14.10.1965
Neðri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

12. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. því miður er það svo, að í hverri einustu ræðu, sem hv. þm. heldur, er um einhvern meiri háttar misskilning að ræða. Einnig í þeim fáu orðum, sem hann sagði síðast, er um grundvallarmisskilning að ræða um þau efni, sem hann ræddi um. Auðvitað er það rétt, að í margháttaðri löggjöf eru ákvæði um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Í tryggingalöggjöf eru ákvæði um bætur, sem greiða skuli í ýmsum tegundum trygginga. Í jarðræktarlögum eru ákvæði um upphæð jarðræktarstyrks, meira að segja í skólalöggjöf eru ákvæði um það, hvern þátt ríkið skuli taka í rekstrarkostnaði skóla, annaðhvort eitt eða ásamt sveitarfélögum. En það, sem ég var að benda á, var, að það væri ekki reglan, að í löggjöf væri tekin ákvörðun um framkvæmdafé. Ég man ekki eftir neinum þætti skólalöggjafarinnar, að þar sé ákveðið, hversu mikið ríkið skuli leggja fram til skólabygginga. Það eru ekki í löggjöfinni um barna- og gagnfræðaskóla nein ákvæði um það, hversu mikið fé ríkið skuli leggja fram árlega til byggingar þessara skóla. Það er ákveðið á hverju ári í fjárlögum. Í iðnskólalöggjöfinni núna eru engin slík ákvæði. Í löggjöfinni um menntaskóla eða kennaraskóla eða tækniskóla eru engin slík ákvæði um greiðslu stofnkostnaðar af ríkisins hálfu. Auðvitað eru ákvæði um það, eftir hvaða reglum skuli greiða rekstrarkostnað þessara skóla, en það er allt annað. Og ég vil að síðustu endurtaka, að ég tel mjög óeðlilegt að flytja ákvæði um framlög ríkisins til framkvæmda, til stofnkostnaðar skólabygginga og annarra framkvæmda, úr fjárlögunum, þar sem þau hafa verið, og yfir í hina almennu löggjöf.