09.11.1965
Efri deild: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Mér þótti að mörgu leyti ánægjulegt að sjá þetta frv., þegar hæstv. ríkisstj. lagði það fram. Ég hafði á síðasta Alþingi, þegar húsnæðismálastofnunarlögin voru þar til umr. og afgreidd í þeirri mynd, sem þau nú eru. Þ. e. lögin frá 10. maí 1965, lagt áherzlu á, að lánsfjárhæðir ættu að hækka með hækkandi dýrtíð, en inn á tillögur um það var ekki gengið og till. um það felld. Nú er í frv. þessu gert ráð fyrir hækkun lána skv. byggingarvísitölu frá 1. apríl 1964 og jafnvel ofur lítilli hækkun, hvort sem vísitalan breytist til hækkunar eða ekki næstu fimm ár.

Þá er gert ráð fyrir að hækka lánin úr 150 þús. á íbúð upp í 200 þús. kr. hjá þeim, sem hófu byggingarframkvæmdir á tímabilinu 1. apríl til 31. des. 1964. Um slíka hækkun var ekki til neins að tala eða flytja tillögur á síðasta þingi. Þetta voru spor í rétta átt og gleðilegt, að þau skuli stigin, þótt stutt séu og seint gengin. Hitt er aftur á móti leiðinlegt vegna Alþingis, að sjá og vita, að það, sem hæstv. ríkisstj. fékkst ekki til að fallast á hér á Alþingi. lætur hún kúga sig utan Alþingis til að fallast á stuttu seinna. Þetta vottar fskj. frv. Verkalýðsfélögunum skal síður en svo láð, þó að þau beiti aðstöðu sinni og samtakamætti til að þvinga ríkisstj. til að gera góða hluti. Hitt er mjög ámælisvert af ríkisstj., að láta samtökin þurfa að gera þetta. Alþingi er gerð vansæmd með því sem stofnun, að ríkisstj. beiti sér fyrir því að láta stuðningsmenn sína á Alþingi fella till., sem þar koma fram, en semur svo um það við utanþingsaðila nokkrum vikum seinna, að hún skuli beita sér fyrir samþykkt efnislega sömu tillagna á Alþingi. Þegar svona er stjórnað, verður mikill valdaruglingur, löggjafarvaldið er fært út úr Alþingi nema að formi til, þingræðið er lítilsvirt. Hvert getur þetta leitt? Ég spyr að fullu tilefni gefnu. Þetta er í áttina til afnáms þingræðisins.

Við framsóknarmennirnir í minni hl., 2. minni hl., mælum auðvitað með samþykkt frv., þótt við séum mótfallnir svona vinnubrögðum. En við teljum, að á frv. þurfi samt að gera breytingar, og flytjum við það 3 brtt. á þskj. 72.

Hæstv. ríkisstj. greip til þess við setningu húsnæðismálastofnunarlaganna í vor sem leið að setja þar ákvæði, sem grípa inn í löggjöfina um eignarskatt, til þess að mæta með því 40 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til húsnæðismálastofnunarinnar. Ákveðið var að þrefalda fasteignamat undir álagningu eignarskatts. Þetta mátti kallast fáránlegt tiltæki og óvenjulegt að fara inn í aðra löggjöf þannig eftir tekjum. Það er alvarlegt. Það minnir á hrafninn og aðferðir hans, þegar hann er að ná sér í mör hjá afvelta kind. Ekki var með nokkru móti hægt að gera sér fyrir fram grein fyrir því, hve miklar tekjur þetta mundi gefa ríkissjóði. Það var undir svo mörgu ófyrirséðu komið. Formælendur sögðu samt, að það gæfi 30–40 millj. kr. Nú er sagt, að tekjurnar af þessu verði ekki nema 16–19 millj. En hver veit það í raun og veru? Er búið að fletta sundur hverju og einu eignaframtali skattgreiðenda og reikna sérstaklega innan úr því, hvað fasteignamatsþreföldunin gefur út af fyrir sig? Ég er viss um, að það hefur ekki verið gert. Hér er því um handahófslega ágizkun að ræða, alveg eins og í vor. Eitt er víst í þessu sambandi eins og hv. 9. þm. Reykv. (AG) benti á, að hin fyrirhugaða viðbót gefur ríkissjóði meira fé en ákvæðið, sem fyrir er. Seinni þreföldunin gerir hærri skatt en sú fyrri, af því að sú lágmarksfjárhæð, sem er skattfrjáls, skerðir það álag ekki meir en orðið er við fyrri þreföldunina og fleiri verða skattskyldir við sexföldunina en þreföldunina. Loks geta sumir komizt í hærri skattstiga. Ákvörðun þessarar skatthækkunar er því mjög í blindni gerð um niðurstöður. Hún er að mínu áliti hálfóráðskennd skattæðisframkvæmd.

Á það ber einnig að líta, að fyrir stuttu var um það nokkurs konar fyrirheit gefið hér á hv. Alþingi, að sveitarfélögin skyldu njóta fasteignaskattsálöguréttar. Það var þegar neitað var um, að þau fengju hlutdeild í hækkun söluskatts. Með því að margfalda fasteignamat til eignarskatts er verið að sniðganga þetta fyrirheit. Það er farið að slá handa ríkissjóði á engi, sem búið var að úthluta sveitarfélögunum til slægna, eða þau höfðu ríka ástæðu til að telja, að sér væri ætlað. Ég veit, að ríkissjóður er í kröggum. Það leynir sér ekki á þeim örþrifaráðum ýmsum, sem hæstv. fjmrh. telur sig þurfa að grípa til með nýrri öflun tekna fyrir næsta ár, en sveitarfélögin eiga við sömu dýrtíð og ríkissjóðurinn að etja, og þess vegna verður að taka tillit til þeirra og má ekki ganga á hlut þeirra til að klóra í bakkann fyrir ríkissjóð, þótt hann standi illa, enda verður Alþingi að halda sín heit, bæði bein og óbein.

Við teljum, að fráleitt sé að sexfalda fasteignamatið undir álagningu eignarskatts. Nær lagi væri þá að hækka eignarskattinn með breytingu á löggjöfinni um hann, ef svo illa er ástatt með ríkissjóðinn, að það sé nauðsynlegt, til þess að hann geti greitt húsnæðismálastofnuninni lögboðið framlag.

1. brtt. okkar við frv. er í samræmi við það, sem ég nú hef sagt, að 2. gr. þess, sem er sexföldunin, falli niður.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um, að húsaleigulögin frá 1952 falli úr gildi nú þegar og engin lög um þau efni komi þá í staðinn. Ekki verður á móti því mælt, eins og komið hefur fram í umr. hér áður, að húsaleigulögin eru ekki virt mikils, enda tímar breyttir og verðlag, síðan þau voru sett. Þó er mér sagt, að Reykjavíkurborg fari eftir þeim um hámarksleigu húsnæðis þess, er hún selur á leigu, og svo kann að vera um fleiri sveitarfélög og máske fleiri aðila. Ábyrgðarhluti er því að afnema lögin, án þess að nokkuð komi í staðinn. Enginn veit, hverju það kann að raska, a. m. k. má telja líklegt, að húsaleiga breytist hjá leigjendum sveitarfélags, höfuðborgarinnar, og eru þeir sennilega þó ekki meðal hinna efnaðri borgara, sem slíkra viðskipta njóta. Skynsamlegra er að endurskoða lögin en að afnema eða a. m. k. endurskoða þau, áður en þau eru afnumin. Mér hafði skilizt, að afnámsákvæðið nú þegar sé af því sprottið, að framkvæmendur þessara mála telji nauðsynlegt að geta gefið út reglugerð þá, sem síðasta mgr. 7. gr. húsnæðismálastofnunarlaganna gerir ráð fyrir um leigu fyrir þær íbúðir, sem sveitarfélög og Öryrkjabandalag Íslands reisa í kaupstöðum og kauptúnum með lánum frá húsnæðismálastofnuninni, en talið, að sú reglugerð muni ekki fá staðizt gagnvart ákvæðum húsaleigulaganna, meðan þau eru í gildi. Þetta eru mjög skiljanlegar ástæður. En ekki þarf að afnema húsaleigulögin til þess að bæta úr þessu. Það er hægt að heimila undanþágu frá tilteknum ákvæðum þeirra með lögum. Við leggjum þess vegna til, að það verði gert.

2. brtt. okkar er um það, að úr 6. gr. verði fellt ákvæðið um algert afnám húsaleigulaganna nú þegar.

En 3. brtt. er aftur á móti um, að upp í ákvæðin til bráðabirgða verði tekin heimild til undanþágu frá ákvæðum fyrrnefndra húsaleigulaga um hámark húsaleigu vegna þeirra húsa, sem sveitarfélög og Öryrkjasamband Íslands reisa fyrir lán frá húsnæðismálastofnuninni, þar til húsaleigulögin hafa verið endurskoðuð. Og ég tel fyrir mitt leyti, að einmitt svona ákvæði mundi reka eftir endurskoðun laganna, og hefði þótt gott að heyra yfirlýsingar hæstv. fjmrh. í því sambandi, að ráðstafanir hafi verið gerðar til að endurskoða þau, og ekki sé meiningin að afnema þau til frambúðar. Hitt tel ég svo óþarft og líka hættulegt í þessu sambandi, að hafa tímabil lagalaust í þessum efnum.

Hæstv. félmrh. fór vinsamlegum orðum um till. þessa áðan við umr. um þáltill., sem var hér til umr. á undan frv. þessu. Hann lét á sér ákveðið skilja, að hann teldi rétt, að heilbr.- og félmn. athugaði till. og segði álit sitt um það, hvort till. gæti leyst vandann, sem henni er ætlað að leysa. Með tilliti til undirtekta hæstv. félmrh. vil ég nú fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. frv., svo að fram geti komið álit n., áður en till. sú, sem ég var nú seinast að ræða, kemur til atkvæðis.