19.04.1966
Neðri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

9. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti.

Í frv. um veitingu ríkisborgararéttar, sem lagt var fram á Alþ. í haust, eru fjögur nöfn. Nefndin hefur haft til meðferðar þetta frv. á allmörgum fundum og gerir till. um, að til viðbótar þeim 4 nöfnum, sem eru í 1. gr. frv., komi 32 nöfn, sem prentuð eru á þskj. 494.

Enn fremur vil ég leyfa mér f. h. nefndarinnar að flytja hér skriflega brtt. um, að við 1. gr. frv. bætist í stafrófsröð: Bieldvedt, Ole Anton, tannlæknir í Kópavogi, fæddur í Noregi 8. marz 1906. Skv. þessu er því lagt til, að 37 menn fái ríkisborgararétt.

Í sambandi við meðferð málsins í allshn. hefur verið hafður sami háttur á og á undanförnum árum, að undirnefnd hefur starfað ásamt undirnefnd frá allshn. Ed. til þess að samræma störf beggja nefnda, og er fullt samkomulag á milli undirn. í báðum þd. og sömuleiðis allshn. Nd. í heild um þetta frv. ásamt þeim brtt., sem frá hefur verið skýrt.

Í sambandi við þær umsóknir, sem borizt hafa, hefur verið farið eftir þeim reglum, sem settar voru í nál. frá allshn. 17. maí 1955 og siðan hafa verið gerðar nokkru fyllri, og hafði n. þær nú einnig til hliðsjónar við athuganir sinar. Eru þessar reglur prentaðar á þskj. 507.

Skv. þessu, sem hér liggur fyrir um þá 37 menn, sem lagt er til að fái ríkisborgararétt, þá eru 16 þeirra fæddir í Þýzkalandi, 5 í Færeyjum, 3 í Danmörku, 1 í Tékkóslóvakíu, 1 í Júgóslavíu, 3 í Bretlandi, 2 í Noregi, 1 í Svíþjóð, 1 í Ungverjalandi, 1 í Japan og 3 fæddir á Íslandi, en hafa misst ríkisborgararéttindi sín hér og sækja um þau að nýju.

Það hefur verið fylgt þeim reglum, sem prentaðar eru með nál. varðandi ríkisborgararéttinn, að öllu leyti nema að því er varðar umsóknir 6 umsækjenda. Það er fyrst nr. 11, en þar er um að ræða barn, sem hefur verið ættleitt af íslenzkum foreldrum og n. taldi ekki ástæðu til að synja um að fengi ríkisborgararétt, og þar með er gengið fram hjá búsetuskilyrði í reglunum. Þá er nr. 14 í brtt. júgóslavneskur flóttamaður, en um það fólk hefur gilt sama og um flóttafólk, sem kom frá Ungverjalandi á sínum tíma. En áður en það fólk fluttist hingað, var því heitið því, að það yrði aðstoðað við að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt svo fljótt sem lög leyfðu, en það var gert á árinu 1958. Þá hafði íslenzka ríkisstj. samþ. það samkv. áskorun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna að veita fólki þessu framtíðarhæli hér á landi, og gildir það um umsækjanda nr. 14 og umsækjanda nr. 27. Þá eru þrír aðrir. Það er umsækjandi nr. 16, 24 og 25. Þessir aðilar uppfylla öll þau skilyrði, sem sett eru, að öðru leyti en því, að það vantar nokkuð upp á búsetuákvæði, sem eru 10 ár hvað snertir þessa umsækjendur alla. En af sérstökum ástæðum og fyrir það, að mjög hefur verið skorað á allshn. og Alþ. að veita þessu fólki ríkisborgararétt, m.a. frá heilu bæjarfélagi hvað tvo snertir, hefur n. tekið þessi nöfn upp í sínar tillögur, og að þessu einu leyti, hvað snertir þessar 6 umsóknir, er ekki að fullu og öllu farið eftir þeim reglum, sem settar voru 1955, og viðbótum við þær, sem síðar voru settar.

Ég tel, að það þurfi ekki að — fara um þetta fleiri orðum. Það er samhljóða álit allshn. að veita þessu fólki ríkisborgararétt, bæði því, sem n. leggur fram till. um á þskj. 494, og einnig þessum eina umsækjanda, sem n. flytur hér skriflega brtt. um.