21.10.1965
Efri deild: 5. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki gefa tilefni til frekari umr. með þeim orðum, sem ég læt hér falla á eftir. Ég vildi aðeins minnast hér á örfá atriði í ræðum hv. stjórnarandstæðinga um þetta frv., en jafnframt færa þeim þakkir fyrir þær yfirlýsingar þeirra, að þeir væru meginefni þessa frv. samþykkir og teldu það mjög til bóta, og vænti ég, að það komi fram í skjótri afgreiðslu málsins hér í hv. þingdeild.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að það hefði verið ánægjulegra, ef þetta frv. eða þær breytingar. sem þetta frv. fæli í sér, hefðu komið fram frá stjórninni ótilneyddri, eins og hann komst að orði. Ég vil aðeins í sambandi við þetta skýra frá því, að ástæðan til þess, að hægt er að fara inn á þær nýju leiðir, sem óhjákvæmilega þýðir stóraukin útgjöld, er það, að jafnframt því að semja um þessar nýju leiðir við verkalýðshreyfinguna, eins og fram hefur komið áður. að er meginástæðan til flutnings þessa frv., þá var jafnframt samið um nýjar tekjuöflunarleiðir. Það var á sínum tíma samið um 1% launaskatt, skyldusparnaður var hækkaður úr 6% í 15% og það var ákveðið og lögbundið ákveðið framlag ríkisins til þess að komast yfir byrjunarörðugleikana í þessum efnum. Það er ekki heldur alls kostar rétt, að þetta frv. feli ekki í sér aukin útgjöld, eins og kom fram í síðari ræðu hans. Það er óhjákvæmilegt, að þeir möguleikar, sem opnaðir eru fyrir sveitarfélögin, sbr. 1. gr. frv., hljóta að þýða aukin útgjöld varðandi byggingu leiguíbúðanna. Það sama gildir um þá íbúðaáætlun, fjöldaframleiðslu íbúða, sem fyrirhuguð er. Hún hlýtur einnig óhjákvæmilega að þýða aukin útgjöld.

Í sambandi við ræðu hv. 9. þm. Reykv. um það, sem hann taldi vera í þessu frv. umfram það, sem samið hefði verið um við verkalýðshreyfinguna. þá var það að ýmsu leyti á nokkrum misskilningi byggt. Hann sagði, að ákvæðið um skattinn hefði ekki verið umsamið. Það má sjálfsagt um það deila, hvað sú setning þýðir, að þessi skattur skyldi tekinn með fasteignagjöldum eða á annan hátt. Það var staðfest hér í fyrra, að sú leið skyldi farin, og hún er endurtekin hér aftur nú. Afnám húsaleigulaganna sagði hann einnig að ekki hefði verið um samið. Það má segja, að orðrétt hafi það ekki verið gert. En það er til þess ætlazt, að þær íbúðir, sem byggðar verða á vegum sveitarfélaganna, verði leigðar á sannvirði. Til þess að það sé hægt að leigja þessar íbúðir á sannvirði, þarf að breyta núverandi húsaleigulöggjöf. Sé þessi gamla löggjöf því ekki afnumin, má búast við því, að sveitarfélögin leggi ekki út á þá braut að byggja sem nokkru nemur af þessum leiguíbúðum, sem allir eru þó sammála um að mjög vanti á íbúðamarkaðinn í dag. Þetta er því bein afleiðing af samkomulaginu, að afnema verður þessi lög, ef menn vilja ekki eftir sem áður láta gamla og úrelta löggjöf beinlínis standa í vegi fyrir því, að nýjar leiguíbúðir komi á húsnæðismarkaðinn.

Þriðja atriðið, sem hv. 9. þm. Reykv. fann að, var, að orðrétt skyldi ekki vera talað um skilyrðislausan rétt til íbúðalánanna, þ.e.a.s. til þeirra íbúða, sem byggja á skv. íbúðaáætluninni, það væri skilyrðislaust í samkomulaginu, en aðeins heimild í þessu frv. Ég tel, að hvort tveggja sé í heimildarformi: „skulu eiga rétt á allt að“ o.s.frv. og „heimild sé til allt að“. Þetta er aðeins orðamunur, en ekki meiningar, og ég vænti þess, að sú nefnd, sem málið fær til umr., athugi þetta atriði nánar. Það er áreiðanlega ekki hugmynd ríkisstj. að víkja í nokkru frá því, sem þetta margnefnda samkomulag, sem er undirstaða þessa frv., gerði ráð fyrir.