21.10.1965
Efri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. félmrh. glögga framsögu og góðar upplýsingar, sem hann gaf um ýmis atriði varðandi framkvæmd húsnæðismálalöggjafarinnar. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir nokkuð aukinni aðstoð við efnalitla húsbyggjendur, ákveðið, að hækkuð skuli lán til þeirra, sem framkvæmdir hófu á árinu 1964, og ríkisstj. veitt heimild til að hefja byggingu hagkvæmra og ódýrra íbúða í fjölbýlishúsum í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög. Ég álít þessi ákvæði öll til bóta og tel þau raunar vera nauðsynlegar endurbætur á húsnæðismálalöggjöfinni og get þess vegna mælt með því, að þær breytingar nái fram að ganga. Ég tel vissulega enga vanþörf á þeim, og reyndar hafa menn séð um nokkurn tíma, að það var ekki vanþörf á þessum breytingum á húsnæðismálalöggjöfinni, sem ég áðan nefndi og í frv. þessu felast. Ef ég man rétt, bar þær á góma í sambandi við afgreiðslu húsnæðismálalöggjafarinnar á síðasta þingi, og þá komu fram ábendingar um og jafnvel brtt. um, að nauðsynlegt væri að gera þær breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni þá, sem nú eru hér ráðgerðar. En þá náðu þær ábendingar ekki eyrum hv. stjórnarstuðningsmanna og fengu engan hljómgrunn hjá þeim. Þá var sagt, að húsnæðismálalöggjöfin, eins og þá var fyrirhugað að ganga frá henni, væri í himnalagi og það þyrfti ekki að gera á henni frekari endurbætur.

Nú leggur stjórnin hins vegar fram þetta frv., sem í felast þessar breytingar. Það er alltaf ánægjulegt, þegar menn sjá mistök sín og viðurkenna þau. Að vísu er það alltaf ánægjulegt, ef það gerist af sjálfsdáðum og menn gera yfirbót, án þess að til komi nokkur utanaðkomandi áhrif. Því miður er því ekki að heilsa í þessu falli, því að eins og kunnugt er og glöggt sést reyndar af því fskj., sem fylgir með þessu frv. og hæstv. félmrh, dró heldur enga dul á, eru þessar breytingar þannig til komnar, að þær voru knúðar fram í kjarasamningum á s.l. sumri. Og reyndar held ég, að segja megi, að þær endurbætur, sem gerðar hafa verið á húsnæðislöggjöfinni nú í tvö síðustu skiptin, hafi aðallega orðið til vegna þess, að á þær var knúið og um þær var samið í sambandi við lausn kjaradeilna. Og ég held, að það hafi reyndar komið fram og verið viðurkennt af hæstv. félmrh., að svona væri það. En samt er það nú svo, að þegar mál þessi koma til kasta Alþ., virðast allir hv. alþm. á einu máli um, að nauðsynlegt sé að gera þessar breytingar. En ósköp hefði það verið miklu skemmtilegra, ef Alþ. hefði sjálft fundið hjá sér hvöt til að gera þessar breytingar, án þess að það hefði þurft að knýja þær fram með þessum hætti.

En það má einu gilda, hvernig forsaga þessa máls er, að því leyti til, að þessar breytingar, sem nú liggja fyrir og ég nefndi í upphafi máls míns, eru nauðsynlegar endurbætur að mínum dómi, og er út af fyrir sig sjálfsagt að veita þeim allan þann stuðning og greiða fyrirgreiðslu, sem hæstv. félmrh. fór fram á.

Ég er hins vegar alveg andvígur þeirri margföldun eignarskatts eða hækkun fasteignaskatts, ef menn vilja heldur orða það svo, sem í þessu frv. felst. Ég álít hana í stuttu máli sagt óhæfilega handahófskennda. Ég tel, að hún ýti undir dýrtíðina, muni valda hækkun húsaleigu, áður en varir, og bitni þannig á þeim, sem sízt skyldi.

Og ég tel, að með því að fara inn á þessa braut, sem hér er gert ráð fyrir, sé ríkið að draga undir sig tekjustofn, sem það þó var áður í raun og veru búið að láta af hendi til sveitarfélaganna.

Að lokum verð ég að segja það, að á frv. þessu er ákaflega leiðinlegur lagatæknilegur ágalli. Ég skal nú í stuttu máli reyna að finna orðum mínum nokkurn stað.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að eignarskattur verði miðaður við sexfalt fasteignamat, í stað þess sem hann eftir gildandi húsnæðismálastofnunarlögum er miðaður við þrefalt fasteignamat. Þarna er um að ræða gífurlega hækkun á eignarskatti. Hæstv. félmrh. sagði, að þarna væri um tvöföldun eignarskattsins að ræða, ef ég tók rétt eftir. Má þó vera, að ég hafi misskilið hann. En það er vitaskuld ekki rétt, að þarna sé um tvöföldun eignarskattsins að ræða, heldur getur þarna verið um miklu meiri hækkun að tefla, og það er vegna þess, að það er þarna um að ræða sexföldun á fasteignamati í stað þreföldunar, en vegna stighækkunar eignarskattsins og af öðrum ástæðum getur hækkunin á honum vitaskuld orðið mun meiri en þessi hækkun á fasteignamatinu.

Þarna er sem sagt lagt til að sexfalda fasteignamat allra fasteigna án tillits til þess, hvar þær eru, með þeirri undantekningu þó, sem nú greinir í lögunum, að bújarðir í sveit, eins og það er nú orðað, skuli verða undanþegnar.

Ég lít svo á, að þessi hækkun sé allt of handahófskennd, að ætla að margfalda fasteignamatið eins og þarna er ráð fyrir gert, alveg án tillits til þess, hvernig á stendur í hverju falli. Ég álít, að það, sem gera hefði átt, ef taka ætti upp fasteignaskatt í jafnríkum mæli og hér virðist gert ráð fyrir, þá hefði átt að ljúka fasteignamati því, sem stendur yfir, og miða fasteignaskattinn við það fasteignamat. Ég skal viðurkenna, að fasteignamatið sé of lágt og það sé ekki sanngjarn mælikvarði til þess að miða við. En ég tel réttu leiðina til að leiðrétta það vera þá að láta fara fram nýtt fasteignamat, en ekki þá að margfalda fasteignamatið svona af algerðu handahófi, alveg án tillits til þess, hvernig stendur á í hverju tilfelli. Ég vil alls ekki segja, að það geti ekki komið til mála að nota fasteignir sem grundvöll fyrir tekjuöflun og að það megi ekki nota fasteignaskatt. Það getur að mínu áliti vel komið til greina. En það á að miða hann við rétt mat á fasteignunum, en ekki fara að svo sem hér er gert. Ég nefni það bara t.d., hvort það sé sama að eiga fasteignir hér í Reykjavík eða t.d. á Siglufirði nú í dag. Ætli fasteignir á Siglufirði séu seljanlegar nú í dag með svipuðum hætti og með svipuðu verði og í Reykjavík eða í Hafnarfirði? Ég held ekki. Ég held, að það sé ákaflega ólíku saman að jafna. Ég held, að það sé ákaflega ósanngjarnt að leggja svo handahófskenndan mælikvarða á þetta sem hér er gert, að ætla að margfalda þetta með sex.

Ég skil það, að fasteignamat þarf vel að vanda, og það getur tekið nokkurn tíma, en ég álit þó, að það ætti að vera auðvelt að hraða því svo, að það þyrfti ekki að grípa til þessarar handahófsaðgerðar, sem hér er ráðgerð.

Þá vil ég enn fremur minna á það, að fasteignaskattur til ríkisins var lengi í lögum. Ef ég man rétt, voru það lög frá 1921, sem heimiluðu fasteignaskatt til ríkisins, að vísu ekki háan, en þó nokkurn. En þeim lögum var breytt, ef ég man rétt, eitthvað um 1954 á þá lund, að sá fasteignaskattur skyldi framvegis renna til sveitarsjóðanna, og síðan hafa sveitarsjóðirnir notið þessa fasteignaskatts, og meira að segja verið veitt heimild til þess að hækka þessi fasteignagjöld til sveitarsjóðanna, og sú heimild hefur verið notuð víða, að ég hygg, og nú eru ákvæði um þessi fasteignagjöld til sveitarfélaganna einmitt í aðallögunum um tekjustofna sveitarfélaga.

Ég álít, að með því að ætla nú að hækka fasteignaskattinn í raun og veru með þeirri hækkun eignarskattsins, sem hér er ráðgerð, svo gífurlega mikið til ríkisins eins og hér er gert ráð fyrir, sé mjög þrengt að kosti sveitarfélaganna, en sveitarfélögunum veitir sannarlega ekki af tekjustofnum. Og eins og ég sagði áðan, álít ég, að út af fyrir sig geti verið eðlilegt að nota fasteignaskatt, en ég álít það þá eðlilegast að vera ekki að kljúfa hann niður og deila honum á milli ríkis og sveitarfélags. Ég held, að ef á að nota fasteignaskatt og að svo miklu leyti sem á að nota hann, þá væri eðlilegt að láta sveitarfélögin sitja fyrir þeim skattstofni. Hitt er í raun og veru óhæfa, að ríki og sveitarfélög séu alltaf sí og æ að róa á sama miðið og taka sömu skattana og miða við sömu skattstofnana og skipta þannig á milli sín. Ég álít, að með þessu sé eiginlega verið að taka það aftur, sem þó var búið í framkvæmd a. m. k. að veita sveitarfélögunum fullkominn ádrátt um, að þau mættu hafa þennan tekjustofn fyrir sig.

Þá vil ég loks taka það fram, að ég hef það á móti þessari tekjuöflun, að ég er ekki í nokkrum vafa um það, að sú hækkun, sem hér kemur til með að eiga sér stað á fasteignaskatti eða á eignarskatti, verður mjög fljótlega lögð á húsaleiguna, þannig að það verða leigutakar, sem innan skamms verða að standa undir þessum skatti í raun og veru, því að vissulega var það alveg hárrétt lýsing, sem hæstv. félmrh. gaf hér áðan af ástandinu í þessum húsaleigumálum. Við vitum það, að ákvæðin um hámarkshúsaleigu eru ekki nema dauður bókstafur nú, það var auðvitað laukrétt hjá honum, og við vitum, að það eru greiddar stórar upphæðir í húsaleigu fram yfir það, sem leyfilegt er, og ekki einu sinni það, að það sé greitt þannig, heldur er það greitt, alveg eins og hann réttilega orðaði það, undir borði og með þeim hætti, að það sést aldrei og kemur aldrei til skatts.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þessi skattauki, sem hér er um að tefla, verður fljótur að rata þá leið. Og þá verð ég að segja, að hann fer að bitna á þeim, sem sízt skyldi, vegna þess að þrátt fyrir allar virðingarverðar tilraunir, sem ég vil ekki á nokkurn hátt gera lítið úr, til þess að stuðla að því, að sem allra flestir geti eignazt eigið húsnæði, eru þó því miður ákaflega margir enn þá, sem verða að leigja, og verður svo sjálfsagt enn um nokkra hríð. Og ég held, að þetta bitni á þeim ákaflega ósanngjarnlega, og auk þess náttúrlega kemur þetta til með að bitna á þeim líka, sem hafa á allra síðustu árunum verið að reyna að eignast þak yfir höfuðið. Það er að vísu kannske sagt, að þeir skuldi svo mikið, að þetta komi ekki mikið við þá. Það má vel vera, að það verði þeim eitthvað léttbærara vegna þeirrar miklu skuldabyrði, sem þeir flestir hafa að bera. En ég hygg nú samt, að sú muni verða raunin á, að þetta muni einnig hitta þá marga og koma óþægilega við þá.

Það var sagt í fyrra og sett fram í lagagrein, að þessi skattur, þreföldun á fasteignamatinu og eignarskattur útreiknaður skv. því, ætti að standa undir 40 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til húsnæðismálastjórnar, og þeim, sem mæltu fyrir frv. þá, var á það bent, að þeir mundu lítið geta sagt um það á því stigi málsins, hvort þessi skattauki mundi nema 40 millj. eða hverju hann mundi nema, því að það liggur nokkuð í augum uppi, að það er ekki hægt að reikna það svo út fyrir fram. En á það var ekki hlustað fremur en annað í sambandi við þetta mál, og reyndin hefur orðið sú, að það er sagt nú hér á prenti, að þessi auki eignarskattsins muni hafa numið 16–19 millj., ekki er nú farið nákvæmar í það, enda er sennilega vissara að taka það til með dálitlu svigrúmi, því að ég verð að segja, að ég held, að það sé ákaflega erfitt fyrir hvern og einn að fullyrða um það, jafnvel eftir á, hverju þessi skattur hafi numið af eignarskattinum. Hvernig ætti að vera hægt að reikna það út nema fara yfir framtal og eignarskatt hvers einasta manns? Það er ekki hægt öðruvísi. Og hvernig ætli það sé þá hægt að segja um það fyrir fram, hverju þessi skattur muni nema? Nú er samt látið í veðri vaka, að tvöföldun á þessari þreföldun fasteignamatsins mun nú gefa 40 millj. Ég vil segja þar um: Það getur vel verið, en það getur enginn sagt um það, hvorki ég né neinn annar getur nokkru um það spáð. Það er alveg siglt út í bláinn um þetta. Það er dálítið óviðkunnanlegt að vera að leggja á skatta með þeim hætti, að það sé ekki fyrir fram hægt að hafa neina hugmynd um, hverju þeir nemi eða hvernig þeir komi niður.

Hér er sem sagt á ferðinni nýr skattur eða skattauki. Það er að mínum dómi ákaflega illa farið. Ég tel, að núv. hæstv. ríkisstj. sé búin að fá ærið margar nýjar skattheimildir og það sé ekki á þær bætandi. Það má telja upp þá mörgu nýju skatta, sem hún hefur beitt sér fyrir, eins og t.d. launaskatt, skatt á veitingahúsum, þegar maður fer þangað, skatt á sement og skatt á timbur o. fl., o. fl., sem of langt mál yrði hér upp að telja, og enn á að halda áfram á þessari sömu braut. Hér er boðaður þessi skattur, svo á að leggja skatt á þá, sem fara til útlanda. Hvar á að nema staðar? Ef mark má taka á aðalmálgagni hæstv. fjmrh., mætti búast við því, að innan skamms fengjum við að sjá framan í einn nýjan skatt, þar sem það var birt í forsíðufrétt Morgunblaðsins í gær, að Svíar væru nú í þann veginn að koma auga á og innleiða hjá sér nýja fjáröflunarleið, svokallaðan bingóskatt. Þetta þótti Morgunblaðinu svo merkileg frétt, að það setti hana á forsíðu. Það má því líklega búast við því, að við fáum hér innan skamms slíkan skatt. Ég efast ekki um það, að ef vel er á haldið og vel tekst til um mann til að standa fyrir slíku bingói, þá muni þetta geta gefið góðan pening í ríkissjóð. En hvað sem um það er, hvort sem þessi bingóskattur verður tekinn upp eða ekki og hvort sem það verður bætt við fleiri eða færri sköttum eða ekki, þá er það mín skoðun, að það sé meira en nóg komið af sköttum. Og satt að segja er það nú svo, að heiðarlegir menn, sem telja réttilega fram og borga skatta í samræmi við það, geta ekki þverfótað fyrir sköttum. Ég þori að fullyrða það, að maður, sem hefur háar tekjur, lifir ekki hér neinu lúxuslífi, ef hann borgar réttilega skatta af sínum tekjum, það þori ég að fullyrða. En það eru hins vegar margir hér í borg, sem lifa lúxuslífi. Við sjáum þá og við þekkjum þá. Þeir borga ekki allir háa skatta, enda mundu þeir þá ekki hafa ráð á því að fara kannske til útlanda oft á ári, kaupa sér nýjan bíl annað hvert ár, kaupa sér hesta, leigja sér laxár og vera í veitingahúsum dag eftir dag. Þeir menn, sem hafa ráð á því, borga ekki skatta eins og þeir eiga að gera. Þetta veit hver maður, og þetta veit hæstv. fjmrh., og þetta eiga skattayfirvöldin að vita og eiga að þekkja þessa menn. Ef þau gera það ekki, þá er áreiðanlega hægt að fá aðstoð margra góðra manna hér í Reykjavík til þess að fara með þeim yfir skattskrána og benda þeim á þá menn og þau nöfn, sem sleppa við greiðslu skatta. Ég álít, að það sé ekki þörf á nýjum sköttum. Ef skattaframkvæmdin væri í lagi og ef fullrar ráðdeildar væri gætt í sambandi við allan opinberan rekstur, þá þyrfti ekki á nýjum sköttum að halda, og vil ég þó á engan hátt gera lítið úr þeim vandræðum ríkissjóðs, sem nú er við að etja. En hvað er gert til þess að laga framkvæmdina í þessum málum? Það er ekki nóg að tala fallega um það, að það þurfi eitthvað að gera í þeim og að það eigi að gera eitthvað.

Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði í fjárlagaræðu sinni, ef ég man rétt, að skattsvik væru í raun og veru engu betri en fjársvik borgaranna í millum. Það er mikið til í þessu, a. m. k. um vissar tegundir skattsvika og skattskilasvika. En hver kannast við það, að fjársvikurum manna í milli hafi verið veitt almenn uppgjöf saka eða gefinn kostur á almennri uppgjöf saka, ef þeir gerðu skil á því fé, sem þeir hafa ólöglega dregið sér? Ég kannast ekki við það. Ég held og ég hef alltaf haldið því fram, að sú leið, sem hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir á síðasta þingi um þá eftirgjöf til skattsvikara, hafi ekki verið heppileg til þess að byggja upp rétta siðaskoðun í þessu efni. Ég held, að það þurfi að taka þessi mál allt öðrum tökum en þau hafa verið tekin hingað til, miklu sterkari og harðari tökum.

Ég veit, að það hefur valizt ágætur maður til forustu skattrannsóknardeildarinnar. En ég dreg hins vegar í efa, að honum og þeirri deild hafi verið séð fyrir þeirri aðstöðu og þeim starfskröftum, sem þyrftu að vera fyrir hendi, ef hún ætti að geta unnið sitt verk nægilega. En væntanlega verður úr því bætt. En auk þess vil ég bæta því við, að það er náttúrlega ekki ástæða til að vera að setja allt sitt traust á skattarannsóknardeild í þessu efni. Við höfum okkar skattayfirvöld, og þau eiga fyrst og fremst að fara yfir framtöl manna, og þau geta gert sínar aths. við þau, og þau geta áætlað skatta, ef þeim finnast framtölin tortryggileg. Hvers vegna er ekki gengið fram í þessu? Hvers vegna er það látið viðgangast að almenningur hér í borg t.d. viti það og geti horft á fjölda manna, sem hann veit að borga ekki skatta eins og þeir eiga að gera, án þess að nokkuð sé aðhafzt í þessu efni, heldur alltaf verið að fara fram á nýjar heimildir til skattálagningar, sem bitnar svo á þeim, sem eru heiðarlegir og borga sína skatta, en hinir sleppa áfram?

Herra forseti. Ég hef kannske gerzt fullfjölorður um þetta. En sannleikurinn er sá, að þegar maður fer að hugsa um þessi mál og tala um þau, þá getur maður ekki varizt því að verða gramur, því að þau eru í því öngþveiti, að það mætti hafa um það miklu fleiri og miklu stærri orð en ég hef hér haft, og meðan svo er um framkvæmdina, er ekki réttlætanlegt að vera að koma fram á hv. Alþingi og vera alltaf að fara fram á nýjar og nýjar skattaálögur.

Hæstv. fjmrh. hefur talað fagurlega og réttilega til almennings um það, að þjóðin verði að gá að sér og það megi ekki gera allt of miklar kröfur. Það er rétt. En ég skýt því nú inn, að það má sjálfsagt lengi búast við því, að þjóðin geri kröfur. En hlutverk stjórnar er að standa gegn þeim kröfum, ef þær eru ekki rökstuddar, og stjórna, en ég held, að það væri heppilegri byrjun á öllum þessum málum að byrja á því að gera kröfur til sjálfs sín, að þeir, sem stjórna, ættu að gera kröfur til sín og gera kröfur til ríkisins um, að það gengi á undan með góðu eftirdæmi og færi eitthvað að draga saman seglin, því að um það getum við sjálfsagt öll verið sammála, að það er nauðsynlegt að fara að spyrna við fótum nú og reyna að stöðva sig í því verðbólguflóði, sem er sífellt að verða ægilegra og ægilegra og enginn sér í raun og veru fyrir endann á og engum ætti að vera ljósara en hæstv. ráðherrum, hve alvarlegt er. Ef snúizt væri af alvöru við þeim málum, mundi ekki standa á okkur framsóknarmönnum að taka þátt í því. En það er ekki hægt að segja, að það sé gert af neinni alvöru, þegar alltaf er snúizt við á þann hátt, sem manni helzt virðist vera gert, að það eru lagðir á nýir og nýir skattar og tekið inn meira og meira fé, og svo er það réttlætt með því, að það sé ráðið til þess að standa á móti verðbólgunni. Eins og það sjái ekki hvert mannsbarn, að það hefur ekki nokkur áhrif, þó að teknir séu svo og svo miklir skattar, ef þeir eru jafnóðum látnir út, eins og nú er gert. Þar sem sagt er, að hagur ríkisins sé nú svo, að það muni koma út með halla, þá sjá það náttúrlega allir, að skattarnir geta ekki haft nein áhrif til stöðvunar verðbólgu. Hitt er svo annað mál, hvort það, burt séð frá því, sé heppileg leið til þess að hafa hemil á verðbólgu. Ég held, að skattaleiðin sé ekki heppileg í því efni, enda þótt ýmsir hagfræðingar hafi viljað hampa þeirri leið, og ég held, að reynslan hér hjá okkur tali nú einmitt sínu máli í því efni.

Ég ætla svo bara að lokum að benda á það, eins og ég raunar benti á í sambandi við þetta mál í fyrra, að ég álít þá skattheimtu, sem er í þessu frv., alls ekki eiga heima í því. Hér er um skattlagningu að ræða, hækkun á eignarskatti að formi til. Þessi hluti eignarskattsins, sem stafar af þessu hækkaða fasteignamati, rennur beint í ríkissjóð, alveg eins og hver annar hluti eignarskattsins. Þess vegna á þetta ekki heima í þessum lögum. Öðru máli gegndi, ef það hefði verið ákveðið, að þessi skattur væri þannig afmarkaður, að hann skyldi renna í sérstakan sjóð, byggingarsjóð. Þá hefði hann mátt vera í þessum lögum. En eins og er á hann auðvitað heima í lögum um breytingu á tekju- og eignarskatti. Það segir sig sjálft. Í 22. gr. laganna um tekju- og eignarskatt er það beinlínis berum orðum tekið fram, að eignarskattur skuli miðaður við virðingu fasteigna að fasteignamati, og með þessu ákvæði er verið að breyta því fyrirmæli, og þess vegna eiga lög, sem breyta því, að vera lög um breytingu á tekju- og eignarskattslögum, en ekki lögum um húsnæðismálastjórn ríkisins. Þetta er lagatæknilegur ágalli. Það má kannske segja, að það sé ekki svo mikið leggjandi upp úr því, en ég er þó á nokkuð annarri skoðun um það. Ef haldið verður áfram á slíkri braut, veldur það náttúrlega alveg óviðeigandi ruglingi. Næst mætti þá fara svo að t.d., ef ætti að styrkja sjávarútveginn, að það mætti setja í lögin um aðstoð við útveginn ákvæði um það, að skip skyldu t.d. talin að kostnaðarverði að frádregnum fyrningum margfölduð til eignarskatts. Það mætti alveg eins fara að ákveða það þá í hinum og þessum lögum. Og þá er alveg auðsætt, að það tæki engan enda, og væri á allan hátt óviðeigandi, ef þannig ætti að fara að.

Auk þess og að allra síðustu vil ég svo benda á, að það er svona rétt á mörkunum, að það sé sýnandi svona lagagrein eins og er þarna, 2. gr., þar sem segir, að í stað orðsins „þrefaldað“ í 2. málsl. b-liðar 4. gr. komi orðið „sexfaldað“. Það veit ekki nokkur lifandi maður, hvað á að sexfalda. Það hefði verið útlátalítið að taka upp meginmál þessarar gr. í þessa brtt., svo að það sæi þó sá, sem les þetta, venjulegur maður, hvað það er, sem á þarna að vera að sexfalda.

Ég skal svo ekki, herra forseti, fara fleiri orðum um þetta, en endurtek það, sem ég í upphafi sagði, að ég er út af fyrir sig með þeim breytingum á húsnæðismálalögunum, sem í frv. þessu felast og til bóta horfa, en er algerlega andvígur þeirri skattlagningu, sem í þessu frv. felst.