kallar að. Ég held þess vegna, að þetta kerfi, sem nú er haft á þessu, sé eftir atvikum það heppilegasta og það mundi ekki mikið vinnast við það, þó að það væri farið að skipta þessu fé í smærri hluta.

Þessi aðstoð, sem veitt er, er aftur á móti bundin við það höfuðmarkmið, sem bæði er orðað í núgildandi lögum og eins í þessu frv., þ.e.a.s. að aðstoðin sé veitt í því skyni öryrkjum og gamalmennum, að starfsgeta þeirra komi að sem fyllstum notum. Út yfir þetta mark eða út fyrir þessa línu er ekki heimilt að fara og verður ekki heldur, þó að þessi breyting á l.. verði samþ., sem hér er gert ráð fyrir.

Ég held þess vegna, að það fyrirkomulag, sem nú er haft á um rekstur sjóðsins, lánveitingar úr honum og styrkveitingar, hafi reynzt vel. Ég held, að ég megi fullyrða, að það hafi ekki borizt styrk og lánabeiðnir úr sjóðnum, sem ekki hefur verið hægt að sinna, þegar um eðlilegar lána– og styrkbeiðnir hefur verið að ræða. Ég fyrir mitt leyti held þess vegna að, að þessu leyti væri ekki rétt að breyta sjóðnum. En sjálfsagt er rétt, að n. athugi þetta. Ef hún finnur einhvern flöt á því, sem teldist heppilegri, en núverandi fyrirkomulag, þá er sjálfsagt að taka það til athugunar.