26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég tel ástæðu til að segja, og þau snerta í rauninni aðeins staðreyndir varðandi undirbúning þessa máls.

Hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að þar sem þær till., sem hv. framsóknarmenn öðru hverju hafa flatt hér á hv. Alþ. um athugun á þessu máli, hefðu ekki verið samþykktar, hefðu þær athuganir ekki verið gerðar, sem þeir hefðu talið æskilegar, og gætu þeir því ekki tekið aðra afstöðu til þessa máls en þá, sem þeir raunverulega hafa tekið. Ég vildi aðeins í sambandi við þetta vekja athygli á því, að eins og fram kemur í nál. hv. minni hl. fjhn. Nd., var á Alþ. 1953 samþ. þáltill. frá nokkrum hv. framsóknarmönnum, og ég veit ekki annað en það hafi einmitt verið á grundvelli þeirrar þál., sem hv. 1. þm. Austf., sem þá gegndi embætti fjmrh., skipaði hagfræðinganefndina í þetta mál árið 1956 og hún skilaði áliti. Enn fremur vil ég í þessu sambandi aftur minna á þá till., sem ég flutti um verðtryggingu lífeyris. Ég man, að þegar hún kom til umr. í hv. Sþ., kvaddi sér þar hljóðs hv. 3. þm. Norðurl. v. og minnti þá á þær till., sem hv. framsóknarmenn hefðu flutt á undanförnum þingum, sem að vísu gengju lengra í þessu efni heldur en mín till. og ekki höfðu verið afgreiddar. Samt sem áður sagðist hann mundu styðja mína till., og er engin ástæða til þess af mér að vanþakka það, að bæði í n. og við afgreiðslu málsins á þingi var þessi till. studd af hv. framsóknarmönnum og samþ. Það var m.a. einmitt þetta, sem hvatti mig til þess að fara kannske dálitið út fyrir þann stakk, sem till. var sniðinn, þannig að ég tók verðtryggingarmálið almennt til meðferðar í mínu áliti. Hitt skal svo viðurkennt, að hvorugt þessara álita mun hafa komið fyrir sjónir hv. þm., og ég get vel sagt það, að ég tel það yfirleitt ósið, að þegar slíkar till. eru samþ. og þm. langar til að fá athugun á vissum málum, skuli slíkum álitsgerðum vera stungið undir stól, og í þessu efni eru vinstri stjórnin, sem sat, þegar hin hagfræðinganefndin starfaði, og sú hæstv. ríkisstj., sem var við völd á síðasta kjörtímabili, jafnar. En ég dreg enga dul á það, að ég tel þetta miður farið. Þó að hvorugt þessara álita megi e.t.v. teljast gagnmerkt, hefði það, að hv. þm. hefðu átt kost á því að kynna sér þau, leiðrétt margvíslegan misskilning, sem komið hefur fram við umr. málsins hér á hv. Alþingi.

Þriðja athugunin, sem hefur farið fram á þessu máli, er sú athugun, sem Seðlabankinn hefur stofnað til. Í bankaráði Seðlabankans, sem allir þingflokkar eiga sæti í, hef ég ekki orðið var við það, að ágreiningur kæmi fram um þetta mál. Hins vegar vil ég taka það fram, að á frv., eins og það nú liggur fyrir, ber seðlabankaráðið ekki ábyrgð, hvorki í heild né einstakir menn. Það er seðlabankastjórnin og sérfræðingar hennar, sem að tæknilegum atriðum í sambandi við það hafa unnið.

Svo vildi ég aðeins segja það, að ég er sammála hv. 6. þm. Sunnl. um það, að þegar litið er á verðtryggingu sem tæki gegn verðbólgunni, eru þeim mun meiri líkur á árangri, eftir því sem verðtryggingin verður viðtækari. Á því eru þó tæknilegir örðugleikar að gera hana víðtæka í upphafi, m.a. sá, sem fram kom í álitsgerð Landsbankans, sem hv. 6. þm. Sunnl. las hér upp kafla úr, að vegna þess að mikið af lánum bankanna er bundið í óverðtryggðum lánum, tekur það alltaf sinn tíma, þangað til hægt er að gera jafnvel fjárfestingarlán vísitölubundin, því að engum hefur dottið í hug, að lánastofnanirnar ættu að bera kostnað af verðtryggingunni. Það verða auðvitað lántakendur að gera. Hinu vildi ég vekja athygli á, að til þess að verðtryggingin nál tilgangi sínum, er það í rauninni ekki aðalatriði, hversu víðtæk hún verður. Mér finnst, að varla komi t.d. til álita að verðtryggja fé, sem hægt er að taka út hvenær sem eiganda þess sýnist. Sparifjáreigendur verða alltaf að kaupa verðtrygginguna því verði að binda fé sitt um skemmri eða lengri tíma. Það getur verið álitamál. hvað sá tími eigi að vera langur. Ég held, að einmitt aðalatriðið í sambandi við það að draga úr hvöt manna til að eyða peningum sínum til þess að forða þeim frá verðrýrnun eða fjárfesta þá á óskynsamlegan hátt, a.m.k. frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar, sé það, að menn eigi þess kost að verðtryggja fé sitt, en hitt sé ekki endilega nauðsynlegt skilyrði, að það verði alltaf stór hluti sparifjárins, sem verðtryggður er.