21.10.1965
Efri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál að sinni. „Frv. þetta er flutt í samræmi við yfirlýsingu þá um húsnæðismál, sem ríkisstj. gaf í sumar í sambandi við samninga verkalýðsfélaganna um kjaramálin.“ Þannig segir í aths. við lagafrv. Þetta er ekki að öllu leyti rétt, og á það vildi ég sérstaklega benda nú.

Það eru a. m. k. 3 atriði, sem ég hef rekizt á í þessu frv., sem ekki er hægt að segja, að séu beinlínis í samræmi við þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. gaf í sumar í sambandi við samninga verkalýðsfélaganna.

Það er þá í fyrsta lagi atriði, sem hefur verið gert að umtalsefni hér við þessa umr., og það er sexföldun fasteignamatsins. Um það ákvæði í þessu frv. hefur ekkert verið fjallað af hálfu verkalýðsfélaganna, að því er ég bezt veit. Hæstv. ríkisstj. skuldbatt sig til þess í samkomulagi við verkalýðsfélögin í fyrra að leggja fram árlega 40 millj. kr. Í því samkomulagi var heldur ekki neitt ákveðið til fulls um, á hvern hátt þessara 40 millj. skyldi aflað, — þessara 40 millj., sem átti að greiða úr ríkissjóði. Það var talað um það, að þess fjár skyldi aflað með hækkun eignarskatts eða með öðrum hætti. Það var gengið inn á það á s.l. vori á síðasta þingi, að afla þessa fjár með þreföldun fasteignamatsins við ákvörðun eignarskatts. Þessi hækkun var ekki talin það veruleg, að gengið yrði þar í móti. Nú kemur í ljós, að til þess að afla þessara 40 millj., sem ríkissjóður á að greiða, nægir þetta engan veginn, þessi þreföldun fasteignamatsins, heldur verður nú að sexfalda fasteignamatið. Með þessu tel ég, að þetta mál horfi allt öðruvísi við en áður. Það getur verið vit í að hækka einhvern skatt í hófi, en jafnfráleitt að hækka hann fram úr öllum skorðum. Á þetta vildi ég benda. Ég tel það vera mjög mikið vafamál, að hér sé rétt að farið. Og ég tel það engan veginn liggja beint við að ná þessum 40 millj. með þessum hætti. Það geta verið margar aðrar leiðir til þess að ná 40 millj. í ríkissjóð, enda upprunalega gert ráð fyrir því, að því yrði allt eins vel náð með öðrum hætti.

Þá er í þessu lagafrv. ákvæði um afnám laga um hámark húsaleigu o. fl. Ég veit ekki til, að þetta atriði komi fram í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. frá í sumar. Ég get vel fallizt á það, að 1. um hámark húsaleigu o. fl. séu orðin úrelt og það sé mjög mikil þörf á breytingu á þeim. En ég vil leggja áherzlu á, að ég tel þörf á breytingu á ákvæðum húsaleigul., miklu meiri áherzlu á það heldur en afnám húsaleigul. Og það, sem hér er skakkt gert að mínum dómi af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu frv., það er að afnema l. án þess að láta ný lög koma í staðinn í þessu efni. Það eina rétta að mínum dómi var, að hæstv. ríkisstj. hefði hlutazt til um, að lagt yrði fram frv. til nýrra húsaleigul. og í lok þeirra l. hefði verið ákvæði um afnám gildandi l. um þetta efni. Þetta vil ég leggja mikla áherzlu á líka, að þetta verði athugað gaumgæfilega nú í sambandi við athugun þessa frv.

Loks er eitt atriði enn í þessu frv., sem ég vil vekja athygli á. Í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. um húsnæðismál segir, að þeir meðlimir verkalýðsfélaga, sem kost eiga á að kaupa þær 200 íbúðir á ári, sem um ræðir, skuli eiga kost á allt að 80% láni út á verðmæti íbúðanna að meðtöldu gatnagerðargjaldi. Hér er fastákveðið, að þessir meðlimir verkalýðsfélaganna, sem hér um ræðir, skuli eiga kost á allt að 80% láni, þ.e.a.s. þeir eiga rétt á þessu. En í frv. er alls ekki gert ráð fyrir því. Það er alls ekki gert ráð fyrir því, eins og frv. er orðað, og það er í 3. gr., 2. mgr., þar er ekki gert ráð fyrir því, að viðkomandi meðlimir verkalýðsfélaganna eigi kröfu, eigi rétt á þessu, heldur er það svo orðað, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að veita þessum mönnum 80% lán. Ég vil vekja athygli á þessu. Ég vona, að þetta sé aðeins athugunarleysi, og að þessu fáist breytt í það horf, sem um getur í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. um þetta mál.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en vildi aðeins vekja athygli á þessum þrem mikilsverðu atriðum, sem ég nú hef greint frá.