26.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

12. mál, iðnfræðsla

Fram. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til 1. umr. hér í hv. þd., gerði hæstv. menntmrh. grein fyrir efni frv. í stórum dráttum og þeim breytingum, sem í því felast frá gildandi löggjöf, og enn fremur þeim breytingum, sem gerðar höfðu verið á frv. í hv. Nd. Þær aðalbreytingar, sem í frv. felast, eru raktar í grg., sem fylgir, og ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um það efni.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 550, hefur menntmn. lagt til einróma, að frv. verði samþ. með einni breytingu, en sú breyting er við 12. gr. frv. Þar segir, að ráðh. skuli ákveða skólasetur að fengnum till. iðnfræðsluráðs, en brtt. n. er um það, að þessi málsl. orðist þannig: „Ráðh. ákveður skólasetur að fengnum till. iðnfræðsluráðs og sýslunefnda og bæjarstjórna í hlutaðeigandi skólaumdæmi.“ Það þótti eðlilegt að setja inn í lögin beinlínis ákvæði um þetta efni, þar sem þessir aðilar munu væntanlega þurfa að bera kostnað af framkvæmd l. og því ekki óeðlilegt, að þeir fái að tjá sig um atriði, sem eins miklu máli skiptir og það, hvar skólasetur skuli vera.

Þó að niðurstaðan yrði sú, að n. flytti aðeins eina brtt. við frv., voru þó nokkur atriði rædd í n., sem hún þó að athuguðu máli taldi ekki rétt að flytja till. um.

Það má búast við því, að þessi löggjöf, sem væntanlega verður samþ. nú, áður en þingi lýkur, hafi ýmsa nýbreytni í för með sér, og viðbúið, að hún þurfi einhverra lagfæringa við, þegar reynsla er komin á framkvæmd hennar og þá auðveldara að gera sér grein fyrir, hverra breytinga kunni að vera þörf umfram þær, sem þegar hafa verið gerðar í hv. Nd. Hins vegar held ég, að allir séu sammála um, að það sé mikill ávinningur að þessari nýju löggjöf, og þótti okkur í hv. menntmn. því ekki ástæða til þess að tefja fyrir, að frv. hlyti fullnaðarafgreiðslu þegar á þessu þingl. nema það væru þá einhver atriði, sem við teldum að væri bráðnauðsynlegt að breyta.

Ég ætla að leyfa mér að fara hér nokkrum orðum um eitt atriði, sem við ræddum í n. smávegis og ég hef velt allmikið fyrir mér, sem sé það, hvort og þá á hvern hátt væri hægt að tengja gagnfræðaskóla verknáms náið við iðnfræðslukerfið. Hér er í Reykjavík starfandi gagnfræðaskóli verknáms með járnsmíðadeild og trésmíðadeild. Þessi skóli er til húsa í nýrri byggingu og verkstæði þar búin góðum og fullkomnum tækjum. Nemendur fá þar hina beztu kennslu. Kennarar í verklegum greinum eru allir meistarar og hafa auk þess kennararéttindi, sem er þó heldur sjaldgæft, að unnt sé að fá kennara að slíkum skóla, sem hafi hvor tveggja þessi réttindi. Í þessum skóla stunda nám nú í vetur á þriðja hundrað nemendur, um 210 nemendur, sem skiptast nokkurn veginn jafnt á milli deildanna tveggja, járnsmíðadeildar og trésmíðadeildar, og mér er kunnugt um það, að vinnuveitendur sem hafa fengið í þjónustu sína nemendur, sem útskrifazt hafa úr Gagnfræðaskóla verknáms, hafa talið þá bera af sínum jafnöldrum í störfum á þeim sviðum, sem þeir hafa stundað nám í skólanum. Þegar það er athugað, hve stór hópur unglinga stundar nám þarna í skólanum, eru það ekki svo fáir, sem það snertir, bæði unglingarnir sjálfir og þeirra aðstandendur, hvort eða hvaða réttindi námið getur veitt síðar meir. Ég hef við nánari athugun á þessu sannfærzt um það, að það getur varla verið um það að ræða að setja Gagnfræðaskóla verknámsins alveg jafnfætis verknámsskóla iðnaðarins, forskóla iðnaðarins. Annars staðar á landinu, utan Reykjavíkur, eru verknámsdeildir gagnfræðastigs víða til, en í Reykjavík ætla ég, að sé eini gagnfræðaskóli verknáms, og sú fræðsla sem nemendur fá annars staðar, er mér sagt, að sé ekkert sambærileg við þá kennslu, sem nemendur hljóta í þessum skóla hér, Gagnfræðaskóla verknáms í Reykjavík. Og á hitt er að lita, að ef Gagnfræðaskóli verknáms ætti að veita alveg sömu réttindi og verknámsskólar iðnaðarins, yrði væntanlega að skipuleggja námið algerlega í samræmi við það, sem verður í verknámsskóla iðnaðarins, og má þá reyndar segja, að þá væri eðlilegast að fella Gagnfræðaskóla verknámsins hreinlega inn í iðnfræðslukerfið og undir sömu yfirstjórn. Ég get því tekið undir þessa skoðun, sem kemur fram á bls. 45—46 í grg. með frv., í skýrslu um störf iðnfræðslunefndar, sem vann að undirbúningi þessa frv. Það var eitt af verkefnum þeirrar n. að rannsaka, hvort unnt væri að samræma eða sameina verknámsskóla gagnfræðastigsins og forskóla fyrir væntanlega iðnnema eða verknámsskóla iðnaðarins. Iðnfræðslunefnd komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki unnt að gera það, nema, eins og ég áður sagði, hreinlega að samræma það þá algerlega verknámsskóla iðnaðarins og þá lægi beinast við að taka þá beint inn í iðnfræðslukerfið. En hins vegar telur iðnfræðslunefnd, að það komi til álita, hvort ekki sé unnt, að uppfylltum vissum skilyrðum, að láta þá nemendur verknámsdeilda gagnfræðastigsins, sem hafa hug á iðnnámi, njóta veru sinnar í því verknámi með þeim hætti, að þeir fengju styttingu á námstíma sínum á vinnustað, enda fari nám slíkra nemenda í verknámsdeildum gagnfræðastigsins fram eftir námsreglum, sem yfirvöld iðnfræðslunnar staðfesta, eins og segir orðrétt í skýrslu iðnfræðslunefndar.

Það hefur tíðkazt nú um skeið, að nemendur, sem hafa útskrifazt úr gagnfræðaskóla verknáms, sem er tveggja ára skóli og lýkur með gagnfræðaprófi, nytu þess að nokkru, ef þeir fara svo í iðnnám og í iðnskóla. Það hefur verið þannig, að þeir hafa þurft að fullnægja skilyrðum um vissar einkunnir í tilteknum greinum, sem er samræmt því, þegar tekið er próf upp úr 1. bekk iðnskólans, og eru m.a. sömu prófdómendur í háðum skólunum, svo að kunnátta nemenda á þá að vera nokkurn veginn jöfn í þeim efnum í þeim greinum, í hvorum skólanum sem þeir taka próf. Enn fremur er skilyrði það, að þeir hafi stundað verklegt nám í tilskilinn tíma, og hefur iðnfræðsluráð sett reglur um skilyrði í þeim efnum. Eins og ég áður sagði, hafa nemendur að uppfylltum þessum skilyrðum fengið að setjast í annan bekk eða sleppa við 1. bekk í iðnskólanum hér, og í skýrslu iðnfræðslunefndar segir í lok þess kafla, sem ræðir um verknámsskóla gagnfræðastigsins, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur því, eins og oft áður er komið fram, gert ráð fyrir því, að nám í 4. bekk verknámsdeildar komi eftir hæfilegu mati til frádráttar á bóknámi forskóla eða iðnskóla og verknámi vinnustaðar, en ekki í stað verknáms forskóla.“

Með tilliti til þess, sem þarna kemur fram, hef ég a.m.k. gengið út frá því, að þetta mundi verða framkvæmt þannig og þeir nemendur, sem útskrifast úr Gagnfræðaskóla verknáms hér í Reykjavík, muni áfram fá að njóta þess, að þeir hafa lokið námi í þeim skóla, sem að sjálfsögðu mundi koma fram í styttingu þeirra námstíma í iðnnáminu. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér, og að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, a.m.k. ekki á þessu stigi.