22.02.1966
Efri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í frv. þessu er að venju lagt til, að samþykktar verði þær niðurstöðutölur, sem endanlega hafa orðið á ríkisreikningi, og er það frv., sem hér er um að ræða, varðandi ríkisreikninginn fyrir árið 1964. Reikningurinn hefur verið endurskoðaður af yfirskoðunarmönnum Alþ., og eru prentaðar með reikningnum aths. þeirra, svo og svör við þeim aths. og loksins úrskurðartill. þeirra um þau svör.

Þegar hefur Alþ. verið gerð grein fyrir afkomu ríkissjóðs árið 1964 og niðurstöðum á ríkisreikningi í meginatriðum, og sé ég því ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist til. að fara að gera hér frekar að umtalsefni þær einstöku niðurstöðutölur, sem fyrir liggja, enda hefur það verið venja, sem eðlilegt er, að hv. fjhn. athugi þessar niðurstöðutölur, beri þær saman við reikninginn og það komi þá fram frá henni aths., ef hún telur ástæðu til, er gætu þá skapað grundvöll að umr. um reikninginn. Ég mun því ekki hafa þessi inngangsorð mín fleiri, herra forseti, en leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.