29.04.1966
Neðri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

113. mál, ríkisreikningurinn 1964

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segir, að það sé mikils um vert fyrir alþm. að fá ríkisreikninginn sem fyrst til yfirlits, og ekki neita ég því. En ég vil benda á, að ríkisreikningur hefur alltaf áður og jafnt í tíð þeirra ríkisstj., sem sátu á undan þeirri, sem nú er í valdastólum, verið lagður fyrir Alþ. á næsta ári eftir að það gerðist, sem þar er bókfært, þó að reikningurinn væri ekki samþ. oft og einatt fyrr en siðar. Þetta hefur alltaf verið gert. Þess vegna þarf ekki að hverfa frá neinni venju, sem hæstv. ráðh. var að tala um, þó að þess sé krafizt, að ríkisreikningurinn sé ekki afgreiddur frá þinginu fyrr en endurskoðuninni er lokið. Það er hægt að leggja hann fyrir Alþ. á næsta ári, eftir að þeir atburðir gerðust, sem reikningurinn fjallar um.

Hæstv. ráðh. segir, að endurskoðuninni hafi verið flýtt undanfarið. Ég skal ekki mæla á móti því, að það hafi verið gert. En eins og ég gat um áður, var mikið enn óendurskoðað af reikningnum 1964 og það, sem hæstv. fjmrh. ætti að gera, er, að hann ætti að herða á endurskoðuninni í rn., hlutast til um, að henni væri flýtt enn þá meira en gert hefur verið, þannig að reikningurinn geti sem allra fyrst legið fyrir fullendurskoðaður. Þá fyrst eru þessi mál komin í viðunandi horf, þegar þingið samþykkir reikning, sem er fullendurskoðaður.

Ég hef stundum í umr. um þetta mál áður minnzt á hliðstætt dæmi og það er afgreiðsla sýslunefnda á reikningum hreppanna. Sýslunefndir eiga að úrskurða reikninga hreppa, hver á sinu svæði, og ég veit ekki nokkur dæmi þess, að sýslunefnd samþykki hreppsreikning, sem hefur ekki verið að fullu endurskoðaður. Ef eitthvað þykir athugavert eða ekki að fullu gengið frá endurskoðun, er frestað að samþykkja hreppsreikninga í sýslunefndum og þeim visað heim, til þess að hægt sé að ljúka endurskoðuninni, eins og lög mæla fyrir um. Þennan hátt ætti Alþ. einnig að hafa. Samþykkt á ríkisreikningnum má skoða sem nokkurs konar kvittun frá Alþ. til fjmrn. fyrir reikningsskilum, og slíka kvittun á ekki að láta að mínum dómi, fyrr en reikningur er að fullu endurskoðaður.

Þá er það aðeins aths. mín um veginn. Hæstv. ráðh. segist ekki hafa haft minnstu afskipti af því. Ég skal ekkert um það segja. En ég vil aðeins benda á, að ríkisreikningurinn er undirskrifaður af hæstv. ráðh., og hann hlýtur að bera ábyrgð á því öðrum fremur, sem þar er fært.