05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð að lokum í tilefni af síðustu ummælum hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ). Hann sagði, að ég hefði ekki nefnt önnur dæmi um hliðstæð gerðardómsákvæði í samningum milli ríkja og einstaklinga en ákvæðin í olíusamningnum milli Íslands og hins sovézka olíuútflytjanda. Það er varla hægt að ætlast til þess, að ég eða nokkur annar hér hafi handbæra skrá yfir samninga, sem erlend ríki hafa gert við einstaklinga í öðrum ríkjum, þannig að ég geti lesið upp um það lista eða lesið upp úr þeim ákveðnar greinar. Ég tel það líka vera algerlega þarflaust. Það, sem hv. þm. er að reyna að láta liggja að í sínum málflutningi, er, að þessi gerðardómsákvæði íslenzka álsamningsins séu allt að því einsdæmi. Það felst í ummælum hans. Það er sú ályktun, sem almenningi er ætlað að draga af ummælum hans, að hér sé um eitthvert nær því einsdæmi að ræða. En það veit ég, að hann veit jafnvel og ég, ef ekki miklu betur, að hér er hann að vekja alranga hugmynd hjá þeim, sem kynnu að taka mark á orðum hans vegna hans sérfræðiþekkingar á þessu sviði. Færustu menn í alþjóðarétti hafa sagt mér, að á undanförnum áratugum og ekki sízt á undanförnum árum hafi það mjög færzt í vöxt, að ýmiss konar gerðardómsákvæði séu tekin í þá ótalmörgu samninga, sem í gildi eru og stöðugt er verið að gera á milli fyrirtækja í einu landi og annars ríkis. Langstærstu dæmin um þetta, stærstu samningarnir þess eðlis, þar sem um langmestu fjármunina er að tefla, eru auðvitað olíusérréttindasamningarnir á milli hinna stóru olíufélaga víðs vegar í heiminum, bæði í Evrópu og Ameríku, og ýmissa annarra ríkja. Allir vita, að þeir samningar eru til, og allir vita, að það eru hinir stærstu viðskiptasamningar eða fjárfestingarsamningar, sem gerðir hafa verið í efnahagssögu mannkynsins. Þeir heyra til stærstu samninga, sem gerðir hafa verið um fjárfestingu og viðskipti í þróunarsögu efnahagsmálanna. Í nær öllum slíkum samningum eru slík gerðardómsákvæði, og þau eru af ýmissi tegund, og um það, hvers eðlis heppilegast sé að hafa þau, hefur mönnum sýnzt nokkuð sitt hvað á undanförnum árum. Þetta hlýtur hv. þm. að vera nákvæmlega jafnvel kunnugt og mér. Og olíuvinnslan og olíuviðskiptin eru auðvitað ekki einu þess konar viðskipti, sem átt hafa sér stað um fjárfestingu. Um viðskipti á ótalmörgum öðrum sviðum efnahagslífsins hefur verið að ræða. Á sviði samgangna á landi, í járnbrautabyggingu og járnbrautarekstri, á sviði samgangna á sjó, á sviði samgangna í lofti og alls konar iðnaðarsviði hefur verið einmitt um þess konar samninga að ræða og þá, sem íslenzka ríkið er nú að gera við svissneska álfélagið, og þar sem um margfalt, margfalt meiri fjármuni hefur verið að tefla en hér er að tefla, og þróunin hefur verið sú í alþjóðarétti, vaxandi viðleitni hefur verið í þá átt að hafa sem líkust gerðardómsákvæði í slíkum samningum. Þetta hefur Alþjóðabankanum verið ljóst. Hann hefur náin kynni af þessu í gegnum lánveitingar sínar til fyrirtækja, mjög stórra fyrirtækja í öllum heimsálfunum, og þess vegna hefur Alþjóðabankinn viljað beita sér fyrir því, að meðferð þessara deilna sé samræmd, og hefur einmitt viljað beita sér fyrir því, að sams konar gerðardómsákvæði verði sett í alla slíka samninga. Það er meiningin með þeim samningi, sem hér er um að ræða.

Auðvitað er sjálf viðleitni Alþjóðabankans í þessum efnum, auðvitað er sjálf tilvist uppkastsins að samningnum, sem hér liggur fyrir, sönnun fyrir því, að ótal slíkir samningar eru til með ýmiss konar gerðardómsákvæðum. Það þarf ekki frekar vitna við. Þess vegna er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að gefa í skyn, að ákvæði álsamningsins íslenzka séu einhver einsdæmi. Og nauðsyn gerðardómsákvæða í slíkum samningum kemur einmitt berlegast fram í því, að gerðardómsákvæði er eitt grundvallaratriði þess samnings, sem hér er um að ræða. Einn af hornsteinum hans er einmitt, að til skuli vera almenn gerðardómsákvæði í samningum milli einkafyrirtækja og annarra ríkja, og af þeim umr., sem ég hef orðið vitni að um þetta efni á alþjóðlegum vettvangi, og almennum undirtektum aðildarríkja Alþjóðabankans felst ótvíræð viðurkenning á því, að það væri mikið framfaraspor, að slík alþjóðastofnun kæmi upp og almenn gerðardómsákvæði væru tekin í slíka samninga og hlutaðeigandi aðilar féllust á, að sáttanefnd og gerðardómur fjölluðu um þær eftir almennum reglum.

Eftir þessar upplýsingar trúi ég ekki, að gerð verði tilraun til þess að halda því fram enn, að gerðardómsákvæði eins og það, sem í álsamningnum felst, sé eitthvert einsdæmi í veröldinni eða í efnahagssögunni. Og ég endurtek að síðustu það, sem ég sagði áðan, — þar gætti örlítils misskilnings af hálfu hv. 3. þm. Norðurl. v., — að ég tel það tvímælalaust þjóna íslenzkum hagsmunum; að í álsamningnum skuli vitnað í almennan alþjóðlegan samning, sem allar líkur benda til, að helztu aðildarríki heimsverzlunarinnar muni gerast aðilar að, varðandi gerðardómsákvæði og meðferð deilna. Ég tel það tvímælalaust þjóna íslenzkum hagsmunum, að gerðardómsákvæði samningsins milli Íslands og álfélagsins séu sams konar og gert er ráð fyrir í þessum samningi, fremur en að algerlega óháð sérákvæði gildi um hugsanlegar deilur á milli íslenzka ríkisins og svissneska álfélagsins. Það hlýtur að auka réttaröryggi, ekki aðeins fyrir Ísland, heldur líka fyrir svissneska álfélagið, ef hugsanlegar deilur fá meðferð í alþjóðastofnun samkvæmt alþjóðasamningi og eftir reglum, sem eru viðurkenndar af miklum meiri hluta helztu aðildarríkja heimsviðskiptanna.