24.02.1966
Neðri deild: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

12. mál, iðnfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu þessa máls, og ég vil láta sérstaka ánægju í ljós yfir því, að n. skuli hafa verið sammála og mæla með samþykkt frv. Ég vona, að þetta þýði það, að hér eftir, eftir þetta samkomulag, eigi frv. greiðan gang í gegnum hið háa Alþingi. Það er rétt að undirstrika það sérstaklega, að með samþykkt þessa frv. tel ég eitt hið merkasta spor stigið á sviði íslenzkra fræðslumála og íslenzkra iðnaðarmála, sem stigið hefur verið um langan aldur. Með stofnun og starfrækslu Tækniskóla Íslands og samþykkt þessa frv. er lagður grundvöllur að gerbreytingu, ég vildi segja gerbyltingu á sviði íslenzkrar tæknimenntunar. En með stórbættri tæknimenntun er enginn vafi á því að lagður er grundvöllur að stóraukinni velmegun á næstu árum og áratugum hér á Íslandi. Þess vegna tel ég sérstaka ástæðu til þess að fagna því, að almenn samstaða skuli hafa náðst um afstöðu til málsins.