01.03.1966
Neðri deild: 49. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

12. mál, iðnfræðsla

Frem. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. þm. snerti eitt af meginatriðum þessa frv., sem er einmitt að opna möguleika fyrir því að stórauka verklega kennslu og miða síðan að því, þegar þess verður kostur, a.m.k. í allmörgum greinum, að allt iðnnámið geti farið fram í skólum. Hins vegar þótti ekki ástæða til að hafa ákvæði frv. eða laganna rýmri, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Vitað er, að verknámsskólar, sem gætu annazt alla kennslu iðnnema frá byrjun til lokaprófs, eru það miklar stofnanir og dýrar, að það mun taka okkur langan tíma að byggja þá upp. Er búizt við því, að það verði einmitt sérstakar greinar, sem komi fyrst, þar sem aðstaða er slík, að erfitt er að nema á vinnustöðum. Ég get nefnt sem dæmi útvarpsog sjónvarpsvirkja. Fjöldi þeirra ferðast á milli heimila til viðgerða og annars slíks, og það þykir hentugra að kenna þeim á einum og sama stað. Ég get líka nefnt hárgreiðslu, sem er iðngrein, sem talið er hentugast að kenna með verklegri kennslu í skóla. Þessar greinar munu koma fyrst, en hinar koma á eftir.

Það eru fleiri ákvæði, sem hafa verið sett inn í lögin og sýna það, að vilji er að stefna í þessa átt, svo sem það ákvæði, er sett var inn í 23. gr., þar sem segir, að ef iðnskóli taki nemanda i nám til sveinsprófs í ákveðinni grein, þá skuli skólinn hafa sömu skyldur gagnvart honum sem um meistara væri að ræða, að svo miklu leyti sem við getur átt.

Ég tel því, að með þessu frv. sé stefnt í þá átt, sem hv. þm. taldi æskilegt að fara, ef til vill ekki eins langt og hann vildi, en þó það langt, sem nokkrar líkur eru til, að unnt verði að framkvæma um alllangt árabil. Hugmyndin er sú sama bæði hjá þeim, sem sömdu þetta frv., þeim, sem hafa mælt með því, og hjá hv. þm. og aðeins um að ræða, hvort ástæða sé til á þessu stigi að gera ákvæðin viðtækari en þau eru. Þeir, sem sömdu frv., telja þetta vera nógu rúm ákvæði um alllanga framtíð.