05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. sagðist ekki vera við því búinn nú að nefna þá samninga, sem gerðardómsákvæði hliðstæð því, sem er í 47. gr. fyrirhugaðra álsamninga, væru í. Það tek ég gott og gilt. Ég geri ekki kröfu til þess, enda þótt gera megi ráð fyrir, að að því hafi verið hugað, áður en frá þessu samningsákvæði var gengið, hvort ekki væru fyrir hendi einhverjar slíkar fyrirmyndir. En ég vil þá biðja hann að koma með upplýsingar um það atriði, þegar álsamningurinn verður á sinum tíma ræddur hér í þessari hv. d. Það, sem ég hef spurt um, er þetta: Getur hann bent á slíkar fyrirmyndir eða hliðstæð ákvæði í samningum, sem nágrannaríki okkar hafa gert við einkaaðila eða við fyrirtæki, sem eru skrásett þar í landi?

Það ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að fá upplýsingar um þetta, vegna þess að milliríkjasamningar eru skrásettir nú hjá Sameinuðu þjóðunum, og það er hægt að fá upplýsingar um það, hvers efnis þeir samningar eru, og þetta getur stjórnin sett menn í að gera og kanna og á að geta upplyst um þetta. Þá mun hið sanna um þetta koma í ljós og ætti ekki að þurfa um það að deila.

Hinu hef ég aldrei mótmælt, að það kynnu að vera einstakir samningar, sem slík ákvæði væru í, og hæstv. ráðh. kom inn á það nú síðast og nefndi ýmsa olíuvinnslusamninga. Og það er þá rétt, að það komi fram sem sagt, hvaða samningar það eru, sem við er miðað og hliðstæð ákvæði kunna að finnast í.

Hæstv. ráðh. sagði líka, að þessi gerðardómssamningur, sem við erum hér að ræða, hlyti auðvitað að byggjast á því af hálfu Alþjóðabankans, að Alþjóðabankanum væri kunnugt um, að það væru í samningum mörg gerðardómsákvæði. En ég vil benda á, að það hefur enga þýðingu i þessu sambandi, því að þau gerðardómsákvæði mundu ekki skuldbinda aðila til þess að leggja þau mál í gerð fyrir þessari stofnun. Til þess þarf alveg skýlaust eftir 25. gr. skriflegt samþykki í hvert einstakt skipti.