21.03.1966
Efri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá fjhn. og hv. frsm. n. gerði grein fyrir, þá mælum við framsóknarmennirnir í fjhn. eins og aðrir nm. með því, að ríkisreikningurinn fyrir árið 1964 verði samþ. sem rétt skýrsla um tekjur og gjöld ríkissjóðs á árinu 1964, auðvitað með venjulegum fyrirvara um leiðréttingar á villum, sem fram kunna að koma síðar.

Yfirskoðunarmenn hafa ekki gert neinar þær aths. við reikninginn, er þeir vísi til úrskurðar Alþ., eins og hv. frsm. n. gat líka um. Hins vegar fylgja reikningnum 16 aths., sem yfirskoðunarmennirnir gera um meira og minna mikilsverð atriði, sem þeir telja að eigi að taka til greina eftirleiðis, þó að við svo búið verði að standa að þessu sinni. Undir þessar aths. vil ég taka og tel, að samþykkt reikningsins feli í sér slíkar undirtektir frá fjhn.

Það, sem einkennir reikninginn og ekki er hægt að ganga þegjandi fram hjá, þótt hann sé réttur sem skýrsla, er, hve eyðslan flóir þar yfir alla bakka. Fjárlögin eiga að vera farvegur, en eyðslunni hefur ekki verið haldið í þeim farvegi. Víða hefur stórstreymi orðið út úr farveginum. Í heildinni hefur svo farið, að fjáraukalög þurfa að vera í útgjöldum að upphæð 666.2 millj. kr., og það er um það bil fimmta hver króna útgjalda á reikningnum. Svo óraunhæf hafa fjárlögin 1964 orðið. Má þar vafalaust ýmsu um kenna: ónógri vandvirkni við setningu laganna, meira vaxandi dýrtíð en gert var þá ráð fyrir og svo of lausum tökum á framkvæmd laganna, en allt felur þetta í sér ásökunarefni á hæstv. ríkisstj. og má ekki kyrrt liggja, þó að reikningurinn fái jákvæða afgreiðslu sem skýrsla um orðna hluti.

Ég vil nefna sem dæmi um lausatök, að það, sem nefnt er „annar kostnaður ráðuneytanna“, var á 10. gr. í fjárl. 4 millj. kr., en varð í framkvæmd 8.4 millj. kr. eða meira en tvöföldun. Þá var á sömu gr. fjárl. 350 þús. kr. liður ætlaður „til kostnaðar við kjarasamninga“, en þetta urðu 1.8 millj. kr. eða meira en fimmföldun. Trúir nokkur því, að þarna hafi verið vel á haldið? A.m.k. talar þessi umframeyðsla alvarlegu máli um það ástand, sem var í kaupgjaldsmálum á árinu. Þetta er stríðskostnaður ríkisstj. á þeim vettvangi og óþakkarverður.

Sameiginlegur kostnaður við embættisrekstur er áætlaður á fjárlögunum, 11. gr. C, 2.2 millj., en varð rúmlega 4 millj. Þar flóir ekki svo lítið út úr hlutfallslega.

Á 11. gr. B er kostnaðurinn við ríkisskattanefnd og skattstofur. Það er einmitt liður, sem talað hafði verið hátt um, að yrði vegna hagræðingar mjög glæsilegur sparnaðarliður. Hann er á fjárl. 15.5 millj. kr., en varð samkv. ríkisreikningnum 23.3 millj. kr. Þarna hefur því illa bilað „hengilás, hespa eða kengur“.

Ég er ekki að gera samfellda úttekt á ríkisreikningnum, ég nefni bara dæmi til þess að láta koma fram, að þar er margt athugavert efnislega, þótt við svo búið verði að standa og reikningurinn verði að afgreiðast.

19. gr. er í eðli sínu ruslakompa og mikil ruslakompa á þessum reikningi. Þar eru „óvissu útgjöldin“, og þar er allt fljótandi í óhóflegum tölum, sem auðvitað er ekki gott að festa hendur á, því að ekki hefur verið kostur á að skoða liðinn niður í kjölinn. Óviss útgjöld voru samkv. fjárlögum 1964 14 millj. kr., en urðu í reynd 18.1 millj. Þarna er bifreiðakostnaður ríkisstj. 1.1 millj. og ferðakostnaður embættismanna ríkisins erlendis 1.6 millj, og þó ekki allur í þeirri fjárhæð. Þar eru fjárhæðir vegna forsetaembættisins, sem nema um 600 þús.: Bretlandsför og heimsókn hertogans af Edinborg. Mér er spurn: Hvers vegna er það ekki látið koma fram í einu lagi á ríkisreikningnum, hvað æðsta stjórn landsins kostar? Það virðist vera óþarfi að setja svona háa líði í óviss útgjöld. Þá er þarna útgjaldaliður, sem nefndur er „lagafrv. og reglugerðir,“ 1.6 millj., og nefndakostnaður rúml. 2 millj. kr. og þó fleira, sem flokka mætti undir nefndakostnað, upphæðin því enn hærri til nefndarstarfanna. Ég sé ekki betur en þarna séu freyðandi rásir út úr farvegi fjárlaganna, Í þessu og þvílíku er ekki hægt um vik fyrir fjhn. Alþ. að þreifa til rótar. Þessum liðum þurfa þeir, sem með fjármál ríkisins fara, að gæta vel að og gæta þess að missa ekki fé ríkissjóðs út um greipar sér. Mér er spurn: Geta t.d. ekki embættismenn ríkisins samið reglugerðir í föstum vinnutíma? Þarf að greiða aukalega fyrir þau störf svo mikið sem gert hefur verið?

Mikið efni til athugunar er skýrsla sú, sem fylgir reikningnum, um ábyrgðir, sem ríkið eða ríkisábyrgðasjóður hefur greitt á árinu 1964. Þar ber hátt tvær greiðslur fyrir Ísfirðing h/f á Ísafirði, samtals á sjöundu millj. kr. Þar er greiðsla fyrir Ásfjall h/f í Hafnarfirði 1.2 millj. kr., greiðsla fyrir Guðmund Jörundsson vegna togarans Narfa 2.5 millj., greiðsla fyrir Ísfell h/f vegna togarans Sigurðar 3.5 millj., greiðsla fyrir síldar- og fiskimjölsverksmiðju á Akranesi 3.7 millj. kr., greiðsla fyrir fyrirtækið Skagfirðing nálega 2 millj.

Ekki er annað vitað en a.m.k. sumir þeirra, sem ríkið hefur borgað ábyrgðir fyrir, gangi eftir sem áður með fullar hendur fjár og leiki sér jafnvel að peningum. Mér virðist þarna geta verið viðsjárverð meðferð ríkisfjár, a.m.k. er hún það til að sjá. Erfitt er að vera sannfærður um, að fulls réttlætis sé þar ætið gætt, þegar skuldarar eru krafðir.

Ég rak mig þarna á greiðslur vegna Hafnarfjarðarbæjar. Datt mér þá í hug að athuga, hvað ríkið hefur greitt fyrir bæinn eða fyrirtæki hans á síðustu árum, því að mér hafði skilizt, að hann væri sá skuldari, sem mest hefði reynt á ríkið með föllnum ábyrgðarskuldum. Virtist mér, að ríkið mundi hafa greitt vegna Hafnarfjarðar og fyrirtækja hans á síðustu árum um 35 millj. kr. Þetta er dálagleg fúlga eða svo má þeim sveitarfélögum finnast, sem stritað hafa við að standa á eigin fótum. Von er, að sú spurning vakni, hvort ekki hafi verið mögulegt að komast hjá slíkum greiðslum að einhverju leyti a.m.k.

Yfirskoðunarmenn benda á, að óinnheimtar tekjur ríkissjóðs hafi færzt í aukana og séu í árslok 1964 103 millj. kr. eða 1/3 hærri en við næstu árslok á undan og meira en helmingi hærri en við árslok 1962. Þetta er slæm þróun, og það verður að reyna að taka fyrir hana. Má segja, að tréð rotni í báða enda, þegar hvort tveggja er, að álögur hækka ár frá ári og innheimta þeirra slaknar líka ár frá ári.

Ég legg til, að ríkisreikningurinn 1964 verði samþ., en í þeirri till. minni felst alls ekki velþóknun yfir þeirri meðferð ríkisfjárins, sem reikningurinn segir sögur af. Ég tel, að þær sögur sumar geti verið og eigi að vera dæmisögur til viðvörunar þeim, sem fara með fé ríkisins eftirleiðis, og þess vegna hef ég bent á þessi atriði, sem ég nefndi.